Riverton

Vesturfarar

Sigtryggur Jónasson

Riverton er frekar lítill bær við ósa Íslendingafljóts 130 km norður af Winnipeg. Sumarið 1876 settust þrír Íslendingar að við fljótið, þeir Ólafur Ólafsson frá Espihóli, Jóhannes Sigurðsson og Flóvent Jónsson. Íslendingafljótið hét upphaflega Whitemud River en fljótlega eftir komu Íslendinga var nafninu breytt í Icelandic River og auðvitað var bara Íslendingafljót notað í svo rammíslenskri byggð sem Nýja Ísland var. Kortið við hliðina sýnir hvar fljótið kemur úr vestri, fer um Geysirbyggð og áfram um Fljótsbyggð út í Winnipegvatn um Lundar. Kortið sýnir tangann Sandy Bar sem Guttormur J Guttormsson orti um samnefnt snilldarljóð. Sigtryggur Jónasson, ,,faðir Nýja Íslands“ og settist að í nýtt hús við Íslendingafljót sem hann kallaði Möðruvelli. Hann gerði heimilið sitt að nokkurs konar höfuðstað Nýja Ísland, kennsla barna og unglinga fór þar fram, sungnar messur, pósthús opnað og aðsetur stjórnsýslu byggðarinnar. Ennfremur voru þar höfuðstöðvar fyrirtækisins Jónasson-Friðriksson Co, félag hans og Friðjóns Friðrikssonar sem átti og rak sögunarmylluna við fljótið og annaðist flutninga til og frá þorpinu eftir vatninu. Fyrsta íslenska fréttablaðið í N. Ameríku, Framfari hóf göngu 10. september, 1877 og var prentað í Lundi við Íslendingafljót. Nafnið Lundi festist við staðinn og telst fyrsta nafnið á þorpinu. Seinna var Íslendingafljót (Icelandic River) notað en Riverton varð til árið 1914.

Við Íslendingafljót myndaðist lítið þorp sem seinna varð Riverton.