Sigurjón Sveinsson

Vesturfarar

Milwaukee 1870

Sigurjón Sveinsson er fæddur að Syðrafjalli í Aðaldal í S. Þingeyjarsýslu. Hann ólst upp hjá foreldrum sínum, Sveini Jónssyni og Soffíu Skúladóttur, fyrst að Fjalli og síðan að Garði í sömu sveit.  Hann skráði niður lýsingu á lífi sínu í Vesturheimi og vann Þórstína Sigríður Þorleifsdóttir kafla úr handriti hans sem kom í bók hennar, Saga Íslendinga í Norður Dakota, útgefin árið 1926.(JÞ)

Ferðin vestur:,, Það var 28. maí 1873, að Sigurjón tók sér far frá Íslandi, á kaupfari einu æfagömlu, er Hjálmar hét. Voru þeir 11 saman, er far tóku með sama skipi; en svo var dallur sá úr sér genginn, að minni líkur voru til að hann myndi nokkru sinni ná heill til hafnar. Hreptu þeir og rok, mikil og sjó stóra í hafi, og voru þá oft tvísýnin mikil, hver endirinn myndi upp verða á Hjálmari gamla. Tóku þeir þó land að lokum í Kristianssand í Noregi 5. maí. Áfram var svo haldið þaðan og fyrst til Bergen í Noregi. En þar tekið far með línuskipinu “Haraldur hárfagri“ til New York í Bandaríkjunum. Þar var farþegalest tekin til Milwaukee í Wisconsinríki. – Er til Milwaukee kom, tóku þeir félagar, er saman höfðu að heiman, til ýmsra starfa.

Árin í Wisconsin og Michigan: Þetta sumar til hausts dvaldist Sigurjón í Milwaukeeborg. En er að uppskerutíma leið, tóku þeir sig saman, nokkrir landarnir, og vildu leita sér vinnu á meðal bænda. Var Sigurjón einn í hópi þeim. Var för sú hvorki til frægðar né fjár, því víðast var otað að þeim hundum, er þá bar að garði, ella boðið að hafa sig á brott sem skjótast. Voru þeir og ekki sem glæsilegastir til fara, því lagt hafði verið út í vinnufötum þeim, sem áður höfðu brúkuð verið við kolauppskipun og ýmsa aðra óþverra vinnu. Á þeim tímum fór mesti sægur flakkara  og flækinga landshorna á milli, og lifði mest á betli og ýmsum óknyttum; voru landarnir oft teknir fyrir að vera af þeim óþjóðalýð, og því enginn grið gefin. Lágu þeir oft úti um nætur, en voru óvanir hitanum, og eins flugnasæg þeim, er að þeim sótti. Urðu þeir því illa útleiknir. Vann Sigurjón fjóra daga hjá bónda einum ekki alllangt frá Milwaukee, en fór þá til borgarinnar. Um haustið hópuðu landar sig enn saman og lögðu nú út í óbygðir til skógarhöggs. Urðu þeir 12 saman, er tóku sér vinnu við brennihögg, og skyldu þeir hafa 1 dollar í kaup fyrir hvern brennifaðm, högginn og klofinn. Óvanir voru þeir öxinni, og hafði einn þeirra ærið nógan að starfa við að skefta og laga axir þær, er fyrir áföllum urðu. Kom svo, að eftir vikuna höfðu þeir félagar allir saman höggið 12 faðma brennis, en þrír höfðu orðið fyrir áverkum yfir vikuna. Fjögur ár dvaldist Sigurjón á ýmsum stöðum í Michigan og Wisconsin ríkjum, ýmist við viðarhögg á vetrum eða fiskiveiðar, og vinnu við báta þá, er gengu um Michiganvatnið á milli ríkjanna á sumrin. Varð Sigurjón þar fyrir þeirri þungu sorg að sjá Pál bróður sinn drukna fyrir augum sér í Michiganvatninu. Höfðu þeir bræður komið saman frá Íslandi og voru mjög samrýndir. Um vorið 1877 hélt Sigurjón út í bændavinnu. Vann hann um sumarið hjá bændum, og þó mest þar sem kallaðist Clinton Plains, um 60 mílur suður af Chicago-borg. Voru þeir mest saman það sumar, Sigurjón og Benedikt Jóhannesson frá Eiríksstöðum á Jökuldal. Keyptu þeir sér sitt hestaeykið hvor þá  um haustið, og óku þeim um 400 mílur vegar til Shawano-sýslu í Wisconsin, því þar höfðu þá allnokkrir Íslendingar tekið sér bólfestu.

Frá Wisconsin til N. Dakota: Næsta sumar hugðu margir af Íslendingum þeim, er bólfestu höfðu tekið sér í Shawano-sýslu, til flutnings til Norður- Dakota, og höfðu fregnir þaðan um glæsilega landkosti og framtíðarhorfur. Slóu þeir sér saman til þeirrar farar, Sigurjón, Benedikt, Kristinn Kristinnsson, og þeir Þorlákssynir, Haraldur, Björn og Jón. Seldu þeir, er þar áttu lönd fyrir, eignir sínar og keyptu sér hesta og vagna. Urðu 5 hestaeyki í förinni, en um 1400 mílur yfir að fara. Segir Sigurjón svo frá, að aldrei hafi hann farið skemtilegri né ódýrari ferð á æfi sinni. Mætti þeim gestrisni og greiðasemi alstaðar, svo að útlit var alt um, að allir vildu gera sitt ítrasta, til þess að létta undir með þeim, er í langferðum áttu í þá daga. Var numið staðar hjá bónda einum, Bótólfi Olsen, og ekki alllangt þaðan, er Íslendingar höfðu þá numið sér lönd, og síðan varð Hallsonbyggð.

Indíánar: Skamma stund höfðu þeir félagar verið í Norður-Dakota, áður en fundur var settur þar hjá Bótólfi bónda, af þeim nýlendumönnum, til þess að ræða og finna út til hlítar, hve mikið af byggilegu landi myndi þar vera kringum nýlenduna, og þó einkum til suðurs og norðurs. Voru það ráðnir í könnunarför, þeir Bótólfur Olsen, Sigurjón Sveinsson, Jón Bergmann og Pálmi Hjálmarsson frá Þverárdal í Húnavatnssýslu, er þá var nýkominn þangað frá Nýja Íslandi. Höfðu þeir léttvagn einn til fararinnar og fyrir honum hesta tvo létta, og var annar þeirra Úlfar, hestur sá er átti séra Páll Þorláksson. Höfðu þeir matarforða með sér í vagninum og eitthvað af áhöldum, en gengu að mestu sjálfir, nema hvað þeir skiftust á um aksturinn. Fóru þeir norður á bóginn og var þar víða votlent og hágresi mikið. Höfðu þeir ekki lengi farið, er þeir urðu varir við Indíánaflokk stóran, er hélt þar kyrru fyrir á sléttunni. En sem Indíánar urðu varir ferða hinna, tóku þeir skyndilega saman föggur sínar og héldu til ferða, sem á móts við þá Hvítu menn. Var stargresisfláki stór á milli þeirra, er í odda dró, þá er lengra leið frá. Fanst þeim félögum. sem þar myndu Indíánar líklegir til að veita þeim fyrirsátur, og leizt þeir fara ófriðlega. Var Bótólfur bóndi kunnur herförum og ófagnaði Indíána um þær mundir. Fór hann fyrir þeim félögum og kvað það eina úrræðið að halda áfram og látast ósmeykir með öllu, því ef undan væri haldið, myndu Indíánar þegar draga þá uppi og gera þeim fljótar skriftir. Var það að hans ráði, að er þeir komu fyrir fláka þann, er fyr er nefndur, bundu þeir hesta sína, en skriðu sjálfir hver í sína áttina inn í stargresið. Kvað Bótólfur að svo mætti þá ske, að einhver þeirra fengi undan komist, svo að sagt gæti hann frá afdrifum félaga sinna. Var þar æði blautt undir, en þeir krupu sem lengst inn í grasið, og fengust eigi um, þó um þá vætlaði forin. Lágu þeir þar fram á nótt. En er þeir urðu einkis áskynja um ferðir rauðskinna, fóru þeir að dirfast að teygja sig smámsaman upp úr hágresinu og horfa út til oddans framundan. Voru þá Indíánar allir úr augsýn, og lofuðu þeir félagar forsjónina fyrir góða franreiðslu. Því illa fanst þeim, sem þeir myndu hafa verið undirbúnir til þess að mæta aðförum herskárra Indíána. Hafði Bótólfur soldátabyssu eina að vopni, er hann hafði hlotið að viðurkenningu fyrir góða frammistöðu í Þrælastríði Bandaríkjanna. Sigurjón hafði skammbyssu sína, sem þá  var alment að menn bæru með sér hvar sem þeir fóru, en Jón og Pálmi höfðu, annar öxi en hinn gamlan, góðan sjálfskeiðing; fanst sem slíkum vopnaburði  hefði þeir orðið vant við komnir, ef rauðskinnar hefðu á þá leitað, sem ekki var örgrant á þeim tímum, að þá fýsti í höfuðleður hvítra manna, ef í færi kæmust. En er þeir fékagar voru ásáttir um að Indíánar væru horfnir leiðar sinnar, vitjuðu þeir þangað, er þeir höfðu skilið eftir hesta sína, og hófu för að nýju. Fanst þeim líklegast, að Indíánar hefðu ekki haft minni geig af sér, en þeir höfðu af þeim. Hefðu að líkindum tekið sig fyrir að vera úr lögregluliði því, er setu hafði í Pembina, og gætti þess að Indíánar hópuðu sig ekki um of á sléttunum, þar sem strjálbygðir nýnemar höfðu lagt fyrir sig landnám. Brá stundum við að hermönnum væri laus kúlan í byssunni, er Indíánar voru í nánd, svo að þeim stóð hinn mesti hrollur af.

Landnám: Lítið varð þeim ágengt í ferð þessari, annað en það, að fýsilegra fnst þeim til suðurs af þeim Íslendingum, er þá höfðu þar lönd numið í grent. Kusu Þorlákssynir sér landnám, þar er þeir kölluðu í Vík, en síðar varð Mountain. Þeir Sigurjón og Benedikt héldu ennþá lengra suður, og sunnar en nokkur Íslendingur hafði þá tekið sér landnám alt að þeim læk, er Park-lækur var kallaður, en síðar varð Garðar-lækur. Tók Sigurjón þá land þar, en Benedikt hvarflaði frá landtöku að því sinni. Heyjaði Sigurjón mikið þá um sumarið. En er heyönnum var lokið, var haustað að og uppskérutími kominn. Fól Sigurjón þá föggur sínar allar og föt,  nema þau er hann í stóð, í einum heystakknum, en réðist í kornskurðarvinnu til bænda í nánd við Cavalier. Var það þá dag inn, er Sigurjón var við vinnu sína, að honum varð litið til Fjallanna og landnáms síns; stóð þá öll sveitin þar efra í ljóum logum. Geisuðu ógurlegir sléttueldar þar um allan suðurhluta landnáms Íslendinga. Brann þar allur heyafli Sigurjóns og aleiga hans með í einum stakknum, svo að ekkert átti hann eftir fata annað en það, er hann stóð í. Tók hann þá það til bragðs, er vetraði, að hann fór norður til Winnipeg og réðst þar til vinnu við högg á járnbrautarbindingum fyrir C.P.R. brautina, sem þá var verið að leggja bæði að austan og vestan. Þegar voraði, hélt Sigurjón aftur til Dakota. Var Benedikt þá þar fyrir. Tók hann land það haust, áfast við land Sigurjóns. Héldu þeir félagar til í Víkinni um veturinn og fengu sér keypt hey fyrir gripi sína, því að þar hafði eldurinn ekki geisað eins óhindraður yfir, og þá er sunnar dró. Lögðu þeir nú upp báðir saman félagar til landa sinna, þá er voraði. Varð það þó úr, að Benedikt hélt enn út til sumarvinnu, en Sigurjón varð eftir. Hafði hann uxaeyki, það er hann átti sjálfur, og annað er Benedikt átti. Plægði hann á beggja löndum með þeim um sumarið, en hafði mann með sér er fór með annað eykið. Höfðu þeir kjallara grafinn fyrir húsakynni og reft yfir. Fanst þeim eigi sem verst við slíkt að búa, því vel varði það þá fyrir flugnabiti og veðraköstum. Heldur var og mataræði fátæklegt og eldhúsgögn af skornum skamti. Var pottur einn, er þeir Benedikt áttu, notaður til allrar matreiðslu, og munu margir þeir, er við einstæðings landnemalíf hafa átt að búa, kannast við verkfæri það. Var hviflt ofan í pottinn miðjan og þar lok yfir, svo að bakað var þar brauð í, með því að raða glóðum að pottinum og kynda eld í kring. Var fæðið mikið einvörðungu brauðhleifar, er bakaðir voru í pottinum, og mjólkurseitill með, því viðbiti var hvergi að hafa. En er á sumarið leið, fóru fleiri að færast í bygðina og landnámið að víkka út og stækka. Um haustið áður hafði Eiríkur Bergmann þangað komið í landskoðunarferð sunnan úr ríkjum. – Tók nú land að byggjast og nýlendan að verða fjölmennari.

Hjónaband – Fjölskylduhagir: Haustið 1881 giftist Sigurjón Valgerði Sylvíu Þorláksdóttur, dóttur Þorláks Jónssonar frá Stóru – Tjörnum í Þingeyjarsýslu, og systur þeirra Þorlákssona, er fyr eru nefndir. Settu þau fyrst upp bú á landi Sigurjóns við Garðar, er síðar varð, og bjuggu þar í þrjú ár; en þá keypti Sigurjón tvo fjórðunga lands ekki langt frá Mountain, en seldi land sitt í Garðar. Fluttust þau hjón þangað og dvöldu þar eitt ár. En næðingasamt fanst Sigurjóni þar úti á berum sléttunum, og var áður vanur skóginum til skjóls. Flutti hann sig enn, og til Þorláks, tengdaföður síns að Mountain, en vann þaðan lönd sín. Var það ekki löngu síðar, að hann keypti jörð tengdaföður síns, og bjuggu þau hjón þar altaf síðan, meðan þau áttu heima í Norður-Dakota. Það má með sanni um Sigurjón Sveinsson segja, að hann var landnámsmaður, – maður, er kastað hafði frá sér félagslífi og gleðskap margmennisins, og gengið í berhögg við óbygðir eyðilandsins, þar sem brjóta varð til mergjar hvern köggul, svo að kraftarnir ekki yfirbuguðust. Hann var fyrsti landnemi í suðurhluta Norður-Dakota landnámsins, er hló við honum, land víðáttumikið, frjótt og voldugt á öll landgæði og lífsmöguleika. Smátt færðist bygðin saman og nábýlið óx , unz Garðar – og Mountainbygðir urðu fríðustu og blómlegustu bygðir Íslendinga vestan hafs. En fararþráin og ferðahugurinn óx hjá Sigurjóni jafnt og fjölmennið fylti víðáttumikla bygðina. Kom svo að það varð honum ofurefli, og lagði hann aftur í leit nýs landnáms. Fór hann þá fyrst vestur til Albertafylkis í Canada, og alla leið til Klettafjallanna. En ei fýsti hann þar að vera og hvarf heim aftur. Voru þá margir Íslendingar úr Norður -Dakota að leita til Vatnabygða, er kallað var í Saskatchewanfylki í Canada. Fór Sigurjón þangað, fyrst í landnámsleit, og er honum leizt þar mjög svo glæsilegt til nýrra athafna, tók hann sig upp með allri fjölskyldu sinni frá Norður-Dakota árið 1905 og fluttist til Saskatchewan. Hafði hann þá verið búsettur í Norður Dakota í 25 ár.

Landnám í Vatnabyggðum árið 1905: Landnám Sigurjóns í Saskatchewan er 3 mílur vestur frá Wynyardbæ í Vatnabygðum. Engin var þar járnbraut, er Sigurjón hóf landnám sitt, og flutti hann búslóð sína alla um 50 mílur vegar, frá járnbraut til heimlisréttarlands síns. Á þessu landi reisti Sigurjón hús góð og yrkti land alt upp að heita mátti. Bjó hann þar góðu búi til vorsins 1909, að hann missti eiginkonu sína, og varð það honum þungur missir, því engu síður var Valgerður landnámskonan en Sigurjón landnámsmaðurinn. Hafði hún og rakið landnámsferil Íslendinga, ef segja mætti , alla leið frá Íslandi, suður um Bandaríkin og síðast norður um sléttur Canada. Hafði hún alið önn fyrir börnum sínum og heimili undir þeim erfiðleikum, sem landnámskonan ein getur um dæmt. Og oft var það, að hún hélt saman heimili og búi með nærgætni sinni, ráðdeild og atorku, er Sigurjón stóð í svaðilförum og útvegum þeim er frumbyggjalífið í strjálbygðum sveitum hlýtur að heimta.  Hafði og líf þeirra ekki alt verið blómum sveigt, í frumbýli og fátækt tvöfalds landnáms; en aldrei vantaði hana viljann til hjálpar og dáða , og þangað æ að sækja hughreystingu og örvun til áframhalds, þó erfiðleikarnir hrúguðust að. Voru börn þeirra hjóna enn ung, þau er ógift voru, þá er móðirin féll frá. Hélt þá Sigurjón enn búi sínu við í eitt ár, en brá því þá og flutti til Wynyardbæjar. Rak hann þar kjötverslun í 8 ár, en lét þá af því, og hefir síðan dvalist mest hjá börnum sínum, þeim er búsett eru í og í kringum Wynyardbæ.

Afkomendur: Sjö barna auðið varð þeim Sigurjóni og Valgerði, og eru þau þessi:

1: Henrietta, fædd 1884 gift Friðriki Þorfinssyni, syni Þorfinns Hallssonar bónda við Mountain í Norður-Dakota, ættaður úr Skagafirði; er Friðrik bóndi við Wynyard, Saskatchewan

2: Páll, fæddur 1886, giftur Minnie Johnson, dóttur Vilhjálms G. Jónssonar frá Hjarðarfelli í Dalasýslu; rak Páll verkfæra – og járnvöruverzlun í Wynyard, Sask (hann dó 1926)

3: Lilja, fædd 1889, gift Jóni Reykdal, syni Davíðs Jónassonar söngstjóra í Winnipeg; er Jón verzlunarmaður í Wynyard, Sask og þar búsettur.

4: Clara, fædd 1892 gift Sigurjóni Blöndal Halldórssyni, syni Halldórs Guðjónssonar frá Granastöðum í Þingeyjarsýslu; búsett eru þau Sigurjón í Wynyardbæ.

5: Soffía, fædd 1894, ógift: yfirhjúkrunarkona við almenna sjúkrahúsið í Regina, Saskatchewan

6: Lovísa, fædd 1897, gift Jóni Jónssyni Freeman, bókhaldara í Minto, N. D.

7: Aldís, fædd 1900, ógift; hjúkrunarkona hjá Rauða kross félaginu í Regina, Saskatchewan.

Eftirmáli: Ungur var Sigurjón, þá er hann fluttist frá Íslandi 1873, um eða lítið eitt yfir tvítugs aldur. Á þeim árum voru kvaladrættir og kyrkingar í öllum íslenzkum gróðri, bæði andlegum og veraldlegum. Það voru þessi hörkubrögð kalda, kæra landsins, sem urðu til þess að reka margan manninn vestur um ver, til þess að leita sér mildari lífskjara. Oft hefir Sigurjón minst á gamla landið og aldrei nema með hlýjum huga, er benti til að þaðan ætti hann marga fagra bletti í sál sinni, er varpað höfðu ljóma um margar lífsstundir hans. En glaður er Sigurjón að geta nú, er degi tekur að halla, skilið ríkidæmi sitt, börnin mannvænlegu, eftir í blíðara umhverfi og undir ástríkari lífskjörum, en hann átti við að venjast í ungdæmi sínu.“