Elfrosbyggð

Vesturfarar

Fyrstu landnemar í Elfrosbyggðinni komu þangað árið 1903 nokkrir fluttu börn að aldri til Vesturheims með foreldrum sínum og ólust upp í íslenskum byggðum í Manitoba, N. Dakota eða Minnesota. Aðrir fæddust vestra og var Jón Hallgrímsson Goodman einn þeirra, fæddur í Nýja Íslandi árið 1877. Kona hans, Sigþrúður fór ársgömul vestur til Winnipeg árið 1888 með foreldrum sínum, Guðvalda Jónssyni og Kristínu Þorgrímsdóttur. Gunnar Gíslason var 5 ára þegar hann flutti vestur með sínum foreldrum, Gísla Jónssyni og Jarðþrúði Halldórsdóttur, árið 1883. Kona Gunnars var Anna Jakobína Bjarnadóttir fædd í Þingvallabyggð 1887 svo ekki flutti hún langt frá heimahögum. Foreldrar hennar voru Bjarni Stefánsson og Elín Eiríksdóttir landnemar þar í byggð. Ólafur Ólafsson fór vestur til Winnipeg árið 1893 með ekkjunni, móður sinni, Arndísi Sigurðardóttir og bræðrum. Hann nam land í byggðinni árið 1903. Áskell Jónsson (Keli J. Brandson) úr Dalasýslu og kona hans, Oddný Guðmundsdóttir settust að í byggðinni árið 1903 og bjuggu þar til ársins 1912. Á árunum 1903- 1906 höfðu 40 landnemar sest að í byggðinni og bjuggu sumir þar alla tíð.

Birkilækur í Vatnabyggð. Mynd Prairie Towns

Vestan við þorpið Elfros rennur Birkilækur eftir gili norður í Little Quill Lake. Allmikill skógur er meðfram læknum og nýtti Sigurður Arngrímsson sér það árið 1905 þegar hann kom í byggðina. Hann byggði mikið timburhús á vesturbakka læksins.