Á síðustu áratugum 19. aldar var gríðarlegur uppvöxtur í gervallri Norður Ameríku. Fólksflutningar frá Evrópu vestur um haf voru gríðarlegir, borgir og bæir urðu til og uxu á dæmalausum hraða. Norðuramerískt samfélag var í mótun í Bandaríkjunum og Kanada, tækifæri til að skapa sér og sínum betra lífsviðurværi þar en í heimalandinu voru mörg og margvísleg. Flestir vesturfarar fluttu með sér frá heimalandinu einhverja reynslu og þekkingu og kusu að finna því farveg í Vesturheimi. En börn þeirra mörg fæddust í nýju umhverfi og uxu úr grasi í heimi sem tók nánast daglega miklum breytingum á tímum nýrra uppgötvana og framþróunar. Allir íslenskir foreldrar í Vesturheimi vildu börnum sínum það besta og snemma áttuðu þeir sig á því að lykillinn að nýju samfélagi og öllum tækifærunum þar var góð enskukunnátta sem auðveldaði menntun. Í íslensku nýlendunni í N. Dakota kappkostuðu landnemar að reisa skóla í sínum sveitum og þorpum og voru kennarar iðulega íslenskir sem höfðu gengið menntaveginn t.d. í háskólanum í Grand Forks. Eflaust áttu þeir sinn þátt í ákvörðun sumra nemenda að fylgja í þeirra fótspor og kusu annað en landbúnaðarvinnu. Í bók sinni ,,Saga Íslendinga í N. Dakota“ getur Þórstína Þorleifsdóttir nokkurra ungra manna sem urðu læknar eða lögfræðingar. Einn slíkur var Hjálmar Ágúst Eiríksson Bergman sem fæddist í Garðar. Skoðum umsögn Þórstínu:
Nám og starf: ,,Hjálmar Ágúst Bergmann er fæddur að Garðar, Norður Dakota 1881. Foreldrar hans voru Eiríkur Hjálmarsson Bergman og Ingibjörg Pétursdóttir Thorlacius. Alþýðuskólamentun sína fékk hann í Dakota, en æðri mentun við Luther College í Decorah, Iowa, þaðan sem hann útskrifaðist með Artium Baccalaureus einkunn 1900. Við háskóla Norður Dakota las hann lög, og útskrifaðist úr þeirri deild 1903 með einkunn LL.B. 1906 tók hann lögfræðispróf Manitoba-háskólans, og var honum þá veitt LL.B. einkunn fyrir Manitoba-fylki. Hann hefir þannig rétt til þess að flytja mál bæði í Norður-Dakota og Manitoba. 6. október, 1920 var Hjálmar sæmdur þeim heiðri að vera gerður að “King´s Counsel“, sem er sérstök viðurkenning innan brezka veldisins fyrir framúrskarandi lögmannsstarf. Lögmenn, sem veittur er þessi heiður, eru kjörnir til að flytja og verja mál þau, er aðallega snerta ríki það, sem þeir tilheyra, og ætlast er til þess að þeir fái sérstakt leyfi til að sækja mál á móti ríkinu. Ýmis hlunnindi fylgja þessum heiðri, sem mikils virði eru í almennu lögmannsstarfi. Aðeins einn annar Íslendingur hefir verið þannig heiðraður, Thomas H. Johnson, fyrrum dómsmálaráðherra Manitoba-fylkis. Hjálmar Bergman hefir flutt mörg mál, sem vakið hafa mikla eftirtekt; en það eru aðallega þrjú, sem snert hafa Íslendinga, og verið hafa umtalsefni bæði meðal Austur- og Vestur-Íslendinga. Hið fyrsta var hið svokallaða Thingvallakirkjumál, sem stóð yfir frá 1910-1914, annað Tjaldbúðarmálið og hið þriðja varnarmál Ingólfs Ingólfssonar. Bergman var sækjandi í hinum tveimur fyrstu málum, og persónulega þeim megin málsins. Hann vann bæði þau mál. Hið síðastnefnda vakti ef til vill mesta eftirtekt, sérstaklega af því að Ingólfur Ingólfsson var sá fyrsti Íslendingur vestan hafs, sem sakaður var um morð, sá fyrsti Íslendingur hér vestra, er borinn hefir verið á sá glæpur. (Þetta var í Alberta í Kanada. Ingólfur var dæmdur 1924 fyrir að hafa barið Hugh nokkurn McDermott til óbóta: Innskot Jónas Þór) Ingólfur hafði verið sekur fundinn og dæmdur til dauða, þegar Bergman tók að sér málið. Maðurinn hafði verið dæmdur eftir líkum, og Íslendingar, sem kunnugir voru gangi málsins, álitu að hann hefði fengið lélega vörn; svo íslenzka þjóðræknisfélagið tók að sér að leita samskota til þess að hefja nýja rannsókn í málinu. Var Hjálmar fenginn til þess að taka að sér vörn þessa óhamingjusama manns. Þeir, sem kunnugir eru brezkum dómstólum , vita að það er enginn hægðarleikur að breyta dómsúrskurði, eftir að hann hefir einu sinni verið felldur. En Hjálmari tókst eftir mikla fyrirhöfn og rannsóknir, að fá dómnum breytt í æfilangt fangelsi. Íslendingar, bæði í Canada og Bandaríkjunum, tóku sér þetta tilfelli mjög nærri, sérstaklega af því ekki einn Íslendingur vestan hafs hafði áður verið dæmdur í glæpafangelsi í þau fimtíu ár, sem þeir hafa verið í Ameríku. Kunnu þeir því Hjálmari mikið þakklæti fyrir, að hafa komið því til leiðar, að einn úr hópi þeirra frelsaðist frá gálganum. Eitt aðaleinkenni Hjálmars Bergmanns er framúrskarandi vandvirkni, ekkert of mikil fyrirhöf, ef það getur styrkt það, sem hann er að koma til leiðar, hvað svo sem það kann að sýnast lítils virði. Hann er einn af þeim fáu Íslendingum, fæddum vestan hafs, sem eftir áliti séra Friðriks Bergmanns, frænda hans, er jafnvígur á báðar tungurnar, ensku og íslensku. Kona Hjálmars Bergman er Emelía Sigurbjörg, dóttir Jóns Jónssonar Bardal, bónda að Garðar“
Annað morðmál: Íslendingar vestra leituðu stundum til Hjálmars Á. Bergmann þegar liðsinni lögfræðings skipti máli að þeirra mati. Séra Valdimar J Eylands sagði mér frá einu slíku. Ég var við nám í Manitobaháskóla og las mikið í íslenskudeild háskólabókasafnsins á árunum 1977-1980. Þangað kom séra Valdimar nokkuð reglulega því hann var þá að vinna efni í bók sína ,,Úr Víðidal til Vesturheims“ . Við fengum okkur stundum kaffi saman og þá var gaman að heyra sögur prestsins. Eitt sinn greindi hann mér frá einu erfiðasta embættisverka sinna þegar hann var kallaður í fangelsi þar sem dauðadæmdir biðu aftöku. Miðaldra maður var dæmdur fyrir morð á ungri stúlku og átti að taka hann af lífi í fangelsinu. Þetta var íslenskur maður og þess vegna var íslenskur prestur kallaður til. Ég greini ekki frá nafni mannsins sem kom fárra ára gamall frá Íslandi til Manitoba skömmu fyrir eða um aldamótin 1900 með foreldrum sínum. Á sínum tíma kynnti ég mér málsatvik og í skjölum fann ég þetta; ,,a bachelor born in Iceland who at the age of two arrived at the Lake Manitoba Narrows with his parents. In winter, N. fished on Lake Manitoba and in summer he worked at farms in the Portage area. Unlike most Icelanders of the day, who prided themselves on their ability to read and write, N. was illiterate. Í lauslegri þýðingu minni :,, einhleypur, fæddur á Íslandi sem tveggja ára gamall kom með foreldrum sínum sem settust að í Narrows við Manitobavatn. Á veturna veiddi N í vatninu en vann hjá bændum í nágrenni Portage á sumrin. Ólíkt flestum Íslendingum sem stæra sig af læsi og skrift var N. ólæs.“ En hér kemur lýsing séra Valdimars eins og hann skráði hana í áðurnefndri bók: ,, Það atvikaðist þannig, að ung stúlka hafði horfið skyndilega, en fannst eftir nokkra leit myrt og falin í skógarrjóðri. Ástmaður hennar, sem ég nefni aðeins N. var grunaður um morðið, tekinn fastur, dreginn fyrir rétt, fundinn sekur af kviðdómi eftir líkindasönnunum og dæmdur til hengingar samkvæmt þáverandi landslögum. Að útliti og háttalagi virtist hann maður vangefinn, en átti vanda fyrir ofsalegum æðisköstum, og var talið að hann hafi framið ódæðisverkið í bræði sinni. En það var ekki talin gild afsökun, – menn eiga að stjórna geði sínu og gjörðum. Aldrei játaði hann glæpinn, en öll bönd bárust að honum. Saksóknari ríkisins var reyndur og þaulæfður í starfi sínu og hann krafðist dauðadóms að lögum. Fanginn var umkomulítill og félaus maður, og þegar þannig stendur á, skipar dómarinn verjanda eftir sínu höfði. Í þessu tilfelli var ungur og óreyndur lögfræðingur skipaður verjandi, en honum var trekt um tungutak, að sögn, er hann leitaðist við að svara röksemdum andstæðings síns fyrir réttinum og fann skjólstæðingi sínum fátt til málsbóta. Kviðdómurinn lýsti hinn ákærða sekan og dómarinn kvað strax upp dauðadóm, sem fullnægja skyldi 7. febrúar, 1946 í fangahúsi fylkisins. Mér blöskraði ólán þessa aumingja manns, og einnig þekkti ég nokkra ættingja hans. Afréð ég því að kynna mér málið og athuga hvort nokkuð væri hægt að gera til að bjarga lífi hans. Hjálmar A. Bergmann, síðar dómari í hæstarétti fylkisins, var þá talinn ein af hæfustu lögmönnum í Kanada. Hann var meðlimur í söfnuði mínum. Með leyfi dómarans fékk ég málsskjölin að láni, til þess að ég mætti leggja þau fyrir lögfræðinginn í þeirri von, að hann kynni að finna þar tilefni til að áfrýja dómnum. Eftir nokkra daga kom ég inn í skrifstofu hans og hafði hann þá athugað skjölin öll. Svar hans var stutt og ákveðið eins og hans var venja. Hann ýtti skjölunum yfir borðið til mín og sagði:,, Ég sé enga von í þessu“.
Séra Valdimar reyndi hvað hann mátti og skrifaði meira að segja dómsmálaráðherra Kanada í Ottawa og bað um náðun sem ekki fékkst. Aldrei fékk hann alla sólarsöguna frá fanganum og horfði á eftir honum í gálgann umræddan dag árið 1946. JÞ.