Séra Albert kom með foreldrum sínum til Gimli í Manitoba árið 1888. Þar var hann fermdur af séra Magnúsi Skaptasyni, únitarapresti í Manitoba árið 1891. Hann stundaði miðskólanám í Collegiate Institute og fór til frekara náms í Pennsylvania við Meadville prestaskólann.Þaðan lauk hann námi árið 1910 en ári fyrr hafði hann stofnað Únitarasöfnuð við Grunnavatn (Shoal Lake) í Manitoba. Hann var vígður prestur til þess safnaðar árið 1910 þar sem hann þjónaði til ársins 1928. Hann þjónaði söfnuði Únitara á Gimli frá 1910-1912, og Únitara söfnuði og söfnuði Frelsiskirkjunnar í Otta og Mary Hill árið 1912-1928. Séra Albert sinnti íslenskum byggðum umhverfis Manitobavatn, auk Lundar messaði hann í Oak Point, Clarkleigh, Hove, Marklandi, Lillesve, Dog Creek, Siglunesi, The Narrows, Reykjavík, Gargan, Langruth og fleiri.
Tryggvi J. Oleson annaðist útgáfu Sögu Íslendinga í Vesturheimi V. bindi og þar segir um Séra Albert:,, Séra Albert er mannúðar- og hugsjónarmaður, mælskur með ágætum og vel ritfær. Hann var um margra ára skeið einhver áhrifamesti kennimaður Únitara hér vestra og tók einnig mikinn þátt í stjórnmálum. Hann var kosinn á fylkisþing Manitoba árið 1920 sem málsvari bændaflokksins (Progressive), en náði ekki endurkosningu, þegar næst var gengið til atkvæða árið 1922. Séra Albert var forseti Þjóðræknisfélagsins 1923-1925 og átti sæti í fyrstu stjórnarnefnd félagsins. Hann var ágætur félagsmaður, söngelskur og var á yngri árum talinn góður leikstjóri og leikari. Að málum kirkju sinnar vann hann vel og oft fyrir lítil laun.“ (bls.-403-404) Árið 1928 flutti Séra Albert vestur að Kyrrahafi og settist fjölskyldan að í Washington. Séra Albert þjónaði þar söfnuði í Seattle og seinna í Blaine þar sem hann bjó til dauðadags. Þar var hann settur Minister Emeritus of Blaine Unitarian Church árið 1943. Hann var varaforseti Hins Únitariska Kirkjufélags um tíma, formaður skólaneffndar í Blaine og sæmdur stórridarakrossi Fálkaorðunnar árið 1939.