Eggert Gunnarsson, bróðir Tryggva Gunnarssonar, forstjóra Gránufélags, alþingismanns og bankastjóra, sást ekki fyrir í athafnagleði sinni og kafsigldi sig að lokum. Hann var þó vinsæll maður og hafður í hávegum. Má hafa þar til marks að eitt sinn atti Ólafur Davíðsson þjóðsagnasafnari kappi við kunningja sinn og deildu þeir um hvaðan bestu menn þjóðarinnar kæmu. Að vísu var það skoðun Ólafs að „fjórðungarígur væri eiginlega vitleysa“ og stæði fjarri honum að lítilsvirða menn úr öðrum fjórðungum. Þó gæti hann ekki litið fram hjá þeirri staðreynd „að sumir Norðlingar bæru af öðrum landsmönnum að dugnaði og framtakssemi.“ Og nefndi sem dæmi þá bræður Eggert og Tryggva Gunnarssyni sem ættu sér enga jafnoka í öðrum landshlutum.
Snemma vors 1884 var fokið í flest skjól fyrir Eggerti og sá hann sér enga aðra útgönguleið en að flýja land. Um þennan atburð skrifaði skólasveinn í Reykjavík, Jóhannes Daníelsson, í bréfi til föður síns, séra Daníels Halldórssonar sem þá sat Hólma í Reyðarfirði en hafði áður verið prestur á Hrafnagili í Eyjafirði og prófastur í Eyjafjarðarprófastsdæmi. Þeir feðgar voru því vel kunnugir Eggerti sem hafði látið mikið til sín taka fyrir norðan þar sem hann meðal annars stóð að stofnun Gránufélagsins, Framfarafélags Eyfirðinga og ekki síst Kvennaskólans á Laugalandi.
Jóhannes skólasveinn lét sér því umhugað um að senda föður sinum sem nákvæmastar fréttir af örlögum Eggerts. Bréfið er dagsett 25. mars 1884:
„ … ekkert markvert ber við nema ef vera skyldi flótti Eggerts Gunnarssonar, sem kom hingað sama kvöldið, sem póstskipið fór; úr öllum áttum komu menn til hans, til þess að krefja hann skulda, og Jóhannes Ólafsson, málaflutningsmaður, sat um hann, en Eggert komst undan Jóh(annesi) og snjeri rukkatorana einhvern veginn af sjer, fleygði sjer á vatnsstígvélunum og reiðfötunum upp í rúmið sitt, því hann kom þreyttur af langferð, sem hann byrjaði eða hóf skömmu fyrir jólin í vetur, og svaf þangað til píft var á póstskipinu í fyrsta sinn, þá komu menn er Eggert hafði keypt til þess að standa niður við sjó um nóttina, reiðubúnir til þess að róa með hann fram, þegar tími væri til kominn; þessir menn vöktu Eggert og settu hann fram í skipið og það vita menn síðast um hann.“
Eftir þetta spurðist til Eggerts í Kaupmannahöfn en þaðan gerðu menn ráð fyrir að hann hefði haldið áfram för til Pembínahéraðs í Norður-Dakóta. Að minnsta kosti kvaðst Tryggvi hafa keypt þangað farseðil fyrir bróður sinn, þar ættu þeir bræður vinum að fagna og þar myndu bíða fjármunir. Eggert myndi því ekki að byrja nýtt líf í framandi landi með tvær hendur tómar. Eggert lagði þó aldrei leið sína til Norður-Dakóta. Einhverjar fréttir höfðu menn þó af honum í Ameríku en afskaplega óljósar og svo mikið er víst að enginn veit hver urðu örlög athafnamannsins Eggerts Gunnarssonar.
Ólafur Davíðsson: Ég læt allt fjúka. Sendibréf og dagbókarbrot frá skólaárunum, Reykjavík 1955, bls. 284.
Lbs. 3516, 4to, Jóhannes Daníelsson til Daníels Halldórssonar 25. mars 1884.