Kris Kristjanson

Vesturfarar

Kris fetaði í fótspor bróður síns, Baldurs, og kaus langskólanám. Ágæta samantekt um störf hans má finna í VÍÆ IV bls.175-176.  Kíkjum á hana :,,Að loknu doktorsprófi vann hann hagfræðirannsóknir fyrir Kanadastjórn árin 1944-45 og kenndi við búnaðarskóla Ontariofylkis 1945 -46. Starfaði síðan að rannsóknum við Wisconsin-háskóla og vann fyrir U.S. Forest Service 1949-50, en gerðist svo búnaðarráðunautur í landbúnaðarrðauneyti Bandaríkjanna (U.S. Department of Agriculture). Árið 1953 varð hann aðstoðarprófessor og seinna prófessor í búnaðarhagfræði við Nebraskaháskóla. Jafnframt var hann forseti fyrir Great Plains Council on Tenure Credit and Land Values. Kom aftur til Canada 1956 og gerðist embættismaður ríkisstjórnarinnar í Ottawa, fyrst í stjórnardeild þeirri, sem fjallaði um náttúruauðlindir landsins 1956-61. Var starf hans einkum bundið við notkun og virkjun vatnsfalla og þar á meðal til framleiðslu vatnsorku Colunbiafljótsins (Resources for Tomorrow Conference), sem getið er um í kaflanum um Baldur K Kristjánsson, skipulagði hann rannsóknirnar í þeirri deild, sem fjallaði um notkun vatns. Árið 1961 kom hann aftur til Manitoba  og tók að sér störf fyrir rafveitu fylkisins (Manitoba Hydro), fyrst sem umsjónarmaður í hagfræði (Director of Economics) og síðan, frá 1966, sem aðstoðarframkvæmdastjóri (Assistant General Manager). Er nú á vegum hans unnið að virkjun Nelsons-fljótsins til framleiðslu rafmagns fyrir Manitobafylki. Með leyfi Manitobastjórnar var hann sendur til Gana til til að leggja ráð á um vatnsvirkjun  í því landi. Hann hefur einnig starfað sem forseti fyrir Manitoba Land Inventory Board og skipað mörg embætti önnur. Hefur verið í Íslendingadagsnefndinni. Árið 1967 sæmdi Canadastjórn hann gullpeningi Þjóðhátíðarinnar (Centennial Medal) í viðurkenningarskyni fyrir störf hans.“