Á Vesturfaratímabilinu 1855 – 1914 vöktu fáir íslenskir vesturfarar jafn mikla athygli og Hjörtur Þórðarson. Hann var iðulega talinn einn af sonum íslensku byggðarinnar í Norður Dakota, kannski eðlilega því hann kom þangað 12 ára árið 1879 um þær mundir þegar íslenskir landnemar hófu flutninga þangað úr ýmsum sveitum Kanada, Minnesota, Wisconsin og vitaskuld líka beint af Íslandi. Þótt Hjörtur hyrfi úr byggðinni snemma á táningsaldri þá upplifði hann og tók þátt í mikilli uppbyggingu í byggðinni, gekk þar í skóla, fermdist af íslenskum presti og drakk í sig tilraunir vesturfara við að efla íslenska arfleifð í Vesturheimi. Æskuminningar ristu djúpt og alltaf varðveitti Hjörtur Íslendinginn í sér þótt ævistarf hans væri í bandarískum vísindaheimi. Samferðafólk hans í N. Dakota fylgdist vel með afrekum hans, fylltust stolti yfir að einn úr þeirra röðum ynni þvílík vísindaafrek að öll heimsbyggðin naut góðs af. Það var því ekkert óeðlilegt við ákvörðun Þórstínu Þorleifsdóttur að helga honum kafla í bók sinni ,, Saga Íslendinga í N. Dakota“ sem út kom árið 1926. Foreldrar hennar komu í byggðina í N. Dakota árið 1881 og Þorleifur, sagnaritari, hélt til haga ýmsu sem kom Þórstínu vel seinna. Ef til vill hripaði hann á blað eitthvað sem hún notaði í eftir farandi um Hjört Þórðarson.
Vesturför – Wisconsin: ,,Einn í hópi Íslendinga þeirra, sem komu til Milwaukee, Wisconsin, sumarið 1873, voru þau hjónin Þórður Árnason frá Stað í Hrútafirði og kona hans Guðrún Grímsdóttir frá Grímsstöðum í Reykjadal, systir Steingríms Grímssonar landnema í Fjallabyggð. Tveim mánuðum eftir komu sína til Milwaukee, andaðist Þórður, en ekkja hans fluttist með börnum sínum til Dane-sýslu í Wisconsin, í grend við borgina Madison. Meðal barna hennar var drengur, fárra ára, Hjörtur að nafni. Þessi litli innflytjandi leitaðist við að gera lífið sem breytilegast í frumskógunum, sem fjölskyldan settist í. Eitt af því fyrsta, sem hann man eftir að hafa haft fyrir stafni, var það að búa til nokkur tréhjól, og láta þau snúast af straumi lækjar, sem var nálægt kofa móður hans. Einn dag, sem oftar, sat hann og horfði hugfanginn á þetta leikfang sitt. Kom þá til hans ung stúlka, sem spurði hann, hver það væri, sem hefði sett þessi hjól í lækinn, og er hann játaði það upp á sig, hrósaði hún honum fyrir að hafa hugsast þetta og gaf honum tíu cents. Stúlka þessi var Ella Wheeler, betur þekt sem Ella Wheeler Wilcox, ameríska skálkonan og kvenréttindahetjan. (Hún var fædd 5. nóvember, 1850 í Wisconsin og lést 30. október, 1919. Innskot Jónas Þór) Nokkru síðar fór Hjörtur að ganga á ofurlítinn skóla þar í nágrenninu, ásamt öðrum íslenzkum börnum og annarra þjóða börnum. Kennarinn gat ekki nefnt nafnið Hjörtur, en kallaði hann Chester í staðinn, og hélzt það við hann upp frá því. Þegar að jólunum dró á þessu ári, kom börnunum saman um að kaupa eitthvað handa kennaranum sem jólagjöf, og var Hjörtur litli einn aðal frumkvöðullinn að því, af þeirri ástæðu að hann átti tíu cent; hafði hann geymt þau vel. Kennaranum var gefin dálítil bjalla í jólagjöf, og nú nýlega hefi hún gefið Hirti Þórðarsyni hana, sem vott þess að hún myndi eftir barnahópnum, sem hún kendi þann vetur. – Eftir þriggja ára dvöl í Dane – sýslu, fór Hjörtur með fólki sínu til Shawano-sýslu, í sama ríki, og dvaldi þar önnur þrjú ár. Sumarið 1879 fór hann ásamt Grími bróður sínum til Dakota, og var hann einn af þeim, sem rak gripina frá Shawano-sýslu til Garðar. Var vegalengd sú um 900 mílur, og fóru þeir til jafnaðar 25 mílur á dag.
Dakota: Í Dakota dvaldi Hjörtur að staðaldri frá 1879 til 1885. Fyrsta veturinn var hann í húsi Stephans G. Stephanssonar, en næsta sumar bygði Grímur bróðir hans hús á landi því, sem hann hafði numið. Næsta ár var Hjörtur við ýmsa vinnu; hann passaði kýr, og þótti lélegur smali; gekk það svo langt, að jafnvel séra Friðrik spurði hann, hvort hann væri að passa kýrnar, eða kýrnar hann. Á skóla fór hann þar part úr tveimur vetrum, og fermdur var hann af séra Hans Thorgrimsen. Hann varð fyrstur til að eignast kalkúna í íslenzku bygðinni, og ól hann upp nokkra af þeim fuglum og fékk 50 sent fyrir hvern að haustinu til. Vógu þeir til jafnaðar 12 – 14 pund hver. Sumarið 1885 var Indíána-uppreisnin í Vestur-Canada; og fór þá Hjörtur, ásamt nokkrum öðrum, til Winnipeg gangandi, og hafði helzt í hyggju að bjóða sig til herþjónustu, en ekkert varð af því; og ekki heldur fékk hann vinnu, svo hann hvarf aftur til baka til Garðar. Meðan hann staðnæmdist í Winnipeg, langaði hann til þess að fara í kirkju, en föt hans voru svo léleg að hann gat ekki látið sjá sig í þeim. Hitti hann þá fyrir Íslending, sem góðfúslega lánaði honum föt til kirkjuferðar. Guðrún systir Hjartar var um þessar mundir í Chicago og varð það úr, að hann réði af að leita gæfunnar þar.
Chicago – Frægð og frami: Í Chicago var hann í tvö ár og fór svo til St. Louis, og vann þar í tvö ár við sporvagna. Að þeim tíma liðnum hafði honum græðst nokkuð af peningum, og var hann þá óráðinn í því, hvort hann ætti að fara á skóla eða ferðast og sjá heiminn. Niðurstaðan var sú, að hann keypti 10.000 mílna farseðil, og lagði af stað í ferð, sem stóð í 10 vikur. Ferðaðist hann um suður- og vesturríkin, og alla leið til Mexico. Það, sem hann langaði sérstaklega til, var að sjá frumskóga hitabeltisins. Þetta telur Hjörtur hafa verið skemtilegasta tímabil lífs síns. Úr þessari ferð fór hann til Chicago og fékk vinnu hjá Edison rafmagnsfélaginu þar. Hjá því félagi var hann í tvö ár og fékk fjölbreytta æfingu. Hann vann við aðgerð og smíð rafmagnsvéla, og fékk oft sérstaka vinnu við nýjar tilraunir og rannsóknir. Árið 1895 giftist hann Júlíönu Friðriksdóttur frá Eyrarbakka. Hún eggjaði hann sterklega á að byrja upp á sinn eigin reikning og félst hann á það. Sjálfur hafði hann ekki nema $75.00 til að byrja með, en kona hans hafði talsverða peninga. Þegar hann fór frá Edison-félaginu og byrjaði upp á eigin kostnað, var hann í beinni samkeppni við fyrri húsbændur sína, en yfirmaður félagsins var honum mjög hlynntur. Hann hafði ekkert lánstraust, en Edison félagið hjálpaði honum. Fyrstu tvö árin gekk alt mjög stirt, en smám saman fór að lagast. Það sem hann var fyrst þektur fyrir, var að búa til ýmis rafmagnsáhöld til að kenna rafmagnsfræði á háskólum. Hver einast háskóli í Ameríku hefir eitthvað af uppfyndingum hans. Í gegnum þessar uppfyndingar hefir Hjörtur kynst fjölda af háskólaprófessorum, og verið mikið með þeim, og þannig fengið að miklu leyti hærri mentun utan háskóla. Yfir 100 einkaleyfi hefir hann fengið frá stjórninni í Washington, og í öðrum löndum, svo sem Canada, Svíþjóð, Noregi, Frakklandi, Brazilíu og Englandi. Á sýningunni í St. Louis 1904, var honum veitt gullmedalía af Bandaríkjastjórn fyrir uppfyndingar sínar, og önnur þess konar medalía á heimssýningunni í San Francisco 1915. Verkstæði hans í Chicago eru tvær ekrur að gólfmáli, og á fimta hundrað manns vinna fyrir hann. Nú í seinni tíð hefir hann mikið starfað að því að búa til ýmsa parta fyrir víðboð (radio), og selur hann það til viðboðsfélaga í Ameríku og annarsstaðar. Vissulega er Hjörtur Þórðarson einn af þeim mönnum hvers andi þekkir engin takmörk. Hans mesta yndi er að reyna nýjar tilraunir, sem geta verið frækornið að nýjum uppfyndingum. Hann er nú búinn að koma ár sinni svo vel fyrir borð fjárhagslega, að hann getur gefið sig aðallega við rannsóknum, og má því að öllum líkindum mikils vænta af honum enn, því maðurinn er aðeins rúmlega fimtugur.
Bókasafn: Í yfir þrjátíu ár hefir hann lagt sig eftir því að safna að sér bókum, og teljast nú 14.000 bindi í bókasafni hans, og er fjöldi af þessum bókum nú ófáanlegar. Það er álit manna, sem sérstaklega hafa vit á þesskonar, svo sem eins og bókavarðar Yale-háskólans í Bandaríkjunum, að bókasafn þetta sé hið bezta prívat-bókasafn í Ameríku, hvað enskar bækur snertir, sem fjalla um náttúruvísindi og aðrar vísindalegar fræðigreinir. Óefað hefir hann það bezta íslenzkt bókasafn, sem nokkur prívat-maður á. Mikið af bókum sínum fær hann í gegnum London, og allar lætur hann binda þær í vandað band á Englandi. Á meðal bóka hans eru margar, sem ekki eru til í ríkisbókasafninu í Washington, og ýmsar, sem ekki eru til á British Museum í London. Nýlega hefir hann látið búa til málm-bókaskápa fyrir safn þetta, og eru þeir úr stáli og kopar, með hurðum úr dýrindis gleri. Í bókasafninu eru yfir 200 bækur um ferðalög á Íslandi. Þar finnast einni mjög sjaldséðar bækur frá 16. og 17. öld. Einnig margar, sem útskýrðar eru með litmyndum, handmáluðum og var hátímabil þeirrar listar frá 1780 til 1880. Nú er sú list alveg lögð niður. Hjörtur Thordarson er góður Íslendingur, talar fagurt íslenkzt mál og er íslenzka töluð á heimili hans. Hann er á því, að hann sé ekki lakari amerískur borgari, þó hann varðveiti arf þann, sem hann fékk frá fósturjörðinni, og er kona hans honum samdóma í því. Þau eiga tvo syni, Dewey og Tryggva, mjög efnilega og vel gefna menn.“
Merk rit um Hjört:
- THORDARSON and Rock Island. Höf. Richard Purington
- Rock Island Höf. Conan Bryant Eaton