Helgi magri

Vesturfarar

Stofnfundur Helga magra var haldinn hér í 622 Ross St. í Winnipeg

Hannes S. Blöndal var ritari félagsins meðan hann bjó í Winnipeg.

Ólafur S. Þorgeirsson átti frumkvæðið að stofnun nýs félags Íslendinga í Winnipeg árið 1902. Í fundarbók félagsins skrifaði ritari þess, Hannes S. Blöndal um tildrög stofnunar félagsins:,, Það var á Gvöndardag, 16. marzmánaðar, 1902 að nokkrir menn komu saman í húsi J. G. Thorgeirssonar að 622 Ross St. í Winnipeg eftir áskorun frá Ólafi S. Þorgeirssyni í því skyni að ræða um að stofna til félagsskapar með sér. Var þar fundur settur og til fundarstjóra kosinn O. S. Thorgeirsson. Skýrði hann umræðuefnið fyrir fundarmönnum á þá leið að honum hefði komið til hugar, að reyna að stofna nokkurskonar ,,Klúbb“, þar sem menn gætu komið saman sér til gamans , en þó væri augnamiðið aðallega það, að styðja að viðhaldi íslenzkrar tungu og efla þjóðrækni með Vestur-Íslendingum. Lét hann það jafnframt í ljós, að sér hefði komið til hugar að hyggilegra myndi að binda inntöku skilyrði félagsmanna í Klúbb þenna við eitt einstakt hérað á Íslandi, áleit það meiri trygging fyrir því að Klúbbnum entist aldur, heldur en að hann væri að svo komnu, gerður að einu allsherjar Íslendinga félagi. Lagði hann fram tillögu til grundvallar fyrir þenna félagsskap, sem hér fylgir: ,,Klúbburinn skal nefndur “Helgi Magri“ og skulu þeir einir hafa inngöngurétt í Klúbbinn, sem fæddir eru í Eyjafjarðarsýslu og dvalið hafa þar um 10 ára skeið. Þó má út af þessu breyta, geri einhver Ísl. sig verðugan þess á einhvern hátt, að verða tekinn inn í Klúbbinn og inntaka hans samþykt í einu hljóði. Skal hann nefndur ,,Haukur Helga Magra“.Eftir eitt ár fær “Haukur“ réttindi við aðra félagsmenn, en getur aldrei orðið forseti Klúbbsins“. ,,Eftir nokkrar umræður um málið, féllust fundarmenn á uppástunguna og var þvínæst kosin nefnd í málið til þess að semja frumvarp til laga fyrir Klúbbinn, og hlutu kosningu: Ó. S. Thorgeirsson, Albert Jónsson og Hannes S. Blöndal. Var síðan samþykkt að koma saman aftur þegar frumvarpið til laganna var tilbúið – ræða það þá og samþykkja.“ Á næsta fundi voru lögin lögð fram og samþykt. Hljóða þau á þessa leið:

1: Klúbburinn skal heita Helgi Magri.

2: Tilgangurinn skal vera sá að efla og styðja að viðhaldi íslenzkrar tungu og því af ísl þjóðerni sem vert er að halda í, jafnframt því sem hann á að vera til skemtunar og uppbyggingar fyrir meðlimina.

3. Engir geta orðið meðlimir Klúbbsins nema þeir séu fæddir í Eyjafjarðarsýslu og hafi dvalið þar í 10 ár og svo afkomendur þeirra hér í landi. Þó getur Kl. vikið frá þeirri reglu undir þeim kringumstæðum að sá sem um inngöngu sækir, hafi gert Klúbbnum greiða á einhvern hátt eða sé líklegur til að verða honum til uppbyggingar og sæki eftir inngöngu í Kl. og skal hann nefndur “Haukur Helga Magra“. Öll réttindi og hlunnindi Klúbbsins skal hann hafa að jöfnu við réttmæta félagsmenn nema atkvæðisrétt hefi hann ekki fyrsta árið – og aldrei getur hann orðið forseti Klúbbsins. Hauksnafnið skal hann altaf bera.

4. Leysist Klúbburinn sundur eða hætti að vera til skulu eignir, ef nokkrar eru, ganga í ekknasjóð sjódrukkaðra manna við Eyjafjörð.                                                                                                                             Lögin voru samþykt og þessir kosnir embættismenn: Forseti Ólafur S. Thorgeirsson, skrifari Hannes S. Blöndal, féhirðir Albert C. Johnson. Alls voru stofnendurnir níu. Var Ólafur svo endurkosinn forseti í fimtán ár.“ (Almanak 1938 bls.28-30)