Gimli á röngum stað? Þegar fyrsti hópurinn fór niður eftir Rauðá haustið 1875 á leið til Nýja Íslands ræddu landnemar ýmis mál er varðaði nýtt íslenskt landnám. Jón Jónsson frá Munkaþverá í Eyjafirði var í hópnum og skrifaði:,,Eitt af því sem talað var um meðal þeirra, sem ræða vildu alvarleg mál, var nafn á tilvonandi nýlendu og bæ, og mun þá hafa verið slegið föstu Nýja-Íslands nafninu, þótt áður væri til komið. Stungið var upp á nöfnum fyrir bæ, Ólafur Ólafsson frá Espihóli kom með Gimli nafnið, og fékk það einróma meðmæli, svo upp frá því var talið víst að bærinn yrði látinn svo heita. En hann skyldi standa við Íslendingafljót.“ (Framhald á Landnámssögu Nýja Íslands bls. 35-36). Í júlí sama ár fór sérstök landkönnunarnefnd niður eftir Rauðá, út á Winnipegvatn og sigldi norður meðfram ströndinni uns komið var að árósum. Þar var róið upp eftir ánni og land skoðað og leist nefndarmönnum vel á. Hér skyldi íslenskt landnám hefjast um haustið. Fyrsti hópur landnema lagði af stað sömu leið frá Winnipeg. Þessu lýsti Jón frá Munkaþverá svo:,,Ofan eftir Rauðá, á leiðinni frá Winnipeg til Nýja Íslands, þegar flutningsdallarnir okkar voru að festa sig á steinum og renna upp á grynningar, og kom brátt í ljós hverjir bezt gengu fram í að koma öllu í lag í þeim hrakfallaleik; mætti þar nefna hina ungu menn, sem áður höfðu farið þessa leið (lanskoðunarferðina með Taylor)….Gufubáturinn “Colville“ dró flutningsdallana úr Rauðárósum út á vatnið og norður undir Víðirnestangann og skildi þar við alt saman, meira en mílu frá landi. Skipstjórinn þóttist ekki vita hvort dýpið væri nægilegt fyrir skipið, að halda lengra nær landi. Svo róðrabátur, sem við höfðum, áttæringur, kallaður Yorkbátur, var mannaður, og var honum beitt fyrir flekatrássuna sem var víst um 300 feta löng og furðulega þung undir árum. En það vildi til heppni, að veðrið var stilt, því annars hefði róðrarbátur ekki ráðið við neitt. Það var stefnt sunnan við tangann, inn á tjörnina, og lent þar sem tanginn er mjór. “ (Sama heimild bls. 36) Skipstjóri Colville bauðst til að draga ,,trássuna“ norður að árósunum en vetur gekk óvænt í garð fyrsta daginn, dökk, þung ský birtust yfir vatninu norðanverðu, það kólnaði. Hann gaf landnemum tvo kosti: annars vegar að draga ,,trássuna“ til baka að Rauðárósum eða eins nálægt landi þar sem flotinn var kominn. Landnemarnir kusu seinni kostinn og komust í land með föggur sínar. Um nóttina lagði vatnið og snjóaði. Daginn eftir selfluttu menn farangur og vistir á þann stað sem nú er Gimli.
Bærinn rís:
Við árslok 1875 höfðu landnemar byggt nokkur hús sem voru fyrsti vísir að þorpi. Smám saman fjölgaði húsum út áratuginn en um 1878 hófust brottflutningar úr Nýja Íslandi. Menn leituðu frjósamari héraða, fluttu suður til N. Dakota eða í suður og vestur Manitoba. Þeir sem ekki vildur gefast upp á baslinu í Nýja Íslandi fluttu brott frá Gimli norður að Íslendingafljóti þar sem annað þorp, Lundur, hafði myndast. Gimlibær stóð því næstum eins og draugabær upp úr 1880 en það var ekki lengi. Nýir hópar frá Íslandi komu til Winnipeg í Manitoba og fóru margir nýkomnir til Nýja Íslands og settust að á Gimli eða Víðirnesbyggðinni umhverfis þorpið. Landamæri Manitoba voru færð norðar árið 1881 og með því varð Nýja Ísland hluti fylkisins landfræðilega. Nýlendan hélt þó áfram sérstöðu sinni, lög nýlendunnar frá 1877 voru áfram í gildi. Nýliðar frá Íslandi högnuðust á reynslu þeirra sem þraukað höfðu í byggðinni, en höfðu líka margt gagnlegt fram að bjóða. Þegar leið á áratuginn og nánast allt land numið umhverfis Gimli var brýnt að þjónusta við landnema væri góð. Allar samgöngur voru erfiðar bæði innan nýlendunnar og til hennar. Vörur voru fluttar frá Selkirk á bátum til Gimli og norður að Íslendingafljóti. Vegur um nýlenduna var gerður 1876-1877 og var hann ekki breiðari en það að ferðamenn með ökudýr sín gátu mæst. Vegurinn var breikkaður árið 1893. Árið 1887 ákváðu nýlendubúar að verða að fullu hluti af Manitoba og giltu framvegis lög og reglur fylkisins en gömlu lögin voru afnumin
Skólar: Leiðtogar nýlendubúa áttuðu sig strax á því að þeirra var að móta nýtt, íslenskt samfélag. John Taylor, einn leiðtogi nýlendubúa, skrifaði yfirvöldum fylkisins bréf 30. október, 1875 og sagði Íslendinga vilja reka skóla sem tengdist menntakerfi Manitoba. Kvað hann þá reiðubúna til að reisa skólahús en með þeim vestur kom kennari. Formlegt bónarbréf til kanadískar yfirvalda var svo sent frá Gimli 10. janúar, 1876. Svar barst frá ráðherra Norðvesturlandsins (Northwest Territory) en nýlendan tilheyrði þeim hluta landsins á þessum árum. Bréfið var dagsett 8. mars, 1876 og stílað á yfirvöld í Manitoba. Efni bréfsins var einföld áminning: Kanadastjórn kemur ekki að fræðslu nokkurra barna í Norðvesturlandinu nema indjána. Sennilega hafa íbúar á Gimli vitað stöðu sína í skólamálum því þeir biðu ekki svars úr ráðuneytum heldur hófu kennslu á Gimli strax um haustið 1875 og voru nemendur milli 20-30 þegar skráð var staðan nærri jólum. Meðal nemenda voru fáeinir fullorðnir því kennarinn, Caroline Taylor, dóttir John Taylor, sá um kennslu en hún lagði áherslu á enskunám. Svo vel þótti til takast að um áramótin var ákveðið að kenna fram á vor. Bólusóttin sem herjaði á nýlendubúa haustið 1876 kom í veg fyrir að kennsla hæfist á Gimli á nýjan leik en um leið og læknar gáfu grænt ljós var skólinn opnaður. Kennslan fór fram í vöruhúsinu svonefnda en það var byggt utan um birgðir frumbyggja haustið 1875. Jane Taylor, önnur dóttir John Taylor, tók nú við kennslunni en 63 nemendur á ólíkum aldri voru skráðir. Áhersla var lögð á enskunámið, bæði talað og ritað. Þá kenndi Jane nemendum söngva á ensku. Nýja Ísland var stofnað á þessum stað, fyrir Íslendinga, utan við kanadískt samfélag og þar skyldi íslensk arfleifð varðveitt og íslenska vera bæði tal- og ritmál. Leiðtogar nýlendunnar hvöttu til heimakennslu í íslensku og þessu ráði fylgdu allir foreldrar. Það er hins vegar ljóst að með svo ríkri áherslu á enskunám var öllum ljós nauðsyn þess að ná einhverjum tökum á ensku því auðvitað hlutu að koma til samskipti við enskumælandu Kanadamenn. Veturinn 1877-78 var skólinn stækkaður og við kennslunni tók nú Lára Guðjónsen, eiginkona séra Jóns Bjarnasonar. Kennt var fimm daga vikunnar með áherslu á lestur, reikning, landafræði söng og kristinfræði. Ennfremur var áfram kennd enska. Kennslan var ókeypis, sennilega hefur Lára verið í launalausu starfi. Hennar naut þó ekki lengi við því hún og hennar maður sneru aftur til Íslands árið 1880. Árið 1887, 15. mars, var fyrsti fundur lögskipaðrar sveitarstjórnar Nýja Íslands haldinn í Árnesbyggð og var samrunamálið þ.e. að Nýja Ísland yrði í einu og öllu hluti Manitobafylkis aðalmál fundarins. Annað mál var svo skólakerfi nýlendunnar og spurningin um hvort það sömuleiðis yrði í einu og öllu sameinað skólakerfi fylkisins. Íbúar í Gimli voru ekki sammála um skólamálið, ekkert frekar en aðrir íbúar Nýja Íslands. Tókust á tvö sjónarmið: Annars vegar einkaskólar í nýlendunni stjórnað af Íslendingum með íslenskar áherslur. Ensku mátti kenna aukalega. Hins vegar yrðu skólar nýlendunnar hluti menntakerfis Manitoba í einu og öllu, öll kennsla færi fram á ensku. Eflaust skipti mestu máli fyrir þorra íbúa að skólar og kennsla yrði íbúum að öllu kostnaðarlaus ef saminging við menntakerfi Manitoba yrði samþykkt. Íslenskir einkaskólar yrðu hins vegar alfarið fjármagnaðir af heimamönnum. Sameiningin varð ofaná og eftir 1889 var lítið sem ekkert minnst á einkaskóla. Sama ár risu fimm nýir skólar í nýlendunni og aðrir tveir ári síðar.
Pósthús: Íslenskir landnemar í Vesturheimi, hvar sem þeir bjuggu, lögðu ætíð mikla áherslu á póstþjónustu, eitt það fyrsta sem þeir hugleiddu í nýrri sveit einhvers staðar á sléttu Kanada, eða í Bandaríkjunum var að fá leyfi til að opna pósthús. Venjulega bauðst einhver úr þeirra röðum til að annast þá þjónustu og var pósthús opnað í húsi viðkomanda. Pósthúsunum var iðulega gefið nafn, mjög oft íslenskt en líka báru þau nafn þorpa eða bæja. Pósthúsið var heimilisfang sérhvers landnema í viðkomandi byggð. Menn skrifuðu nafn pósthúss efst í bréfi og þangað kom pósturinn. Ein skýring á nafnabreytingum var pósturinn því iðulega voru alnafnar nokkrir í hverri sveit. Það gat þá tekið langan tíma að koma bréfi í réttar hendur því löng var oft leið landnema í pósthúsið og vegir engir eða oft ófærir annaðhvort vegna votviðris eða snjóa. Gimli pósthús þjónaði í byrjun öllu Nýja Íslandi og það gefur auga leið að þangað var löng leið úr nyrstu sveitum nýlendunnar. Páll Jóhannsson sá um póstflutninga frá Lundi við Íslendingafljót þar sem Framfari var prentaður, til Gimli. Dag nokkurn tók það hann tæplega fimm stundir að flytja blaðið úr prentun, tæplega fimmtíu kílómetra leið til Gimli. Þótti það mikið afrek en hann nýtti sér ísinn á vatninu og skautaði hluta leiðarinnar. Sá sem þetta skrifar (JÞ) vann á sínum námsárum með prófessor nokkrum við Manitobaháskóla að verkefni er rannsakaði póstþjónustu í Manitoba frá stofnun fylkisins til aldamóta. Honum þótti eftirtektarvert að sjá hversu hátt hlutfall í mótteknum og sendum pósti Íslendingar höfðu. Menn sendu bréf til vina og vandamanna um alla álfuna og auðvitað heim til Íslands. Bréfin sem bárust til Gimli voru frá ættingjum og vinum í Manitoba, Ontario, Nýja Skotlandi, N. Dakota, Minnesota, jafnvel Brasilíu og mestur póstur kom iðulega að heiman.
Bættar samgöngur: Íbúar í Winnipeg fögnuðu mikið þegar járnbrautarfélag ákvað árið 1902 að leggja járnbraut upp með Winnipegvatni að fallegri strönd sem þeir nefndu Winnipeg Beach. Þarna skyldi rísa sumardvalarstaður og skemmtigarður fyrir borgarbúa. Sumarhúsabyggð reis, alls kyns skemmtigarðar og baðstrandir voru gerð. Við aðalgötuna risu hótel og árlega fjölgaði gestum. Árið 1913 voru 13 lestar í gangi sumarlangt milli borgarinnar og Winnipeg Beach. Ekki var hjá því komist að Íslendingarnir á Gimli sáu ýmis tækifæri með tilkomu járnbrautar til Winnipeg Beach því aðeins eru um 15 km milli baðstrandarinnar og Gimli. Árið 1900 var bryggja byggð á Gimli og þýddi það að stærri skip gátu nú siglt til Gimli þannig að öll þjónustu í bænum batnaði stórum. Menn létu hér ekki staðar numið heldur hófu heimamenn samræður við járnbrautarfélagið sem lagt hafði járnbrautina til Winnipeg Beach. Járnbrautarfélagið tók vel í hugmyndina og árið 1906 var Gimlibær tengdur voldugu járnbrautakerfi.