Ólafur Björnsson settist að í Winnipeg árið 1890 til að stunda nám. Hann innritaðist í Central Collegiate og lauk þar miðskólaprófi. Þar hóf hann nám í læknisfræði og lauk því námi við Manitobaháskóla árið 1897, fyrstur Íslendinga í Vesturheimi. Hann hóf læknastörf í Winnipeg og átti borgin eftir að vera hans vinnustaður næstu 40 árin. Hann gerði hlé á störfum sínum upp úr aldamótum og fór til Evrópu. Var í London og Vínarborg um sama leyti og Brandur J. Brandson árið 1902. Þegar Brandur flutti til Winnipeg árið 1905 opnuðu þeir félagar læknastofur þar í borg sem þeir ráku saman um árabil. Ólafur varð aðstoðarkennari við Læknadeild Manitobaháskóla 1907 og prófessor við deildina árin 1923-1932. Ólafi var margt fleira til lista lagt, hann unni listum og vísindum, hafði góð tök á tungumálum og þótti framúrskarandi stærðfræðingur. Þá las hann stöðugt ljóð, íslensk og kanadísk.(JÞ)