Heimskringla

Vesturfarar

Frímann B Anderson

Frímann Bjarnason, Frímann B. Anderson vestra, kom til Winnipeg sumarið 1884 eftir að hafa dvalið í Ontario ein tíu ár. Hann hafði gengið í skóla og skrifað í kanadísk blöð og tímarit, auk þess hafði Leifur birt eftir hann greinar sem vöktu athygli. Árið 1886 ræddi Frímann blaðaútgáfu við Eggert Jóhannsson og Einar Hjörleifsson, sem þá var nýkominn vestur frá Danmörku. Ekkert hik var á þremenningunum og fyrsta tölublað Heimskringlu kom út 9. september, 1886. Það var prentað á King st. og voru prentarar þeir Jón Vigfússon Dalmann og Þorsteinn Pétursson. Rögnvaldur Pétursson skrifaði ágæta grein um Heimskringlu og segir þar:,, Á öftustu síðu (fyrsta tölublaðsins) er birt stefnuskrá blaðsins: Blaðið verður einkum og sérstaklega fyrir Íslendinga í Vesturheimi. Öll þau mál, er þá varðar miklu, munum vér og láta oss miklu skifta, hvort sem það eru stjórnmál, atvinnumál eða menntamál. Þá er blaðinu ætlað að ræða þau mál, er snerta landa vora á Íslandi, stjórnmál þeirra og bókmentamál. Blaðið er óhátt öllum pólitískum flokkum og hefir fult frelsi til að taka í hvert mál, sem ritstjórinn álítur réttast og sanngjarnast. Það verður all enginn agent fyrir Vesturheimsferðir, en talar um útflutninga frá Íslandi og innflutninga hingað í land sem hvert annað mál. Yfir Íslendingum í Ameríku lofar það að halda hlífskildi og hafa vakandi auga á öllu því, sem um þá er sagt. Lofað er því að blaðið skuli vera alþýðlegt og hafa meðferðis skemtandi kafla, einkum góðan skáldskap í bundnu og óbundnu máli, frumritaðan og þýddan.“ (TÞÍ ii, 102). Fyrsta tölublaðið bar þess merki að mikið var vandað til, það var t.a.m. í stærra broti en Leifur, betur skrifað og efni fjölbreyttara.  Þá gaf ritstjórnargreinin tóninn og gaf Íslendingum vestra góð ráð. Segir þar að þeir ættu vissulega að taka þótt í stjórnmálum ,,svo framarlega sem þeir teldu sig borgara í Canada og ekki vitgrennri samborgurum sínum“ (SÍV5, bls.5) Frímann var ritstjóri blaðsins fyrst um sinn en hætti eftir tæplega 4 mánaða starf en þá kom Heimskringla ekki út í mánuð sökum fjárskorts. Frímann seldi þá Eggerti Jóhannssyni, Jóni V Dalmann, Þorsteini Þorsteinssyni og Eyjólfi Eyjólfssyni prentsmiðjuna. Einar Hjörleifsson var aðstoðarritstjóri fyrstu vikurnar en þáttur Eggerts varð meiri því hann var ýmist aðstoðarritstjóri eða aðalritstjóri frá upphafi til ársins 1897. Aðrir sem að ritsjórn komu á upphafsárum voru Gestur Pálsson, Jón Erlendsson Eldon, Jón Ólafsson Alaskafari, Baldvin L Baldvinsson en hann ritstýrði Heimskringlu frá 13. október, 1898 til 24. apríl, 1913.