Kristján Fjelsted

Vesturfarar

Kristján Fjelsted fæddist á Hallbjarnareyri í Snæfellsnessýslu. Foreldrar hans voru Eggert Vigfússon og Þórey Nikulásdóttir. Nafnið Fjelsted er  þannig tilkomið að afi Kristjáns, Vigfús Andrésson fór til náms í Noregi. Hann var hár og þrekinn og uppnefndu norskir hann Fjalstad . Vigfúsi leiddist það ekkert og þegar heim kom var hann  orðinn Fjelsted. Kristján fór til Reykjavíkur í nám og valdi trésmíði.  Hann kvæntist Guðbjörgu Jónsdóttur árið 1898 og saman fluttu þau austur á Seyðisfjörð þar sem Kristján byggði hús og málaði og hafði nóg að gera í nokkur ár. En að því kom að verkefnum fækkaði,  þrjú börn voru fædd og atvinnulaus gat Kristján ekki fætt þau og klætt. Eftir að hafa kannað ýmsa möguleika afréð Kristján að skársti kosturinn væri að flytja til Vesturheims. Elsti sonurinn dó aðeins þriggja ára og fór því fjögurra manna fjölskyldan vestur til Winnipeg árið 1903. Stuttu eftir komuna þangað dó ársgamall sonur, Eggert að nafni. Kristján fékk vinnu við húsamálun og vann helst við hús í hverfi Íslendinga nærri Sargent Ave. Hann réðst fljótlega í að byggja sitt eigið hús og þar bjuggu þau í fáein ár. Tvær stúlkur fæddust í Winnipeg, þær Laufey og Kristín. Árið 1907 afréð Kristján að flytja og gat hann skipt á húsi sínu og landi rétt suður af Lundar. Hann  byggði bjálkahús og flutti þangað um haustið. Að ári liðnu hafði hann byggt nýtt íbúðarhús og skemmur á landi sínu. Þessar byggingar voru fluttar á annað land nærri bænum árið 1915 og þar bjuggu þau síðan.