Jónas Pálsson gerði tónlist að ævistarfi. Í VÍÆ IV bls. 222-223 er ágætt yfirlit yfir feril Jónasar: ,,Lærði fyrst að leika á orgel hjá Jóni Pálssyni á Eyrarbakka og seinna hjá Brynjólfi Þorlákssyni í Reykjavík. Innritaðist í Latínuskólann í reykjavík en hvarf frá námi og fluttist vestur um haf átið 1900 og settist að í Winnipeg, Man. Stundaði þar nám hjá vel þekktum kennara, J.W. Mathews, og byrjaði jafnframt að kenna unglingum og spila við messur í íslenzkum kirkjum í Winnipeg. Stundaði nám við The Royal Conservatory of Music í Toronto og lauk þaðan kennaraprófi í píanóleik um jólaleytið 1905. Kenndi síðan píanóleik við mikla og vaxandi aðsókn til 1912. Fór þá til frekara náms í London og var þar um tíma, en var þó lengst við nám hjá frægum rússneskum tónlistarkennara í Berlín í Þýzkalandi. Eftir tveggja ára nám kom hann aftur til Winnipeg og hafði þar tónlistarskóla til 1931, og svo í Calgary 1931-´33 og loks í New Westminster, B.C. frá 1933 til æviloka og kenndi þar hljómlist við The Columbian College. Hann fékkst og við æfingu söngflokka og gaf út kver með sönglögum fyrir blandaðar raddir. Þar í voru þrjú frumsamin lög eftir hann:,,Heim til fjalla“ ,,Órar“ og ,,Já, vér elskum Ísafoldu“. Eitthvað liggur fleira eftir hann af lögum.“
