Á síðasta áratug 19. aldar voru nánast engin lönd föl í helstu byggðum íslenskum í Manitoba, Minnesota og N. Dakota. Börn sem vestur fóru með foreldrum sínum fárra ára höfðu vaxið úr grasi í slíkum byggðum, sum fædd þar. Nú vildi þessi kynslóð hefja búskap á eigin landi og því varð að leita annað. Þá héldu Íslendingar áfram að flytja vestur og leituðu landa til að hefja búskap. Norðvesturhéraðið vestur af Manitoba heillaði og upp úr 1887 voru Íslendingar að kanna lönd á ýmsum stöðum þar. Það var eðlilegt að menn litu á landið handan við vestur fylkismörk Manitoba sem eðlilegt framhald af landnámi, þetta var ein og sama sléttan. Það þurfti að flytja farangur og oft á tíðum skepnur til fyrirheitna landsins í Norðvesturhéraðinu og þá réði framvinda járnbrautalagningu miklu. Menn stigu á lest í Winnipeg og fóru á leiðarenda vestur. Þannig varð Langenburg endastöð margra og þaðan var þá leitað norður, vestur eða suður.
Íslenskt landnám: Félagarnir Guðjón Jónsson úr Vopnafirði og Kjartan Pálsson frá Fáskrúðsfirði höfðu búið í svonefndri Argylebyggð um hríð en skortur á landi neyddi þá til að leita annað. Guðjón fór vestur frá Hámundarstöðum árið 1889 með konu sinni, Guðríði Sigurðardóttur og fjórum sonum á barnsaldri, Sveini, Sigurði, Jóni Björgvin og Hannesi (dó eftir fáein ár vestra), allir undir tíu ára aldri. Ellefu árum síðar var ljóst að þrír þeirra, Sveinn, Sigurður og Jón Björgvin stefndu að búskap. Kristján fór vestur 10 ára með foreldrum sínum, Páli Jónssyni og Ólöfu Níelsdóttur árið 1876 og bjó hjá þeim í fjögur ár nærri Gimli í Nýja Íslandi, þaðan í Winnipeg allmörg ár, rúmt ár norðan við Manitobavatn og loks fáein ár í Argyle. Kristján og bræður hans, Marteinn, Albert og Björn áttuðu sig á því að framtíð þeirra sem bændur á eigin landi var ekki í Argylebyggð. Guðjón og Kristján riðu á vaðið aldamótaárið 1900, þeir höfðu spurnir af Qu´Appelle dalnum og landnámi þar. Þeir tóku lestina frá Winnipeg til Langenburg og þaðan var stefnan tekin í suður. Þeir komu á svæði tæpum 10 km norðan við þorpið Tantallon sem þeim leist vel á og eftir að hafa kannað það ákváðu þeir að nema þar lönd. Þetta var rétt suður af Gerald og upphaf nýrrar íslenskrar byggðar sem þeir nefndu Vallarbyggð. Páll faðir Kristjáns nam þar land svo og bræður hans, Marteinn, Albert og Björn. Sveinn, sonur Guðjóns nam þar sömuleiðis land. Á næstu árum fluttu fleiri vestur þangað og námu land í Vallarbyggð sem stækkaði og var um 1910 orðin allmikil sveit.
Félagslíf: Kristján Pálsson sýndi félags- og sveitarmálum snemma mikinn áhuga. Hann kom að myndun sveitarstjórnar og sat í henni til ársins 1910 en þá hlaut byggðin öll réttindi sveitarfélags (Rural Municipality). Kristján varð fyrsti formaður hins nýja sveitarfélags. Þótt íbúar af öðrum uppruna en íslenskum settust að í Vallarbyggð og næsta nágrenni þá átti allt félagslíf sterkar, íslenskar rætur. Landnemar margir þekktu nytsemi lestrarfélaga og ekki leið á löngu þar til eitt slíkt sá dagsins ljós í byggðinni. Íslenskur söfnuður var myndaður árið 1904 og hét Ísafoldarsöfnuður og voru það einkum prestarnir í Churchbridge, séra Guttormur Guttormsson og séra Hjörtur Leó sem þjónuðu þar. Stúka var mynduð í byggðinni af Sigurði J. Jóhannessyni og Birni Sigvaldasyni. Árið 1912 tóku menn að flytja brott á nýja, áhugaverða staði í byggð sunnan við Quill Lakes sem saman stóð af mörgum byggðum Íslendinga og kallaðist einu nafni Vatnabyggðir.