Pálína Ketilsdóttir fæddist í N. Múlasýslu 21. ágúst, 1849. Dáin í Nýja Íslandi árið 1886.
Maki: Jón Guttormsson f. í S. Múlasýslu árið 1842, d. 1895 í Fljótsbyggð.
Börn: 1. Vigfús f. 1874 2. Guttormur f. 1878.
Pálína og Jón fluttu vestur um haf árið 1875 og voru í Ontario í Kanada fyrsta árið. Fluttu vestur í Nýja Ísland og bjuggu fyrsta árið á Gimli. Námu land í Fljótsbyggð og bjuggu þar alla tíð. Pálína var góðum gáfum gædd og hagmælt. Árið 1883 birti vikublaðið Leifur eftirfarandi ljóð eftir hana sem hún kallaði: Til Leifs.
Þá maí sólin munarblíð
merkur og engi tók að skreyta,
og yndi og frjógvun öllu veita
brunaði fram hin bjarta tíð;
vorlaukur fagur fram rjeð springa,
hreppi sá vísir heilla kranz
hollri und verndan eigandans.
Leifur ber sanna líking af
litfögru blómi menta og snilli
sjer hann ávinni sæmd og hylli,
sannleikans leiddur anda af;
Hann er það blóm, sem hjer um ræðir,
hann er það ljós, sem andan glæðir
hann er það sem að beinir braut
bjarta í gegnum stríð og þraut.
Velkominn Leifur ! vertu nú,
velkominn frændþjóð ætíð þinni,
sem ber til þín vinhlýtt bræðra sinni
og hyggst þjer veita holla trú,
heill sje þeim, sem lífsafl ljeði
Leifi og allri stefnu rjeði,
honum um víðlent verka svið
virðing og heppni standi að hlið.
