Birch Bay

Vesturfarar

Birch Bay Water and Sewer District – Serving Birch Bay For 50 Years!

Birch Bay, Mt. Baker í bakgrunni. Mynd bbwsd.com

Birch Bay

Birch Bay er þorp í norðvesturhluta Washintonríkis tæplega 12 km suður af Blaine. Flóinn var svo nefndur árið 1792 af Archibald Menzies, einum leiðangursmanna George Vancouver. Hann tók eftir ýmsum birkitegundum og þá kom nafnið. Staðurinn kom nokkuð við sögu íslensks landnáms í þessum landshluta á árunum 1888 – 1900. Margrét Jónsdóttir, betur þekkt sem Margrét J. Benedictsson skrifað um Blaine í Almanakið í Winnipeg árið 1926 og þar lýsir hún árum Guðnýjar Þorleifsdóttur úr Hjaltastaðaþinghá í N. Múlasýslu í Birch Bay. Sú lýsing gefur ágæta mynd af stðaháttum og mannlífi. Guðný flutti vestur um haf árið 1883, samferða bróður sínum, Jóni og fjölskyldu hans. Hér kemur frásögn Margrétar, sem hefst við komu Guðnýjar til N. Dakota..

,,Guðný fór þegar í vinnu til norsks bónda, Óla Lee, og konu hans, Þórunnar Halldórsdóttur. Þessi hjón bjuggu þá eigi all-langt frá Grafton í N. Dakota. Hjá þeim var Guðný  í 5 ár, og giftist á því tímabili Pétri Ó. Lee. Þeir Pétur og Oli voru systkinasynir. Vorið 1888 flutti Óli búferlum vestur að hafi, settist að í Birch Bay, um tíu mílur frá Blaine, og reisti bú á 40 ekrum, er hann keypti þar. Fáum mánuðum síðar fluttu þau hjónin, Pétur og Guðný vestur þangað, og keyptu 40 ekrur fjórar mílur frá Óla. Fyrsta árið voru þau til heimilis hjá Óla og Þórunni, en settust næsta ár á sitt eigið land. – Á þeim árum var Blaine að verða til. Ofurlítil verzlun var þá við Birch Bay – fjarðarbotninn. Þangað sóttu fyrstu landnemarnir í því umhverfi bráðustu nauðsynjar sínar. Þó segir Guðný, að þeir frændur, og líklega fleiri, hafi orðið að senda eftir tóbaki til Seattle, og sækja það gangandi til Ferndale, um 10 mílur suður þangað. Póstur kom til Birch Bay einu sinni eða tvisvar í viku – líklega frá Bellingham, sem þá hét Whatcome, en er nú stjórnsetur í Whatcome héraði, og heitir Bellingham. Eftir tíu ára veru í Birch Bay kom Guðný fyrst til bæjar – eða í kaupstað – og var það til Blaine, sem þá var í myndun. Svo lítið var þá um gangstéttir, að Guðný segist hafa komist í hann krappan, að ná þurrum fótum á ráðhús bæjarins, enda var þetta að vetrarlagi. – Fyrsta veturinn, sem Guðný dvaldi við Birch Bay, segir hún að hafi verið sá bezti vetur, sem hún hafi lifað, hvað veðurblíðu snerti (veturinn 1888-89). Menn hafi sáð í garða sína með marz-byrjun, og sumir jafnvel fyr, og heppnast vel. En næsti vetur þar á eftir segir hún að hafi verið sá kaldasti, sem hún hafi lifað hér vesturfrá. Árið 1890 byrjaði með norðaustan ofsaveðri og snjókomu, sem hélst að mestu óslitið fram að byrjun Marzmánaðar, og að fjörðurinn hafi þá verið lagður eins langt og augað eygði. Í sambandi við þetta má geta þess, að eg, sem þetta rita, hefi heyrt eldra fólk tala um „frostaveturinn mikla“, og að þá hafi verið ekið á sleðum, með hestum fyrir, yfir Drayton höfnina, sem bærinn Blaine stendur við að norðan, og er hugsanlegt, að það hafi verið þann sama vetur, sem Guðný talar um. Annars er það óvanalegt, að ísskarir sjáist með fjörðum þessum, og þá aðeins upp við Fjöruborð. Þess má og geta, að Drayton-höfnin er svo grunn, að  einungis mjór áll er eftir um háfjöru, og mundi það auðveldlega leggja, þó ekki festi ís, þar sem djúpsævi er meira. Eigi að síður er vert að geta þessarar merkilegu undantekningar, sem skeð hefir einu sinni á 40 árum eða meira. Hitt er alvanalegt, að knappar á trjám taki að springa út í febrúarmánuði og vorblómin í fullum blóma um miðjan marz. Það er og altítt, að menn setji niður kartöflur um miðjan marz og heppnast það mörgum vel.                                                                                    Þegar þau hjón, Pétur og Guðný, komu til Birch Bay, voru þar fáir landnemar og langt á milli þeirra. Næstu býli við þau voru þrjár mílur í burtu. Alt var landið í stórskógi og víða blautt. Þegar Guðný heimsótti nábúa sína kvaðst hún hafa orðið að stytta sig, eins og siður var kvenfólks á Íslandi. Einmanalegt var þar oft, þar sem maður hennar vann oftast í skógi við að fella tré fyrir sögunarmyllur, og hún var ein heima með börn sín, stundum bæði nætur og daga. Sérstaklega er henni ein nótt minnisstæð. Hún hafði lesið mikið um Indíána, og fátt gott; meðal annars það, að þeir matreiddu við elda undir beru lofti. Eitt kvöld sá hún reyk niður við fjörðinn, skamt frá heimili sínu. Bjóst hún við hinu versta, og að eigi mundi hún lifa til næsta dags; – auðvitað væru það Indíánar, sem elda þá kyntu og myndu þeir, er náttaði, brenna og myrða hana og börnin. Hún sofnaði ekki dúr alla þá nótt. En enginn vegur var að komast með börnin til næsta nágranna. Nóttin leið samt svo, að ekkert bar til tíðinda. Næsta kvöld kom bóndi hennar heim; hló að ótta hennar og fullvissaði hana um, að hér væru engir herskáir Indíánar  og reyndist henni það satt vera. Í Birch Bay bjuggu þau hjón þar til Pétur lézt 1916. Brá Guðný þá búi, leigði landið fyrst, en seldi það síðar Vilhjálmi Ögmundssyni, tengdasyni sínum. Sjálf er hún nú í Blaine, enn þá ern og kát, þrátt fyrir háan aldur.“