Sigtryggur Jónasson (Fyrir vestan kapteinn Jónasson)

Jón Hjaltason

Sigtryggur Jónasson var Eyfirðingur og býsna skyldur skáldinu ljúfa, Jónasi

Sigtryggur Jónasson er til hægri. Aðrir á myndinni eru John Goodman og hjónin (sitjandi) Jóhann Briem og Guðrún Pálsdóttir sem bjuggu í þorpinu Riverton á bökkum Íslendingafljóts. Myndin birtist í Lögbergi í október 1935.

Hallgrímssyni en móðir Jónasar og amma Sigtryggs voru systur. Og báðir voru þeir fæddir í skjóli hins hrikalega Hraundranga í Öxnadal, Jónas tæpri hálfri öld fyrr en Sigtryggur sem leit fyrst dagsins ljós á bænum Bakka hinn 8. febrúar 1852, sonur hjónanna Jónasar Sigurðssonar og Helgu Egilsdóttur. Aðeins tólf ára gamall fluttist Sigtryggur úr foreldrahúsum að Möðruvöllum í Hörgárdal sem var bústaður amtmannsins fyrir norðan og austan, Péturs Havstein.

Á Möðruvöllum, sem þá nefndist Friðriksgáfa, var Sigtryggur til þess tíma að Havstein fékk lausn frá embætti árið 1870 en fluttist þá með amtmannshjónunum stutta bæjarleið að Ytri-Skjaldarvík.

Þau Havsteinshjón áttu mikinn barnaskara og sá Sigtryggur um að kenna þeim á bókina. Sjálfur naut hann barn að aldri leiðsagnar farandkennarans og ljúfmennisins, Tómasar Davíðssonar, sem var svo vel að sér í tungumálum að hann var iðulega nefndur tungumála-Tómas. Sigtryggur nýtti sér kennarann út í ystu æsar, varð fljúgandi fær í dönsku og vel að sér í ensku. Reyndar er sagt að þegar kom að enskunni hafi hann notið góðs af Þórunni, dóttur Hafsteins amtmanns, sem hafði dvalist á Englandi og var vel að sér í tungumáli þarlendra.

Þannig atvikaðist það að Sigtryggur kenndi frægasta stjórnmálamanni Íslands að skrifa og reikna og ef til vill að tala tungum, sjálfum Hannesi Hafstein, syni Péturs Havstein. En Hannes var ekki aðeins pólitíkus og fyrsti íslenski ráðherrann heldur líka skáld gott og orti um frænda Sigtryggs og fæðingarstað hið fræga ljóð sem byrjar svo: „Þar sem háir hólar / hálfan dalinn fylla.“

Sumarið 1872 ákvað Sigtryggur að hleypa heimdraganum. Í grundvallarriti Júníusar H. Kristinssonar, Vesturfaraskrá 1870-1914, er þess getið að umrætt ár hafi tvítugur vinnumaður frá Ytri-Skjaldarvík í Glæsibæjarhreppi innan Eyjafjarðarsýslu lagt á hafið. Ekkert er þar að finna um útflutningshöfn, farkost né ákvörðunarstað vinnumannsins unga sem var að sjálfsögðu söguhetjan okkar, Sigtryggur Jónasson. Hitt vitum við að Sigtryggur skapaði sér mikla sögu í Vesturheimi sem rakin er á öðrum stað.