Magnús Björnsson fór vestur með foreldrum sínum árið 1884 og settist fjölskyldan að í Thingvallabyggð í N. Dakota suður af Mountain. Magnús var á 15. ári þegar vestur kom og hlaut hann einhverja menntun í byggðinni þar til hann fór norður til Winnipeg til að nema læknisfræði. Hann útskrifaðist frá Manitobaháskóla fór þá suður til N. Dakota og vann við læknastörf í bænum Hensel suðvestur af Cavalier. Hann færði sig um set og fór vestur í ríkið til bæjarins Souris þar sem börn hans fæddust. Þaðan lá leiðin norður til Winnipeg þar sem þau bjuggu síðan.
Í bók Þórstínu Þorleifsdóttur, ,,Saga Íslendinga í N. Dakota“ sem út kom árið 1926 segir um Halldór: ,,Sem sérgrein í læknisfræði hefir Dr. Halldórsson aðallega lagt fyrir sig brjóst-sjúkdóma af ýmsu tæi. Hann er maður mjög félagsyndur. Er hans minst í Dakotabygðinni, sem eins of þeim ungu mönnum, er uxu upp, sem mikinn þátt áttu í að byggja upp félagsskap og stuðla að almennum skemmtunum. Hans er einnig minst þar af mörgum sem sérlega góðs skólakennara, sem margan ungling undirbjó og hvatti til að ná æðri mentun. Dr. Halldórsson tekur mikinn þátt í félagsskap íslenzkra Únítara í Winnipeg.“