Brown County er norðarlega í Nebraska, stutt frá merkjalínu Suður Dakota. Landið liggur nokkuð hátt borið saman við aðrar sýslur austar og sunnar. Long Pine, sem er helsta þorpið í þessu mikla nautgriparæktarríki er í 2402 feta hæð yfir sjávarmáli en höfuðborg ríkisins, Lincoln er aðeins í 1176 feta hæð. Landi allt í norðanverðu ríkinu hækkar og svo áfram þegar komið er í syðstu byggðir í S. Dakota. Enda er stutt í Black Hills fjöllin þar um slóðir. Landið umhverfis Long Pine er öldótt, grasi vaxið og tilvalið beitiland fyrir nautgripi, Þótt finna megi kornakra hér og hvar þá snýst allur landbúnaður um nautgripi. Ef til vill var þetta ein megin ástæðan fyrir áhuga Íslendinga á þessu svæði. Margir höfðu reynt fyrir sér austar í ríkinu, í Lancaster County þar sem nær eingöngu er stunduð akuryrkja. Hurfu flestir þaðan og settust að í Brown County. Sigfús Magnússan hafði skoðað lönd með Jón Halldórssyni í austurhluta Nebraska árið 1874. Báðir festu þeir sér skika en sögðu sig seinna frá sínum löndum, Sigfús fyrst og fremst vegna þess að hann sneri aftur til Íslands sama ár og var samferða Torfa Bjarnasyni. Sigfús sneri aftur með konu og börn árið 1886 og lýsir endurkomunni svo:
,,Til Long Pine í Nebraska komum við loks 6. ágúst, eftir næstum mánaðar mjög svo þreytandi ferð. Í Long Pine (mjög lítið þorp) hitti ég strax fornvin minn og leikbróður, Jón Halldórsson því eg hafði ákveðið, áður en eg fór af Íslandi, að setjast að nálægt honum og öðru fólki, er eg þekti þar. Um landgæði vissi eg lítið eða ekki neitt. Fyrsta veturinn dvaldi eg hjá Jóni Kristjánssyni, hálfbróður Jóns, sem áður er nefndur. Þegar um haustið tók eg út rétt á 160 ekrum af stjórnarlandi, og öðrum 160 ekrum, sem eg fekk með tveim skilmálum að planta á því 10 ekrur af trjám. Í sama mund tók eg líka mitt fyrsta borgara-bréf. (Afsalaði sér íslenskum ríkisborgararétti og gerðist bandaríslur þegn:innskot JÞ) Um vorið 1887 fluttist eg á landið, eftir að eg hafõi bygt á því hús úr hnausum; var það skjólgott og ekki mjög heitt á sumrum. Í þessum moldarkofa lifði eg svo í 5 ár, gjörði allar þær umbætur á löndunum, sem lögin kröfðu, en af því að jarðvegur var ekki góður, hæðóttur og sendinn og langt var fyrir börnin í skóla, sem líka var léleg kensla í, sá eg að þetta gat ekki orðið mitt framtíðar heimili, svo eg afréð að flytja til Minnesota, með því eg var líka þá búinn að fá fullan rétt á löndunum og gat farið hvert sem eg vildi“.
Hér er rétt að staldra við því margt í frásögn Sigfúsar er eftirtektarvert. Í fyrsta lagi er merkilegt hversu mikið land hann tekur. Hver landnemi í Norður Ameríku átti rétt á 160 ekrum en Sigfús skuldbindur sig fyrir 320 í viðbót! Hér er ekki um óðs manns æði að ræða heldur sýnir framsýni, hann bersýnilega hugleiddi nautgriparækt en slíkur búskapur krafðist mikils lands. Til samanburðar má geta þess að Íslendingarnir sem hrökkluðust úr Nýja Íslandi suður til N. Dakota létu sér nægja 40, 60 eða 80 ekrur. Og bræðurnir Lárus og Aðalbjartur Bjarnasynir tóku 80 ekrur hvor af góðu akuryrkjulandi austur í Lancaster og Gage sýslum. Nebraska, líkt og svo ótal fleiri ríki, bauð landnemum svokallaðan skógræktarrétt þ.e. landnemarnir skuldbundu sig til að planta ákveðnum fjölda trjáa á hluta landsins á ákveðnu tímabili. Þennan rétt nýttu menn sér víða, t.d. í N. Dakota og suður Minnesota. Byggingarefni var af skornum skammti sem sést á því að Sigfús reisir ,,moldarkofa“ hann byggir úr torfi. Hann greinir frá því að hann hafi búið í kofa þessum í fimm ár og allar umbætur sem krafist var m.a. plöntun trjánna. En eins og fram kom að ofan þá er jarðvegurinn hæðóttur og sendinn. Eflaust hefur Sigfús ætlað að rækta eitthvað en illa tekist og því hverfur hann á braut.