Séra Rögnvaldur Pétursson

Vesturfarar

Rögnvaldur Pétursson heillaðist ungur maður að kenningum Unitara í Norður Ameríku. Hann las þau fræði og nam guðfræði í Pennsylvania og Harvard.  Henn réðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur með því að gerast prestur í slíkum söfnuði og boðberi nýrrar og ungrar trúarhreyfingar meðal landa sinna í Norður Ameríku. Hann hlaut að verða umdeildur maður og áreiðanlega stuðað marga Íslendinga vestan hafs en hvernig ætli umsögnin um hann hafi verið í vesturíslenska samfélaginu eftir tveggja áratuga starf. Þórstína Þorleifsdóttir tók við af látnum föður sínum, Þorleifi Jóakimssyni við að skrá sögu Íslendinga í Norður Dakota. Feðgin nálguðust verkefnið af kostgæfni og laus við alla fordóma og því er fróðlegt að heyra hver varð útkoman um séra Rögnvald Pétursson í bók Þórstínu ,,Saga Íslendinga í N. Dakota’‘ sem út kom árið 1926:

Wesley College, Winnipeg, Manitoba. Mynd Manitoba Archives

Upphafið: ,,Rögnvaldur Pétursson snertir íslenzkt þjóðlíf hér á þrem sviðum, sem prestur, sagnfræðingur og rithöfundur. Og þó hann sé enn maður tæplega miðaldra, hefir hann þegar afrekað miklu. Hann kom til Dakota barn að aldri með foreldrum sínum, Pétri Björnssyni og Margréti, er voru landnemar í grend við Hallson. Mentun sína fékk hann á barnaskólanum í Pembina-sýslu, síðar við Wesley – háskólann í Winnipeg, Meadville Únítara-prestaskólann í Meadville, Pennsylvania, og um tíma við Harvard-háskólann í Cambridge, Massachusetts. Á barndóms- og unglingsárum sínum í Dakota drakk hann djúpt af mentalindum íslenzkra bókmenta, og sýndi hann snemma sérstaklega nákvæmni í öllu, sem hann gerði; einnig tilhneigingu til að brjóta til mergjar hverja helzt kenningu, sem hann heyrði eða las. Ungur valdi hann sér lífsstöðu, sem hafði í för með sér mikla erfiðleika. Prestastaðan er ætíð erfið, en ekki sízt þegar presturinn er brautryðjandi nýrra skoðana, sem krefjast þess, að menn byggi upp nýjan kirkjulegan félagsskap. Þegar Rögnvaldur gerðist leiðtogi Únitarastefnunnar meðal Íslendinga vestan hafs 1903, var hann aðallega sá eini verulegi frömuður þess félagsskapar. Björn Pétursson var dáinn, Jón Ólafsson skáld farinn til Íslands, og séra Magnús Skaptason farinn að draga sig í hlé. Í þau rúm tuttugu ár, sem Rögnvaldur hefir verið prestur íslenzkra Únítara, hefir sá félagsskapur aukist mjög, bæði í Winnipeg og eins út um bygðir Íslendinga. Hann hefir þótt áhrifamikill sem prédikari, flytjandi kraftmikinn, rökstuddan boðskap; en það er ekki síður á hinu öðru sviði prestskaparins, daglega sambandinu við fólkið í veraldlegum sem andlegum efnum, að Rögnvaldur hefir komið fram sem leiðtogi.  Á því sviði hefir hann reynst sannur maður, hvort heldur áhrif hans hafa snert félagslíf eða einstaklinga. Og ekki hefir hann takmarkað starf sitt innan kirkjudeildar sinnar, heldur ávalt verið fús til þess að leggja lið mönnum og málefnum, hvar hann hefir álitið þörf.“

Þjóðrækni: Íslenzka Þjóðræknisfélaginu, sem stofnað var 1919, hefir hann veitt öflugt fylgi. Var forseti þess í tvö ár, og ritstjóri Tímaritsins, sem það hefir gefið út, síðan það byrjaði göngu sína. 

Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga

,,Íslenzku námsfólki hefir hann reynst hollur vinur, og oft hlaupið undir bagga með fátækum stúdentum af litlum efnum. Hann var einn af þeim, sem gekst fyrir því að gefa úr “Andvökur“ Stephans G. Stephanssonar, og kvæði Kristins Stefánssonar, “Út um vötn og velli“. Það er ein hlið af starfi séra Rögnvaldar, er almenningur veit lítið um, og það er, hvað margir, andlega og líkamlega bugaðir af erfiðleikum, oft utan hans kirkjudeildar, hafa leitað til hans, oftlega eftir að hafa verið búnir að fara til margra annara. Þeirri, er þetta ritar, er perssónulega kunnugt um mörg þesskonar dæmi, og hefir þeim þurfandi ávalt verið veitt lið á einn eður annan hátt. Sem sagnfræðingur og rithöfundur er séra Rögnvaldur áreiðanlega einn sá fremsti í hópi Vestur-Íslendinga. Íslenzkar bókmentir, bæði fornar og nýjar, hafa ætíð gagntekið hann, og hann hefir vafið einkenni sagnaþulanna fornu inn í sitt daglega líf, og munu fáir vita meira um sögu Vestur-Íslendinga, í smáu sem stóru, heldur en hann. Sömuleiðis hefir hann lagt sig mikið eftir bókmentum annara þjóða, og kann hann í fullum mæli að meta andans hæfileika hvaðan sem þeir eiga uppruna sinn. Séra Rögnvaldur hefir ritað mikið, mesta fjölda af greinum í blöð og tímarit, frumsamið og þýtt bækur, svo sem Ferðalýsingar 1912 (frumsamið) og þýðing á Hetjusögum Norðurlanda eftir Jakob Riis. Greinar hans í Tímaritit Þjóðræknisfélagsins, um Þjóðræknissamtök Vestur-Íslendinga, eru talandi vitni þess, hvaða sagnfræðshæfileika höfundurinn hefir, og hvað nákvæmlega hann safnar heimildum. Séra Rögnvaldur er giftur Hólmfríði, dóttur Jónasar Kristjánssonar og Guðrúnu Þorsteinsdóttur frá Hraunkoti. Þau hjónin eiga fjögur efnileg börn.“

Ævistörf og rit: Stofnandi Sambandssafnaðar í Winnipeg og Sameinaða kirkjufélagsins 1923. Ráðsmaður Heimskringlu um skeið og stundum ritstjóri. Einn af forvígismönnum heimferðar Vestur-Íslendinga til Alþingishátíðarinnar 1930, gjaldkeri og aðalhvatamaður að stofnun Canadasjóðs í tilefni af þúsund ára afmæli Alþingis. Heimsótti Ísland 1912, 1921, 1930, 1934 og 1937. D.D. honoris causa frá Meadville, Chicago 1928. Dr. phil. honoris causa við Háskóla Íslands 1930. Heiðursmerki Alþingishátíðarinnar 1930. Stórriddarakross með stjörnu hinnar íslenzku Fálkaorðu 1930. Rit: Barnalærdómur eftir unitariskri kenningu, Winnipeg 1911 (ásamt sr. Guðmundi Árnasyni og sr. Albert Kristjánssyni). Ferðalýsing frá sumrinu 1912, Wpg.1914. Tvær ræður: Trúarkrafan og skoðun Unitara, Unitara-smárit l-11, Rvík 1913 og 1914. Ritstjóri Heimis 1904-14, Tímarits Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi 1919-29, Heimskringlu 1913-14. Fjöldi ritgerða er eftir hann í þessum tímaritum og blöðum. Þýðing: J. A.Riis :Hetjusögur Norðurlanda, Wpg. 1921. Fögur er foldin, ræður og erindi. Þorkell Jóhannesson bjó til prentunar, Reykjavík, 1950. Sá um útgáfu á Minningarriti íslenzkra hermanna 1914-1918, Wpg. 1923, ritaði formála og æviágripin. Andvökum St. G. Stephanssonar l-lV (fyrstu bindin ásamt Eggert Jóhannssyni og Skapta Brynjólfssyni) og Ljóðmælum Kristins Stefánssonar;Út um vötn og velli, Wpg. 1916 (með Gísla Jónssyni). Safnaði saman bréfum Steph. G. Stephanssonar og ritaði þau upp til prentunar, en dr. Þorkell Jóhannesson sá um útgáfuna (Bréf og ritgerðir, Rvík 1939-48). (VÍÆ1)