Caroline Gunnarsson eða Karólína var ritstjóri L.-H. í Winnipeg og ritaði góða grein um látna vinkonu og birti í blaðinu 4. nóvember, 1971. Þar segir m.a. ,,Hún ólst upp á rammíslenzku heimili á Gimli á því tímabili, sem bærinn líktist mjög íslenzku sjávarþorpi. Enda var hann byggður íslenzkum innflytjendum sem stunduðu fiskveiðar á Winnipegvatni og enn stóðu föstum fótum í íslenzkri menning. Margir þeirra vildu ekki með hót annað hafa. Oft mun þá hafa strítt á milli yngri og eldri kynslóða. Stundum var fastheldni foreldranna æskunni svo hvimleið að hún sleit sig frá erfðamenningunni eins fljótt og unnt var.“ Steinunn Anna var engin undantekning. Þegar hún komst á táningsárin byrjaði hún að vinna í verslun og fljótlega treysti kaupmaðurinn henni fyrir bókhaldinu. Hún var ráðinn framkvæmdarstjóri hjá mjólkurbúi í Riverton (Co-Operative Creamery) og síðan tók við bókhald í eigin fyrirtæki. Hún flutti til Winnipeg þar sem hún opnaði bókhaldsþjónustu og nefndi fyrirtæki sitt Business Clinic. Jafnframt sinnti hún áfram þjónustu við einstaklinga og fyrirtæki í Nýja Íslandi.