Fljótsbyggð

Vesturfarar

Landkönnunarnefndin sem valdi þetta svæði fyrir íslensku nýlenduna, Nýja Ísland í Norður Ameríku árið 1875 sigldi meðfram ströndinni og skoðaði vatnsbakkann  og það sem fyrir augu bar. Þeir könnuðu nánar svæðið þar sem áin merkt Icelandic River á kortinu rennur í vatnið og það leist þeim á. Þegar flestum sem þraukað  höfðu nokkur ár í nýlendunni varð ljóst að litlar eða engar framfarir höfðu orðið frá stofnun hennar og framtíðarhorfur lélegar við þáverandi kringumstæðar, hófust brottflutningar. Sumir fylgdu séra Páli Þorlákssyni suður til Norður Dakota þar sem byggð  myndaðist upp úr 1878 en aðrir leituðu út á sléttuna vestur af Winnipeg. Tilviljun ein réði því að Gimli varð til á þeim stað sem hann enn stendur, fyrsti hópur Íslendinga neyddist í land á Víðirnesi vegna þess að skipstjóri gufubátsins Colville neitaði að draga flatbytnur Íslendinga lengra norður eftir vatninu. Landnámsmennirnir gengu af nesinu eða tanganum eftir fjörunni á stað sem þeim leist betur á og byrjuðu að reisa kofa. Landkönnunarnefndin ætlaði með hópinn norður að Íslendingafljóti þar átti Gimli að standa. Það má því segja að Gimli standi á röngum stað.

Fljótsbyggð: – Nýja Ísland, draumurinn um afskekkta, alíslenska byggð í Norður Ameríku virtist að engu orðinn en svo var reyndar ekki. Það fóru ekki allir. Á árunum 1879-1883 komu vestur um haf nokkrar íslenskar fjölskyldur sem völdu að fara til Nýja Íslands, sumar höfðust við á Gimli fyrst um sinn en fóru síðan norður að Íslendingafljóti og settust þar að.  Þar voru fyrir flestir þeirra sem kusu að vera áfram í Nýja Íslandi, þar sáu menn ýmsa möguleika, sennilega enginn eins mikla og Sigtryggur Jónasson, oft nefndur faðir Nýja Íslands. Hann nam land við Íslendingafljótið árið 1876 og nefndi Möðruvelli. Kona Sigtryggs, Rannveig Ólafsdóttir hafði alist upp á Möðruvöllum í Hörgárdal og þar dvaldi Sigtryggur á sínum tíma. Hann kvæntist Rannveigu vorið 1876 heima á Íslandi.

Haustið 1880 keyptu Sigtryggur og Friðjón Friðriksson gufubát sem nefndur var Victoria en tilgangurinn var að efla flutninga á vatninu. Til að það gengi upp keyptu þeir tvo barða sem Victoria dró en á þá hlóðu þeir alls kyns varning. Árið 1881 byggðu þeir félagar sögunarmyllu við fljótið og átti hún eftir að reynast lífgjafi Nýja Íslands því margir fengu vinnu við skógarhögg, sögun svo og flutninga. Loksins var atvinnu að hafa í nýlendunni en bæði ungir menn og konur höfðu leitað út úr nýlendunni, ýmist til Winnipeg eða bænda nærri borginni. Að geta rekið eigin búskap meðfram launaðri atvinnu í heimahögum skipti sköpum. Brottflutningarnir breyttu miklu í Nýja Íslandi. Gimli, höfuðbólið, varð að nokkurs konar draugabæ, þaðan flutti þorri íbúa ýmist brott úr nýlendunni eða norður að Íslendingafljóti. Byggð í Árnes sömuleiðis lagðist nánast af og meira að segja Mikleyjarbyggð breyttist og þar fækkaði íbúum þrátt fyrir að þar væru menn að komast upp á lag með veiðar í vatninu.

Þorleifur Jóakimsson safnaði saman umsögnum um þróun mála í Fljótsbyggð og birti í riti sínu Brot af Landnámssögu Nýja Íslands sem út kom í Winnipeg árið 1919. Hann vitnar mikið í ,,Leif“ blað Helga Jónssonar sem kom út í Winnipeg árin 1883-1886:

,,Leifur” segir frá því 31. tbl. 7. desember 1883, að póstsleði eigi að ganga á milli Selkirk og Íslendingafljóts. Í 24. tbl. annars árgangs, 17. október, ritar séra Jón Bjarnason um Nýja Ísland. Hann er þá fyrir skömmu kominn frá Íslandi og tekur sér ferð til nýlendunnar. Fer frá Winnipeg laugardaginn 20. september 1884. Fór með gufubátnum Victoria frá Selkirk norður að Fljóti, og tók sú  ferð hér um bil sólarhring. Hann hafði guðsþjónustusamkomu fimtudaginn 25. september í inndælu veðri undir berum himni, undir skógarrunna skamt frá Möðruvöllum, og voru þar flestir Fljótsbygðarbúar saman komnir. Rætt var þar talsvert um kirkjumál bygðarmanna og nefnd kosin til að gangast fyrir myndun reglulegs safnaðar. Hugsanin var sú, að reisa við Bræðrasöfnuð, sem hafòi að mun dofnað yfir í rúm þrjú ár, síðan séra Halldór Briem fór úr Nýja Íslandi. Séra Jón getur þess, að sér hafi þótt miklar framfarir hafa gjörst við Fljótið í fjögur og hálft ár síðan hann fór heim til Íslands vorið 1880.                                                                                                                                                                                                                                                                                    İ 25. tbl. “Leifs”, 2. árg., er bréf úr Fljótsbygð, dags. 30. september 1884. Þar er þess getið, að tíðin hafi verið votviðrasöm framan af mánuðinum, en komið þerrir og hagstæð tíð seinni hlutann.- Fiskafli er sagt að hafi verið með rýrara móti þann tíma árs. Sagt er, að þá sé sögunarmylna þeirrra  Jonassons, Friðrikssons and Walkley búin að afljúka sumarstarfi sínu; hafði sagað í borðvið 21,000 bjálka ; þar af hafði félagið látið vinna að veturinn áður 18,000; að því unnu stöðugt frá 20 til 30 manns og frá 5 til 7 pör af hestum og uxum. Bændur hjuggu og fluttu til mylnunnar 3,000 bjálka, sem félagið sagaði borðvið úr og tók helming viðarins í sögunarlaun. Kaupgjalda   verkamanna félagsins var um vetrartímann 13 til 15 dollarar um mánuðinn, en um sumartímann 20 dollarar og fæði. Þeir, sem fæddu sig sjálfir, fengu 13 dollara í fæðispeninga yfir mánuðinn. Að skipi því, sem félagið hafði í smíðum, hafa síðan þá næstliðinn febrúar, segir bréfið, unnið 6 til 10 manns. Kaup þeirra var um daginn $1.20 til $1.25. Getið er þess, að það séu að koma frá stjórninni eignarréttarbréf f yrir löndum manna, en þó séu mörg ókomin, enda hafi það ekki verið svo útbúið af hálfu agentsins, sem var þar á ferð þá næstliðið haust, að allir gætu fengið bréfin sér að kostnaðarlausu, og urðu því sumir út undan að fá þau, en þótti ekki gott að segja upp verkum sínum til þess að fara til Winnipeg og fá þau þar. Sagt er, að þá sé í ráði að nokkrir menn, sem ekki höfðu tekið bréf fyrir löndum sínum, flytji norður með vatninu, nálægt því þrjár mílur norður fyrir fljótsósinn; þar sé óbygt, en látið vel af landkostum.

Sagt er að Guðmundur Bergþórsson járnsmiður, sem hafi komið af Sauðárkróki á Íslandi þá um sumarið, hafi í hyggju að  stofnsetja við Fljótið niðursuðu á fiski það sama haust. Hann hafi þegar útvegað sér nauðsynlegustu áhöld til að búa til ílátin og ætli að setjast að við Sandvík (Sandy Bar). Látið er vel af kartöflu uppskeru það haust og flestir þá búnir að taka þær upp. Úr Fljótsbygð er skrifað 4. júlí 1885. Bréfið er í 3. árg. “Leifs”, 9. tbl. Þar er  þess getið, að bygðin sé að færast upp með Fljótinu. Þrír menn þá fyrir stuttu fluttir upp fyrir gömlu bygðina, tveir þeirrra nokkrar mílur upp fyrir Fögruvelli; og þessir menn eru ánægðir með lönd sín, segja þar vera ágætt gras og góðan jarðveg, og mikill  fiskafli í Fljótinu það vor. Bréfshöfundur segir, að frá 20 til 30 búendur komist fyrir á bilinu frá gömlu bygðinni upp til Fögruvalla, og land þar fyrir ofan talið ágætt. Höfundur segir það líti ekki vel út meõ grasvöxt og sáðverk sökum þurka og hita, sem hafi verið því nær á hverjum degi, um tíma 80 til 100 gr. í skugga. Höfundur segir, að bjarndýr hafi gert með meira móti vart við sig það sumar og sæki þau að fiskihjöllum  bænda, að fá sér þar bita ; annað mein geri þau ekki. Fimm af þeim höfðu verið skotin um sumarið austur í Breiðuvíkinni. Á Sandy Bar og í Breiðuvíkinni hafði kalk verið brent það vor og hepnast allvel og ýmsir þá að byrja að  leggja rækt við að kalka hús sín.                                                                                                                                                                                                                                                       Í 47. tbl. “Leifs”, 3. árg., er bréf úr Fljótsbygð, dagsett 14. apríl 1886. Tíðin góð, sunnan andvari og þíða dag og nótt, jörð alauð og orðin plógtæk. Meðan snjórinn var, notuðu bœndur sleðafærið til að draga bjálka að sögunar-mylnunni; hafa þeir felt þrjú til fjögur þúsund “tré”, er þeir fá söguð upp á helming af því sem úr þeim kemur. Efnahagur manna heldur góður og vellíðan yfir höfuð. Heilsufar alment gott, skepnuhöld ágæt;  sátt og samlyndi manna á milli og engin hreyfing eða óróleiki heyrist;  jarðrækt lítil og safnaðarlíf dauft. Barnaskóli var haldinn við Íslendingafljót aðeins mánaðartíma; kennarinn var Jón Sigurðsson (þá, þegar bréfið var ritað, til heimilis í  Selkirk); lipur maður og vel að sér. Hinn 10. apríl segir höf. að  hlutavelta hafi verið haldin og leikinn sjónleikur á Lundi við Fljótið, sem nokkrar konur gengust fyrir. Og ætla þær að verja ágóðanum, sem varð rúmlega 20 dollarar, í safnaðar þarfir, en á hvern hátt var þá óráðið. Á fyrstu landnámstíð var komið á barnaskóla á Lundi og þeim haldið við eftir því sem kenslukraftar og kringumstæður leyfðu þar til búið var að stofna og löggilda skólahéruð í Nýja Íslandi. Til eru menn á sextugsaldri, sem gengi á barnaskóla í Lundi til Sigtryggs Jónassonar, Halldórs Briem og Torfhildar Holm.“

Um barnaskólann í Fljótsbyggð sem Sigtryggur Jónasson stofnaði segir Friðrik J. Bergmann í Almanaki Ó. S. T. árið 1907: “ Gekst Sigtryggur fyrir skólakenslu þar við fljótið og var það nauðsynjamál mikið. Lýðskólaskipan fylkisins náði enn auðvitað ekki til nýlendunnar og urðu því einstaklingar að bindast samtökum með það án nokkurrar tilhlutunar af stjórnarinnar hálfu. En það, að uppvaxandi æskulýður lærði mál landsins, var brýnasta skilyrði allra framfara. Um eldra fólk var svo að orði komist, að það væri mállaust, af því það kunni ekki að mæla máli landsins. Lá öllum í augum uppi, hvílík ógæfa það var, ef börnin yrðu látin vaxa svo upp, að þau yrði mállaus líka. Kenslufyrirtæki þetta mæltist því vel fyrir, þó líklega hafi það verið af vanefnum, eins og ekki er furða“