Séra Hafsteinn Pétursson

Vesturfarar

Séra Hafsteinn Pétursson Mynd Internet

Séra Hafsteinn Pétursson fæddist á Geithömrum í Húnavatnssýslu, sonur Péturs Frímanns Jónssonar og Ingibjargar Hafsteinsdóttur.  Í ritverkinu Saga Íslendinga í Vesturheimi IV segir um séra Hafstein:,, Hann lærði undir skóla hjá séra Páli Sigurðssyni á Hjaltabakka, útskrifaðist úr Latínuskólanum 1882, sigldi samsumars til Hafnar, las þar í 31/2 ár, tók próf í heimspeki, hebresku og kirkjufeðralatínu. Árið 1885 var hann eini Íslendingurinn, sem las guðfræði við Kaupmannahafnarháskóla. Fór heim til Íslands 1886 og tók embættispróf, fékk 1. einkunn. Hann ritaði nokkuð um þær mundir, þar á meðal grein um Magnús Eiríksson, sem birtist í Tímariti Bókmenntafélagsins 1887. Hann tók við starfi í Argyle 1889 og þjónaði þar til ársins 1893, fór þá til Winnipeg og var um tíma aðstoðarprestur fyrsta lúterska safnaðar. Séra Jón lá þá veikur lengi (Innsk. Séra Jón Bjarnason). Er hann komst til heilsu, vann séra Hafsteinn að stofnun Tjaldbúðarsafnaðar og var prestur þar í nokkur ár, unz hann gaf upp starf sitt hér og fór aftur til Kaupmannahafnar. Þar giftist hann, og mun hafa dáið þar seint á árinu 1929. Honum var sent boðsbréf á 50 ára afmælishátíð Argylebyggðar í júlí, 1931, þar sem ekki var þá kunnugt um andlát hans. Séra Hafsteinn þótti góður prestur, vel máli farinn og lærdómsmaður. Hann var samvizkusamur og naut mikilla vinsælda í Argyle. Í Winnipeg varð allmikil sundrung í kirkjumálunum, og séra Hafsteinn og Tjaldbúðarsöfnuður gengu úr kirkjufélaginu. Stóð allmikill styr um séra Hafstein um þær mundir, urðu út af þessu svæsnar ritdeilur, og voru engin grið gefin á hvoruga hlið.“