Gísli Jónsson hóf prentun í Winnipeg sama ár og hann kom þangað árið 1903 og starfaði við það allt til ársins 1946. Hann lét strax til sín taka í útgáfustarfsemi t.d. réðst hann strax í st0fnun prentsmiðju og hóf útgáfu tímarits sem kallaðist Heimir. Hann prentaði fyrstu fimm árganganna en tímaritið kom út til ársins 1914. Hann sá um útgáfu ýmissa vesturíslenskra ljóðabóka og skrifaði inngang að sumum þeirra. Má nefna Fylgt úr hlaði kvæði eftir Bjarna Þorsteinsson, Kvæðabók eftir Kristján S. Pálsson. Hann skrifaði formála að ræðusafni Dr. Rögnvalds Péturssonar. Eftir liggja fjölmargar greinar í Lögbergi og Heimskringlu, Eimreiðinni, Tímaritinu o.fl. Sjálfur orti Gísli og út komu Farfuglar árið 1919 og Fardagar árið 1956. Loks má geta þess að hann sá um útgáfu á bókum konu sinnar, Hillingalönd árið 1938, Dagshríðarspor; Tólf sögur árið 1946. Gísli tók mikinn þátt í félagsstarfsemi Íslendinga, sat í stjórn Þjóðræknisfélagsins mörg ár og var ritstjóri tímarits félagsins frá 1940.