Séra Jón Jónsson

Vesturfarar

Séra Jón Jónsson Mynd ASÁAB

Í ritinu ,,Framhald Á Sextíu Ára Afmælis Bók“, þar sem fjallað er um sögu Álftavatns- og Grunnavatnsbyggða og kom út í Winnipeg árið 1950 skrifar ritstjóri þess, Skúli Sigfússon, um séra Jón Jónsson og segir:,,Séra Jón Jónsson var einn af landnemum þessarar byggðar, kom frá Íslandi árið 1900 og settist hér að og byrjaði búskap með börnum sínum. Hann hélt uppi messum á sunnudögum og öðrum helgidögum; jafnframt vann hann að því, að myndaður væri hér lúterskur söfnuður og var þar að miklu leyti hans áhrifum að þakka, var hann því fyrsti fastur prestur þessarar byggðar meðan heilsan leyfði. Sömuleiðis kom hann á sunnudagaskóla, sem hefir haldið áfram með góðu skipulagi. Að skrifa um hann sem prest, er mér ofvaxið og tek ég því upp hér grein eftir séra Hjört Leó, sem er í Sameiningunni og erv rituð eftir dauða hans í ágúst 1922 og set ég hér greinina orðrétta: ,,Séra Jón Jónsson andaðist á sjúkrahúsinu í Winnipeg 3. marz síðastliðinn. Helztu æviatriði hans eru þessi: Séra Jón var fæddur 15. júlí 1856 í Holti við Reykjavík á Íslandi. Foreldrar hans voru þau Jón Sigfússon Gunnlaugssonar Oddsen dómkirkjuprests í Reykjavík og Sigríður Jónsdóttir, ættuð frá Bólstaðahlíð í Húnavatnssýslu. Undir skóla lærði séra Jón hjá Helga E. Helgasyni, barnaslólakennara í Reykjavík, og gekk inn í lærðaskólann 1874. Þaðan útskrifaðist hann árið 1881. Byrjaði nám á prestaskólanum 1882 og útskrifaðist af þeim skóla 1886. Hann kvæntist sama ár Þorbjörgu Maríu Einarsdóttur Guttormssonar frá Hrafnagerði í Norður-Múlasýslu og vígðist til Kvíabekkjar í Ólafsfirði í Eyjafjarðarsýslu. Var hann þar prestur í þrjú ár. Næst fékk hann veitingu fyrir Hofi á Skagaströnd og var þar prestur til ársins 1896, fór svo til Vesturheims árið 1900 og flutti til Álftavatnsbyggðar, þar sem hann eyddi sínum síðustu dögum. “

Presturinn

,,Ég kynntist séra Jóni heitnum allnákvæmlega, sem eðlilegt var, því hann hafði gert tilraunir eftir að hann kom til Álftavatnsbyggðar, að koma hér á fót ákveðinni kristindómsstarfsemi, og hjálpaði mjög til þess, eftir að ég kom hingað, þó svo mætti virðast, að það væri niðurlæging fyrir hann sjálfan. Get ég þess, er ég rita um hann látinn, til að sýna hvað róttæk trú hans var og kærleikur til þeirra trúarbragða, er hann hafði vígst talsmaður fyrir. Prédikanir hans voru að mínu mati góðar, þó Grikkjum í Areopagus hefði ekki fallið þær í geð. Svo fer ætíð, þegar eitthvað nýtt er heimtað af kristninni til dægrastyttingar. En hann hafði eitt umtalsefni: Krist og hann krossfestan, og vildi ekki annað prédika, enda þótt opin braut hefði legið til vegsauka með því móti. Hann var þrekmaður á yngri árum og starfaði mikið. Eftir að hingað kom og börn hans þrjú komust á fullorðinsár, gátu þau tekið við starfi að sama skapi og heilsu hans hnignaði. Hann þráði mjög að komast til Íslands, eyða þar ellidögunum og deyja þar. Öllu íslenzku unni hann, fannst að hérnamegin hafsins væri hann gestur og framandi;  hann þráði enn meir föðurlandið himneska, þannig fór einnig Móse á Nebó. Við sálarsýn öldungs, er kraftar þverra, blasa þau tvö, ættlandið himneska og föðurlandið jarðneska. Og Drottinn kallar þá heim til sín. Og deyjandi biðja þeir hann fyrir hinu jarðneska föðurlandi.“

,,Séra Jón var jarðsettur í grafreit Lundarsafnaðar 9. marz, 1922, að viðstöddu fjölmenni….Séra Jón Jónsson kom í byggðina árið 1900 frá Hofi á Skagaströnd. Hann gerð eftir það öll prestsverk og messaði í samkomuhúsi byggðarinnar og oftast fyrir litla eða enga borgun. Hann vann að því að koma hér á söfnuði og kom því í framkvæmd með aðstoð kirkjufélagsins, var séra Runólfur sendur honum til aðstoðar, síðar gekk söfnuðurinn í Lúterska kirkjufélagið.“