Einar vildi ekki Grænland

Jón Hjaltason

Einar gerði sér engar grillur um samfélagið í Brasilíu. Hann vissi sem var að þar lifði hvíti maðurinn á vinnuafli þræla. – Þeir hvítu eru ekki fleiri en ein milljón en um „fimm milljónir eru þar af blökkumönnum, jörpum mönnum og blendingum, og eru þeir flestir ánauðugir þrælar hinna hvítu manna, sem allir eru álitnir eins og höfðingjar eða aðalsmenn, þó að þeir hafi einungis litinn til síns ágætis“, skrifaði Einar og var augljóslega ekki sannfærður um yfirburði hins hvíta kynstofns né ágæti þrælahalds. Myndin sýnir svarta þræla og herra þeirra á brasilískum kaffiakri um það leyti er fyrstu Íslendingarnir fluttust suður þangað.

Grænland varð aldrei fyrirheitna landið, að minnsta kosti ekki í neinni alvöru. Til þess sá bóndinn í Nesi, Einar Ásmundsson. Haldinn var fundur á Hólum í Reykjadal til að fjalla um væntanlega búferlaflutninga. Þar kvaddi Einar sér hljóðs og sannfærði viðstadda um fáránleika þess að fara úr köldu landi í kaldara. Þetta var síðari hluta árs 1960 – eða jafnvel síðar.

En hvert átti að snúa stefnum? Eflaust hafa einhver lönd verið nefnd á Hólafundinum en víst er að eftir þann fund var aldrei talað um Grænland sem framtíðarlandið. Stefnan var þó eftir sem áður vestur. Sjálfur virtist Einar ekki í miklum vafa um hvert væri fyrirheitna landið. Þrjú komu að vísu til greina, Brasilía, Bandaríkin og Kanada. Brasilía þó helst, „því að hún er án efa eitt hið bezta land í heimi“, fullyrti Einar í bréfi sem hann skrifaði 1860 eða ´61 og var líklega hugsað sem kynning á þeim kostum sem til boða stóðu að mati bréfritara. Nefnilega Kanada en þangað er „skemmstur vegur héðan, og það land er kaldast af þeim þremur“ sem við ættum að hugsa til, sagði Einar.

Hann sagði hins vegar ekkert um veðurfar í Bandaríkjunum, aðeins að þau væru „hið langvoldugasta ríki í Vesturheimi“, þar væri mikið framfaraskrið á öllu, þangað væri stríðastur straumur innflytjenda frá Norðurálfu, enska væri aðalmálið, og að þar væru miklar borgir en líka víðlendar óbyggðir.

Þriðja landið sem hér um ræðir er svo stórt, lýsti Einar, að aðeins Rússland og Kína eru stærri. Þetta er keisaradæmið Brasilía þar sem aldrei kemur vetur.

„Hvergi í heimi eru slíkir stórskógar sem þar, og vaxa þar alls konar ágætustu viðartegundir. En í ræktaðri jörð sprettur þar mesta gnægð af kaffi, sykurreyr, bómull, tóbaki, hrísgrjónum, maís o. s. frv. Í sumum landsálfum eru skóglausar graslendur, og eru þar miklar hjarðir af villtum nautgripum og hestum, en í öllu landinu er mesti sægur af veiðidýrum og fuglum. Margs konar málmar eru þar í jörðu, á sumum stöðum einkum gull og silfur, og svo gimsteinar.“

Við þetta hnýtti Einar þeirri athugasemd að það væru um það bil fimmfalt lengra að fara til Brasilíu en Kaupmannahafnar.

Arnór Sigurjónsson: Einars saga Ásmundssonar. Bóndinn í Nesi, fyrra bindi, Reykjavík 1957, bls. 325-328.