Svæðið vestur af Manitoba var kallað Norðvesturhérað áður en Saskatchewan varð fylki árið 1905. Landið í suðaustur hluta þess við landamæri Manitoba er nokkuð öldótt og af mörgum landkönnuðum talið heldur óspennandi. Það útskýrir hvers vegna innflytjendur frá Noregi og Svíþjóð stöldruðu þar lítið við og héldu áfram vestur uns þeir fundu sléttara svæði þar sem nú stendur bærinn Stockholm. Þarna settust þessir norrænu landnemar að og þangað lá leið nokkurra Íslendinga árið 1887 sem fyrr um sumarið komu að heiman til Winnipeg. Nokkurrar óvissa gætti með þeim um framhaldið svo þeir leituðu ráða hjá Frímanni Bjarnasyni sem vestur hafði farið frá Akureyri árið 1874 og var nú betur þekktur sem Frímann B. Anderson. Hann hafði undanfarin ár leiðbeint löndum sínum í vestur frá Winnipeg og bauðst nú til að fara fyrir þessum fámenna hópi frá Íslandi. Þeir undirbjuggu förina, keyptu vistir og lögðu af stað. Frímann vissi um norrænu byggðina sem áður var getið um og taldi vænlegast fyrir landa sína að leita þangað. Þegar til Brandon kom kusu tveir ungir og einhleypir bræður að ráða sig í vinnu, afla fjár, hjá bændum því uppskerutíminn var genginn í garð. Áfram var haldið og í fjarska sáu leiðangursmenn annan leiðangur koma að vestan og fyrir þeim var skoskur maður, Thomas Douglas að nafni. Nýkomnum af Íslandi var nokkuð brugðið þegar sá skoski stökk af vagni og faðmaði Frímann að sér. Í ljós kom að þeir höfðu kynnst nokkrum árum áður í Ontario og orðið vel til vina. Skotinn undirbjó komu landa sinna vestur á sléttu en þangað var þá bróðir hans kominn og hafði valið álitlegt svæði sunnar og talsvert austar. Ráðlagði hann Frímannni að fara þangað og heyra hvað bróðir hans hafði að segja áður en þeir færu lengra vestur. Þetta var mikið gæfuspor því þegar þangað var komið blasti við heilmikill dalur og eftir honum miðjum mikið land alllangt vestur. James Moffat Douglas hafði farið vestur þangað árið 1884 til að leita svæðis fyrir allmarga landa sína sem vildu vestur á sléttu. Þegar hér var komið sögu ríkti talsverð óvissa með þann hóp svo James þessi hvatti Íslendingana til að skoða lönd í austurhluta dalsins og sagði að helst vildi hann hafa íslenska nágranna.
Aldrei fór Frímann með þessa landa sína í nýlenduna umhverfis Stockholm því þeim leist vel sig í dalnum og fundust landshættir vera nokkuð íslenskir. Þarna skyldi land tekið og var þetta ákveðið 22. september, 1887. Þeir sem námu land þennan dag voru þeir Guðmundur Þorsteinsson, Sigurður Andrésson frá Ísafirði og Jón Ágúst Jónsson úr Mýrasýslu. Með þeim var umboðsmaður ríkisstjórnar sem sá til þess að farið væri að lögum. Það var tekið að rökkva og nú þurftu landnámsmenn að tiltaka hvaða fjórðung, ,,kvart“ af landi þeir ætluðu að taka sem heimilisréttarlönd en þau fengust gefins. Þetta var gert þarna rétt fyrir myrkur sem þótti varasamt því alveg gat verið að eitthvert þeirra væri lélegt. Umboðsmaðurinn tók fram að þeim yrði heimilt að skipta um land daginn eftir ef svo færi. Þess þurfti ekki, allir undu glaðir við sitt. Umboðsmaðurinn hvarf af vettvangi og næst var leitað að hentugum náttstað sem fannst sunnan í hól nokkrum sem síðan var ætíð nefndur Ágústhóll vegna þess að hann var í landi Jóns Ágústs. Þarna var tjaldað og sváfu þar allir. Eldavél höfðu menn keypt og var henni komið fyrir í rjóðri eigi alls fjarri. Þann 11. október komu bræðurnir Eiríkur og Tryggvi Þorsteinssynir á staðinn eftir að hafa unnið hjá bændum nærri Brandon.
Til að hefja búskap þurfti áhöld og skepnur en heldur voru þessir landnemar félitlir og því var afráðið að taka lán hjá North West Land Company og tóku bræðurnir þrír, Þorsteinssynir og Sigurður saman lán og fékk hver þeirra $82.50. Auk þess tóku tveir og tveir saman $500.00 til að kaupa kú og uxa. Flestir kusu land á dalbrúninni á frekar hæðóttu landi norðanmegin og var jarðvegur þar ágætur og gaf góða uppskeru þótt erfitt hafi reynst að vinna það í fyrstu í akra. Dalurinn heitir Qu’Appelle dalur en daldrög út frá honum fengu íslensk nöfn. Annar var kallaður Hjaltadalur en hinn Vatnsdalur. Sigurður Andrésson gaf byggðinni nafnið Vatndalsbyggð en þegar skólinn var byggður og honum gefinn nafnið Hólar breyttist nafn byggðarinnar í Hólarbyggð. Seinna varð það svo að Tantallonbyggð.