Helgi Einarsson

Vesturfarar

Helgi Einarsson Mynd Ævisaga

Lífshlaup Helga Einarssonar var um margt gerólíkt annarra Íslendinga á sléttum Kanada. Hann hafði ekki verið lengi í Manitoba þegar hann reyndi fiskveiðar á Manitobavatni. Fljótlega komst hann að því að vel væri hægt að lifa á því að veiða fisk en að koma aflanum á markað var flóknara. Árið 1954 gaf Ísafoldarprentsmiðja í Reykjavík út bókina ÆVISAGA HELGA EINARSSONAR en efni hennar skrifaði Helgi sjálfur. Þar segir Helgi frá því að hann hafi byrjað að skrifa við Lake St. Martin í norðanverðu Manitoba 3. apríl, 1920. Í formála segir hann; ,,Ég hef oft hugsað um að skrifa upp það helzta af ævisögu minni eða yfirlit yfir það helzta, sem komið hefur fyrir mig í lífinu. Ég held, að ég gæti skrifað margar sögur um það, ef ég reyndi, en hingað til hef ég ekki gert það, af því ég hef alltaf haft svo mikið að gera. En það lítur út fyrir, að ég hafi mjög lítið að gera um nokkurn tíma, svo ég ætla að sjá, hvað ég get gert, ef ske kynni, að einhver gæti lært eitthvað af þessu og orðið fyrir það betri maður.“  Hér á eftir koma brot úr sögu Helga.

Æskuár

,,Mér hefur verið sagt, að ég hafi fæðzt 28. ágúst, 1870 og er því um 50 ára, þegar ég byrja að skrifa þetta, en er eins frískur og hraustur eins og ég var um þrítugt. Þó að ég hafi stundum unnið hart, þá hefur það ekki sakað mig. Ég hef aldrei drukkið neina áfenga drykki eða notað nokkurt tóbak og aldrei drukkið kaffi og mjög lítið af te eða neinu þess háttar og álít, að það sé af því, hvað ég hef góða heilsu. Ég hef aldrei orðið mikið veikur um ævina, nema einu sinni lá ég í mislingunum heima á Íslandi. og ég man enn þá, hvað ég var máttlaus, þegar ég fór fyrst á fætur aftur. Þá var ég svo máttlaus, að ég gat ekki gengið. … Þegar ég fór dálítið að stækka, vandi faðir minn mig fljótt við vinnu. Ég var látinn smala, sitja yfir ánum og vaka yfir túninu. Og eftir að ég stækkaði dálítið meira, var ég látinn slá og raka, fara á milli með heyflutning og hvað annað, sem þurfti að gera. Á veturna var ég látinn moka hesthúsin og gefa fénu. Á þeim tómum var siður að lesa húslestra á hverjum sunnudegi, og var ég látinn gera það. Líka var ég látinn lesa sögur á kvöldin fyrir heimilisfólkið, og gerði ég það marga vetur. Ég býst við, að ég hafi ekki verið meira en svo sem 7 til 8 ára, þegar ég fór til þess, og þótti mér mjög gaman að því. Ég var sólginn í að lesa bækur og blöð. Ég las allt. sem ég náði í og gat fengið að láni í svitinni. Ég fór vel með bækur og var því vel til að fá allar þær bækur, sem voru þar. Ég man ekki til, a’ nokkur maður neitaði mér um að lána bók. Með þessu móti las ég hér um bil allar Íslendingasögurnar, Noregskonungasögurnar, þjóðsögurnar allar og Þúsund og eina nótt og margt fleira. Líka var ég heldur vel að mér í biblíunni og las mest af henni, þó að mér líkaði hún ekki, að minnsta kosto kenningar Gamla testamentisins. En mest af kenningum Nýja testamenntisins líkaði mér vel. Ég hugsaði mikið um trúmál um það leyti og vissi ekki, hverju ég ætti að trúa, en komst fljótt á þá skoðun, að kenningar Gamla testamenntisins og kenningar prestanna væru ómögulegar. Ég býst við, að ég hafi verið frá 11 til 12 ára, þegar ég hugsaði mest um þetta, og komst ég að þeirri niðurstöðu, að ef það væri guð til, sem væri eins óréttlátur og biblían kenndi, sem skapaði menn bara til þess að láta þá fara til helvítis, þá skyldi ég aldrei vera hjá honum, þegar að því kæmi, að ég yrði kallaður fyrir hann. …Þessari skoðun minni á guði, eins og honum er lýst í biblíunni, hef ég lítið breytt síðan.“ Eins og algengt var víða á Íslandi á æskuárum Helga, gekk hann nánast ekkert í skóla en var sendur til sýslumanns brot úr vetri og átta vikur var hann hjá sóknarpresti.

Til Vesturheims – Upphafið í Kanada

Árin 1881-1887 voru mörgum erfið víða um land, kaldir langir vetur og stutt sumur með miklum rigningum svo heyskapur gekk illa. Á þessum árum fluttu einhverjir til Vesturheims ár hvert og margir aðrir hugleiddu brottflutninga. Helgi rifjaði upp; ,,Ég man, að pabbi sagði, að í svona landi væri ekki lifandi.“  Árið 1886 var Baldvin Balvinsson umboðsmaður Kanadastjórnar á ferð um Ísland og heimsótti bændur í Borgarfirði m.a. föður Helga. Það dugði og ákvað fjölskyldan að flytja vestur. Helgi segir ferðalagið hefjast árið 1887,(Vesturfarakrá segir fjölskylduna hafa farið 1888, innsk. J. Þ.) hann skrifar; ,,Klukkan 10 um morguninn 16. júlí, 1887, rann lestin með okkur inn á stationina í Winnipeg, og vorum við nú komin til fyrirheitna landsins, þar sem allir eru jafnir og allir hafa tækifæri til að verða ríkir, ef þeir bara hafa vit á að gera það, þar sem eru fleiri tækifæri en í nokkru öðru landi, þó að erfiðleika séu þar auðvitað líka, sem eðlilegt er, þar sem við kunnum ekki til þeirrar vinnu, sem átti að gera, og allt varð að læra.“ ….,,Þegar ég kom til Winnipeg, var ég orðinn nærri 17 ára gamall, svo að ég varð að álíta, að ég væri að komast á fullorðinsárin, enda varð ég nú að fara að vinna eins og fullorðinn væri. Strax og við komum út úr lestinni, komu landar að sjá okkur, sem höfðu verið hér í nokkur ár og voru orðnir kunnugir hér. Á meðal þeirra var maður úr Borgarfirðinum, sem hét að mig minnir, Bergur Jónsson, og var giftur dóttur Stefáns í Kalmanstungu. Var hann búinn að vera hér í Winnipeg í tvö eða þrjú ár og líkaði bærilega. Hafði hann vinnu við að grafa skurði, og voru flestir landar við þá vinnu í þá daga. Var það bæði skítug og erfið vinna, en þó vel borguð, eftir því sem þá gerðist. En landinn var duglegur að moka skít og fékk nóg að gera. Þessi maður bauð okkur heim til sín, og þáði pabbi það. Við vorum því ekki á emígrantahúsinu, vorum þar aðeins svo sem einn eða tvo klukkutíma og fórum svo heim til hans. Þar vorum við í 4 daga, og svo var farið að ráðleggja, hvað bezt væri að taka til bragðs.“

Landnám

Winnipeg var nokkurs konar endastöð fyrir Íslendinga, sem vestur fluttu 1880-1890. Flestir Vesturfararnir höfðu fá tækifæri til að ákveða hvar þeir ætluðu að setjast að vestanhafs. Algengast var að dvelja í borginni einhvern tíma meðan lagt var á ráðin. Byggð var í mótun í N. Dakota, Nýja Íslandi var ekki lengur fyrirheitna landið og vestur af borginni tók ónumin sléttan við. Þegar leið á seinni hluta umrædds áratugar höfðu nokkur þúsund flutt vestur frá Íslandi og reyndu að fóta sig vestra. Á Íslandi gátu fáir ákveðið fyrir brottför hvar framtíðin væri, fréttir úr Vesturheimi voru fáar og lítt ábyggilegar fyrst og fremst vegna þess að þorri vesturfara átti erfitt með að hefja landnám. Hvernig ætli foreldrum Helga hafi vegnað? Hann skrifar: ,,Pabbi fann mann, sem Hinrik hét, og var hann einhendur. Var hann af Ísafirði og hafði farið norður að Manitobavatni til að skoða sig um þá um vorið og leizt vel á sig þar. Var hann nú að reyna að fá menn til að fara þangað með sér til að búa. Faðir minn hafði 280,00 dali í peningum, þegar hann kom til Winnipeg. Það var ekki mikil upphæð, en þó nóg til að byrja með, eða við létum það nægja. Fyrst vorum við að hugsa um að setjast að í bænum, en réðum af að fara norður til Manitobavatns með Hinrik.“ Bræðurnir Helgi og Kristján fóru á undan foreldrum sínum í svokallaða Álftavatnsbyggð og nú heldur Helgi áfram:,, Pabbi keypti í Winnipeg tjald 10 og 12, litla elda-;,,stove“ nr. 9, lítinn ofn og dálítið af diskum og öðrum nauðsynjum, hveiti og grjón og annað, sem þurfti helzt. Flutti maður, sem hét Björn Lyngdal okkur norður með þetta. Tók okkur 3 daga að komast norður í Álftavatnsbyggðina, því að svo hafði Hinrik kallað þessa byggð, og fengum við mikið af flugu á leiðinni og vorum illa til reika, allir bólgnir eftir eitrið úr flugunni (mosquitoes). En loksins komumst við norður og tjölduðum svo sem eina mílu sunnan við, þar sem nú er bærinn Lundar í þeirri byggð. Einn landi var kominn þar á undan okkur. Var það Jón Sigfússon, og var hann að byrja að byggja bjálkahús og var búinn að leggja tvö lög af því, þegar við fórum fram hjá. Hann var rúma mílu sunnar en við vorum. Eftir nokkra daga komu mamma og pabbi út líka, og var nú tekið til að velja land.“  Þegar land hafði verið valið hófust menn handa við að koma sér fyrir, tvær voru kýr sem Einar keypti í Winnipeg og því þurfti að heyja strax á meðan hægt var. Helgi segir; ,,Varð að slá með orfi og ljá, en það tók ekki langan tíma, því að aldrei höfðum við séð annað eins gras og þar var þá. Leizt okkur vel á allt saman og bjuggumst við að geta látið okkur líða vel í þessu nýja landi.“ Næst lá á að reisa kofa, þéttur skógur var þar nærri og nú tók við skógarhögg. Fyrst dagur við það verk skilaði engu, þeir eyddu miklum tíma við að fella stórt og mikið tré, sem þeir réðu svo ekkert við. Næst hjuggu þeir smærri sem reyndust of lítil. Helgi segir um þetta; ,,Og um kvöldið héldum við heim, þreyttir og hálfveikir af hitanum, og höfðum ekkert gagn gert. Næsta morgun lögðum við af stað aftur og fórum nú að rétt og tókum mátulega stór tré sem við réðum við. Tókst vel að kanta þau, en seinir vorum við, því að við höfðum aldrei í skóg komið áður. En nú unnum við hart og komum upp heldur góðu bjálkahúsi um haustið. Var það 12 fet á kant og byggt með stöfum í hornunum og trjábútum smeygt þar í fals á grindinni. Höfðum við loft uppi til að sofa þar, en setustofu og eldhús niðri. Vorum við búnir með og fluttum í það, áður en kuldinn kom um haustið.“

Vinnusvæði Helga

 

     Kortið sýnið sýnir hluta Manitobavatns, ýmsa íslenska staði svo og Indjánabyggðir. Að ofan segir Helgi frá landnáminu í Álfta-vatnsbyggð þar sem foreldrar hans settust að og bjuggu. Hann kynntist þar Íslendingum sem áhuga höfðu á fiskveiðum og slóst í för með þeim norður meðfram Manitobavatni. Helgi segir svo frá fyrstu veiðiferð sinni: ,,Ég fór í fiskirí í fyrsta sinn um haustið. Fraus snemma og kom kuldinn allt í einu á fyrsta vetrardag eftir íslenzku tímatali. Kom þá norðanbylur og gaddfrost, og lagði Manitobavatnið 24. október. Þetta kemur ekki oft fyrir; vanalega leggur vatnið frá 10. til 20. nóvember. Við höfðum heyrt mikið látið af fiskveiðum í vatninu og vorum svo að búa okkur undir það, keyptum dálítið af netgatni í Winnipeg og bjuggum til tvö net, 20 faðma löng hvort. Fór ég með þennan útbúnað norður í Burds-eyju, sem var um 35 mílur norður af okkur. Lagði ég af stað með tveimur öðrum mönnum 8. nóvember, og höfðum við einn uxa til að draga það, sem við höfðum meðferðis, sem ekki var mikið. – Þangað voru komnir áður 10 menn, allir landar, til að fiska.“ Þessi hópur Íslendinga sýnir hversu snemma, fyrir 1890, þeir ætluðu að stunda fiskveiðar í Manitoba. Venjulega unnu 2-4 saman við að leggja net og vitja þeirra en í þessari ferð var Helgi einn. Hann segir; ,,Fór ég að leggja netin mín 12. nóvember og veiddi sama sem engan fisk, lagði þau í djúpt vatn, býst ég við, því ég hafði enga hugmynd um, hvar ég ætti að leita eftir fiski. En einhver sagði mér að leggja á dýpsta vatn, sem ég fyndi, og gerði ég það. Hinir, sem lögðu nær landi, fengu dálítið af fiski.“ Fram kemur í máli Helga að þeir hafi ferðast 35 mílur (um 56 km) í norður sem gæti verið út á Siglunes. Það varð svo vinnusvæði Helga.

Úr Álftavatnsbyggð til Narrows

Fyrstu tvö ár sín í Manitoba vann Helgi á sumrin við járnbrautalagningu, kolamokstur og skógarhögg og fiskveiðar á veturna á Manitobavatni. Þessar veiðar höfðu mikil áhrif á Helga, þótt ungur væri sá hann að vel mæti lifa á veiðum, flutningi aflans til Winnipeg og sölu þar á markaði. Veturinn 1889 hugleiddu bræðurnir Helgi og Kristján þann möguleika að flytja norður til Narrows, þeir töldu það henta þeim best því þar var strjálbýlt, minnti á Ísland. Þeir vissu að Bjarni Kristjánsson úr Ísafjarðarsýslu, sem komið hafði um líkt leyti og Helgi í Álftavatnsbyggð, var fluttur norður með sitt fólk. Hann hafði ráðið sig í vinnu hjá kanadískum kaupmanni, William Sifton að nafni í Narrows. Hann fékk $300.00 í laun á ári og frítt húsnæði sem þótti gott. Því ákváðu Helgi og faðir hans að fara norður til að skoða aðstæður. Helgi segir svo frá: ,,Nú fórum við pabbi norður í miðjum marzmánuði til að litast um og fórum gangandi. Veður var mjög gott, og um kvöldið vorum við staddir rétt sunnan við Indíána-reservið (sérsvæði Indjána) við Dog Creek. Var þar stór heystakkur, og sváfum við í honum um nóttina og var nógu heitt. Komum við til Narrows daginn eftir, og tók Bjarni Kristjánsson vel og líka Sifton og gaf okkur allar þær upplýsingar, sem hægt var. “ Feðgarnir völdu stað fyrir hús, sneru aftur í Álftavatnsbyggð, seldu hús sitt þar og fluttu norður með skepnur og búnað. Helgi segir svo frá: ,,Fyrsta apríl, 1889 komum við til Narrows og fórum í gamalt hús, sem einhver Indíáni hafði byggt fyrir nokkrum árum, og gerðum við það, svo að það var hæft til íbúðar. Vorum við þar um vorið. Engin hús höfðum við handa kúnum, sem voru tvær og einn kálfur.“

Samstarf við Indjána

Sérsvæði Indjána voru víða í Manitoba og átti Helgi góð samskipti við þessa frumbyggja við Manitobavatn.  Hann skrifar: ,,Í júlí, 1892 fór ég til Westbourne (lítill bær við sunnanvert vatnið) á bátnum. Bað þá Mr. Martinau (umboðsmaður ríkisins, sem annaðist greiðslur til indjána á sérsvæðunum) mig að taka sig og konu sína, sem hann var þá nýgiftur, með sér, og gerði ég það. Við fengum hvasst veður á vatninu, og var konan mjög hrædd. En við héldum áfram alla nóttina og vorum komin til Westbourne næsta dag. Martinau líkaði svo vel, hvernig ég höndlaði bátinn, að hann bauð mér að verða kapteinn á bátnum sínum eða réttara sagt stjórnarinnar, sem tók peningana til Indíánanna, sem hún borgar þeim í leigu fyrir landið og kallað er treaty-money. Orðið þýðir samningur, c: sem Kanadastjórn gerði við Indíána; þegar hún tók landið frá þeim, þá lofaði hún að borga Indíánunum 5.00 dali hverjum, ungum og gömlum, á hverju ári, eins lengi og sólin kæmi upp í austri og settist í vestri, og sjá þeim þar að auki fyrir ýmsum öðrum hlunnindum, bæði mat og skotfærum og öðrum veiðarfærum, kennurum og skólum, frítt; og er þetta gert á hverju ári síðan. Bátur sá fór um allt Manitobavatn og St. Martinvatn og Winnipegosis með tríti-peningana til Indíánanna. Tók ég þessu boði og þótti vænt um. Fyrir þetta fékk ég 1,50 dal á dag og allt frítt. Vorum við rúman mánuð í ferðinni. Við fórum með um 10,000,00 dali af stað frá Westbourne til að borga í 9 Indíánabyggðum (reserves). Kynntist ég þá fyrst Indíánunum og lærði að sigla, því að ég hafði aldrei siglt fyrr en ég smíðaði Leif til að sigla á.„(Hann smíðaði Leif í Manitoba fyrir sjálfan sig til flutninga á vatninu)…,,Á þessu sumri komum við fyrst til Sandy Bay, sem er um 25 mílur norður af Westbourne, staðnum, sem við lögðum af stað frá. Höfðu nær allir Indíánarnir þar sagt sig úr Indíánatölunni fyrir nokkrum árum og fengið skribb, sem kallað var. Það var leyfi til að fá 240 ekrur af landi, hvar sem þeir vildu í Manítóba. Seldu þeir svo þennan rétt til hvítra manna fyrir lítið verð og drukku sig fulla fyrir peningana. En nú voru þeir búnir að eyða öllum peningunum fyrir löngu og sáu nú eftir þeim kaupum, sem þeir höfði gert, og vildu komast inn í Indíánatöluna aftur.-“ Þeir öfunduðu hina félaga sína, sem voru kyrrir í Indíánatölunni og fengu 5,00 dali hver fyrir sig og alla fjölskylduna og þar á ofan ýmislegt annað: mat,  hveiti, te, svínaflesk, skotfæri og netagarn og annað. Þeir vildu því komast inn í Indíánatöluna aftur, strax og þeir voru búnir að borga þá peninga, sem þeir fengu fyrir landleyfin.“

Verslun og viðskipti

Helgi byrjaði að flytja fisk frá Narrows til Winnipeg snemma á síðasta áratug 19. aldar. Á sama tíma fór hann að kaupa fisk af veiði-mönnum og selja í Winnipeg.  Þessi viðskipti leiddu til kynna við helstu fisksala í Manitoba, menn eins og Hugh Armstrong í Portage la Prairie og W. J. Guest í Winnipeg. Helgi myndaði, með þessum mönnum, verslunarfélag sem dafnaði árum saman, einkum voru tengsl hans við Guest í Winnipeg sterk því þeir unnu saman í 40 ár. Þessir menn og reyndar allir sem Helgi áti viðskipti við báru honum ætíð vel söguna. Þegar Armstrong klauf sig út úr félaginu og gerðist umboðsmaður stórkaupmanna kepptu hann og Helgi um fiskinn í Manitobavatni, Armstrong naut þess að ráða miklu um fisksöluna við Manitobavatn, bauð iðulega lágt verð og það nýtti Helgi sér því hann bauð hærra og menn seldu honum. Stórfyrirtæki buðu iðulega lágt verð svo Helgi hætti öllum viðskiptum við þau, flutti fiskinn sem hann keypti sjálfur til Winnipeg og stóð svo á markaðstorgi í borginni og seldi sinn fisk. Margir kaupmenn kusu líka að eiga við Helga viðskipti, hann lánaði stundum mönnum þar til þeir höfðu selt fiskinn. Árið 1896 var erfitt sala á fiski var treg svo Helgi greip til þess ráðs að flytja sinn frosna fisk sjálfur yfir landamærin til Grand Forks, Fargo og fleiri bæja í N. Dakota og seldi alltaf allt sem hann flutti. Um aldamótin var fisksala algeng í verslunum og þá opnaði Helgi sjálfur verslanir á ýmsum stöðum við vatnið t.a.m. Fairford, Lake St. Martin, Sandy Bay og Little Saskatchewan. Viðskiptavinir hans voru nær eingöngu Indjánar svo og kaupmennirnir sem hann réði til starfa. Þeir gáfu því miður fyrir Helga mikinn greiðslufrest og voru latir við innheimtuna. Helgi sagði löngu seinna að hann hefði oft átt tækifæri til að auðgast verulega en svona var það.

Breyttir tímar og viðskiptahættir   

Helgi var ætíð óhræddur við að kanna nýjar leiðir, prófa aðra markaði og leita viðskipta. Hann lýsir einni slíkri ferð svo: ,,Veturinn 1910 eða 1912 í desember fór ég með carload, 25.000 pund, af frosnum hvítfiski til St. Paul í Bandaríkjunum, en gat ekki selt nema helminginn af því og kom hinu fyrir í frysti í Minneapolis. Í þessari ferð rakst ég á þýzka verzlun, sem hét Freedmann Brothers. Höfðu þeir stóra kjötsölubúð og þar að auki að auki aðra matvöru til sölu. Ég seldi þeim fisk, og eftir það seldi ég þessu félagi fisk á hverjum vetri í 30 ár. Hefð það ekki verið fyrir það félag, hefð ég ekki getað haldið áfram að verzla með fisk, því stóru félögin reyndu allt, sem þeir gátu, til að koma mér út úr fiskverzluninni. En þá gat ég alltaf selt minn fisk í St.Paul og Minneapolis, því ég hafð alltaf tvö eða þrjú félög á hvorum af þessum til að kaupa af mér fisk, sem stóru félögin réðu ekki yfir. Aðra stóra þýzka verzlun fann ég þar líka, sem ég seldi fisk til við og við, og tvær fiskverzlanir í Minneapolis.“  Árið 1912 átti Helgi mikinn fisk en illa gekk að selja og þá datt honum hið ómögulega í hug, að flytja ferskan fisk með hraðlest til New York. Almennt brostu menn yfir þessar firru, sumir gerðu grín en dæmið gekk upp. Hann gat meira að segja selt fiskinn þar á hagstæðara verði en keppinautar hans vildu fá fyrir frosinn fisk. Eftir þetta var ófrosinn fiskur frá Vestur-Kanada til sölu í öllum helstu verslunum í New York og öðrum, bandarískum stórborgum.

Ferðalok 

Nú gefum við Helga lokaorðið. ,,Þegar ég skrifa þetta, er fyrsta vikan í janúar, 1952, og vantar nú aðeins einn mánuð, þangað til ég hef verið hér í 60 ár. Ég hef haft verzlun hér nærri því á hverjum vetri og hef litla verzlun hér enn í vetur. Ég hef nóg upp úr því fyrir fæði og kostnað, en eftir 60 ár við verzlun er útkoman þessi: Ég lánaði að meðaltali 800 dollara á ári, sem ég hef ekki getað innkallað, og hef í bókum mínum 40 þúsund dollara skuldaupphæð, sem ómögulegt er að innkalla. En ég er mjög ánægður með lífið. Ég hef, eins og biblían segir, séð öll ríki veraldarinnar og þeirra dýrð, frá fátækustu Indíánum í kofum sínum úti í eyðiskógum til milljónara- heimilinna í stórborgum Bandaríkjanna. – Sjálfur hef ég lifað ýmist á fínustu hótelum í Bandaríkjunum og Kanada eða sofið á gólfinu hjá fátækum Indíánum eða legið úti við eld í skógunum með snjóinn við bakið, en eldinn að framan og sofið vel. Þegar eldurinn fölnaði, vaknaði ég, lét meiri við á og lagði mig svo aftur.“