Brandur J Brandson

Vesturfarar

Á síðustu áratugum 19. aldar var gríðarlegur uppvöxtur í gervallri Norður Ameríku. Fólksflutningar frá Evrópu vestur um haf voru gríðarlegir, borgir og bæir urðu til og uxu á dæmalausum hraða. Norðuramerískt samfélag var í mótun í Bandaríkjunum og Kanada, tækifæri til að skapa sér og sínum betra lífsviðurværi þar en í heimalandinu voru mörg og margvísleg. Flestir vesturfarar fluttu með sér frá heimalandinu einhverja reynslu og þekkingu og kusu að finna því farveg í Vesturheimi. En börn þeirra mörg fæddust í nýju umhverfi og uxu úr grasi í heimi sem tók nánast daglega miklum breytingum á tímum nýrra uppgötvana og framþróunar. Allir íslenskir foreldrar í Vesturheimi vildu börnum sínum það besta og snemma áttuðu þeir sig á því að lykillinn að nýju samfélagi og öllum tækifærunum þar var góð enskukunnátta sem auðveldaði menntun. Í íslensku nýlendunni í N. Dakota kappkostuðu landnemar að reisa skóla í sínum sveitum og þorpum og voru kennarar iðulega íslenskir sem höfðu gengið menntaveginn t.d. í háskólanum í Grand Forks. Eflaust áttu þeir sinn þátt í ákvörðun sumra nemenda að fylgja í þeirra fótspor og kusu annað en landbúnaðarvinnu. Guðbrandur Jónsson úr Dalasýslu var 6 ára þegar hann kom í hina nýstofnuðu, íslensku byggð í N. Dakota með foreldrum sínum. Hann naut tilsagnar í foreldrahúsum fyrstu árin og var farinn að lesa ágætlega þegar hann settist á skólabekk í nýjum skóla í heimbyggð sinni að Garðar 1882. Þá var hann svo lánsamur að njóta kennslu séra Friðriks Bergmans sem hafði einstakt lag á að vekja áhuga nemenda sinna á íslenskum uppruna sínum, eitthvað sem bjó með þeim alla tíð. Þetta var einn af kostum Guðbrands alla tíð en um hann segir í bók Þórstínu Þorleifsdóttur, ,,Saga Íslendinga í N. Dakota“:

Feðgar á ferð: Jón Brandsson, Guðbrandur sonur hans og Thomas Leonard. Mynd SÍND

,,Dr. Brandur J. Brandsson

Fáir hafa gefið sig meira að almennum velferðarmálum Vestur-Íslendinga í seinni tíð, en Dr. Brandur J. Brandsson, hinn góðkunni læknir í Winnipeg. Hann er sonur Jóns Brandssonar frá Hvoli í Dalasýslu og Margrétar Guðbrandsdóttur Sturlaugssonar í Hrútadal. Ungur að aldri kom hann með foreldrum sínum til Garðar-bygðar 1880, og naut þar alþýðuskólamentunar, en háskólanám sitt stundaði hann við Gustavus Adolphus College í St. Peters, Minnesota. Í læknisfræði útskrifaðist hann með ágætis vitnisburði frá læknaskólanum í Winnipeg (Manitobaháskóla: Innskot Jónas Þór), og hefir hann aðallega stundað lækningar þar í borg, og er talinn í fremstu röð uppskurðarlækna í Canada. Íslendingar út um allar hinar dreifðu bygðir leita til hans með trausti og tiltrú, sem þeim hefir reynst vel.  Þrátt fyrir sitt víðtæka starf sem læknir, hefir Dr. Brandson gefið sig við ýmsum félagsmálum. Fyrsta Lúterska söfnuðinum hefir hann veitt öflugt fylgi; verið um margra ára skeið einn aðal máttarstólpi gamalmennahælinu á Gimli. Jóns Bjarnarsonarskóla hefir hann styrkt á ýmsa vegu, og reynst íslenzkum stúdentum hjálpsamur vinur. Stúdentafélagið íslenzka í Winnipeg hefir fundið í honum eldri bróður, er ætíð hefir verið reiðubúinn að leggja því lið. Dr. Brandsson er vel máli farinn, bæði á ensku og íslenzku, og kveður ávalt mikið að því, sem hann segir. Hans rólega og blátt áfram framkoma er áreiðanlega stór þáttur í trausti því, sem almenningur yfirleitt ber til hans.“

Nánar um Guðbrand Jónsson:

,,Hann naut heimakennslu hjá séra Friðrik Bergmann í uppvexti, innritaðist síðan í Gustavus Adolphus College, St. Peter, Minn., og lauk þaðan B. A.-prófi 1895. Kenndi jafnframt í sumarfríum sínum unglingum í heimabyggð sinni og vann þannig fyrir sér við námið. Lauk læknaprófi frá Manitoba-háskóla árið 1900. Stundaði fyrst lækningar í Edninburgh, N. D., en fór svo til Evrópu og var þar við framhaldsnám í Dublin, Vínarborg og London eitt ár og settist síðan aftur að í heimabyggð sinni í N. Dakota, unz hann fluttist til Winnipeg 1905. Gat hann sér snemma góðan orðstír sem skurðlæknir. Var skipaður kennari við Manitoba Medical College 1910, og á árunum 1927-’34 var hann prófessor í skurðlækningum við læknadeild Manitobaháskóla, og forseti deildarinnar. Jafnframt var hann á árunum 1926-1934 yfirlæknir við skurðlækningadeild General Hospital í Winnipeg. Gegndi margvíslegum störfum í íslenzku félagslífi í Winnipeg, átti mikinn þátt í stofnun Elliheimilisins á Gimli og vann mikið að safnaðarmálum Fyrstu lúthersku kirkju og var lengi forseti safnaðarins. Sótti Alþingishátíðina 1930 og var þá gerður að heiðursdoktor í læknisfræði við Háskóla Íslands. Stórriddari Fálkaorðunnar 1910. Hann var gerður að heiðursdoktor í lögum við Manitobaháskóla 1944.“ (VÍÆ4 og AC The Icelanders of Minnesota)