Magnús Bjarnason

Vesturfarar

Magnús Bjarnason fæddist í Vík í Sæmundarhlíð í Skagafirði. Foreldrar hans voru Bjarni Þorleifsson, d. 1872 á Íslandi og Hólmfríður Magnúsdóttir sem lést í Glenboro í Manitoba 19. nóvember, 1912. Magnús lærði trésmíði á Akureyri áður en hann fór vestur um haf árið 1887. Hann fékk járnbrautarvinnu í Winnipeg og hóf fljótlega nám í járnsmíði. Vann við þá iðn í Mountain en aðallega í Hallson í N. Dakota. Í afmælisriti Lundarbyggðar, ,,Lundar Diamond Jubilee“  sem út var gefið í Manitoba árið 1947 stendur eftirfarandi um Magnús: ,,Magnús Bjarnason, alment nefndur Magnús Black, var járnsmiður ágætur. Hann var skagfirskur að ætterni og kom ungur til Ameríku. Hann bjó á N.W. 1/4 section, Tp. 16, 5.*  Flutti hann á þetta land sitt árið 1902. Eftir nokkur ár flutti hann svo til Vatnabyggðanna í Saskatchewan fylki. Hann mátti kalla snilling í iðn sinni enda hafði hann stundað hana lengi, vann við járnsmíðar með Sigurði Anderson í Dakota í mörg ár.**  Hann fékst enda nokkuð við uppfyndingar, meðal annars fann hann upp áhald til gólfhreinsunar. Ekki kom hann þessari uppfyndingu á framfæri enda maður nokkuð einþykkur. Guðmundur Johnson, systursonur hans frá Glenboro, fann upp vél til að hreykja kornbindum og smíðaði Magnús vélina og mun hafa lagt ráð til. Hún var álitin vel starfhæf þótt aldrei kæmist hún á markaðinn enda breyttust bráðlega allir staðhættir.“

*Þetta er tilvísun í kanadískt uppmælingakerfi lands. Umrætt land Magnúsra var í Norðvestur, Tsp er Township sem var númerað, þá var það R. fyrir Range en mælt var frá ákveðnum lóðréttum línum frá norðri til suðurs og hans land í þessum útmælda reit var númer 5.

**Hér er átt við Sigurð Andrésson úr Rangárþingi sem vestur fór árið 1886.