Sumarið 1875 kom sendinefnd frá Ontario til Manitoba til að kanna svæði á vesturbakka Winnipegvatns fyrir íslenskt landnám. Siglt var niður Rauðá, út á vatnið og norður meðfram vatnsbakkanum að Mikley og upp eftir Íslendingafljóti. Nefndarmönnum þótti landið gott báðum megin árinnar og taka það fram í skýrslu sinni;,,Slæu löndin eru bezt fram með Íslendinga fljóti“. Kortið sýnir hvar fljótið rennur um Riverton og út í vatnið. Á síðustu áratugum 19. aldar mynduðust byggðakjarnar, næst vatninu er Fljótsbyggð, þá Geysisbyggð og svo Árdals- og Framnesbyggð. Norður af Fljótsbyggð var Ísafoldarbyggð. Vestast í Geysisbyggð voru bæirnir Hof, Hvanneyri og Melstaður en þegar Árdals- og Framnesbyggð myndaðist voru bæir þessir taldir til þeirrar byggðar. Pétur Stefán Guðmundsson kom frá N. Dakota, nam land í nýju byggðinni og nefndi bæ sinn Árdal og þar var fyrsta pósthús byggðarinnar, Ardal Post Office opnað árið 1902.
Þorpið myndast
Landnámsmenn flykktust til hinnar nýju byggðar víðs vegar að. Margir komu úr íslensku byggðunum í N. Dakota, aðrir frá Winnipeg, Hnausa og Ísafoldarbyggð. Í bréfi sem birtist í Heimskringlu snemma árs 1904 segir Jón J. Hornfjörð sem kom í byggðina úr Ísafoldarbyggð að fjöldi landnámsmanna sé á bilinu 60 – 70. Þegar kofar höfðu verið reistir og smá blettir kringum þá hreinsaðir fóru íbúar að huga að samgöngum. Brýnt var fyrir íbúa byggðarinnar að komast á markað eftir nauðsynjum. Þeir sem vestast bjuggu þurftu að fara 32 km í verslunina í Hnausabyggð og 40 km í búðina í Riverton. Reynt var að leggja slóða til Hnausa en sá var erfiður yfirferðar á sumrin, einkum ef rigningar voru tíðar. Tryggvi Ingjaldsson kom frá N. Dakota og settist að í byggðinni vorið 1901. Hann leysti málið með því að opna verslun heima hjá sér. Flutti hann vörur úr verslun Stefáns Sigurðssonar í Hnausa. Þótt fáeinir landnámsmenn væru nánast nýkomnir frá Íslandi þá var þorri íbúa frá öðrum, íslenskum byggðum og þeir riðu á vaðið til að koma skipulagi á í byggðinni. Söfnuður var myndaður árið 1902, samkomuhús byggt ári síðar og stóð það vestur af þorpinu. Var það í senn kirkja, barna- og unglingaskóli og tónleikahöll. Fyrsta skólahéraðið var myndað í Árdalsbyggð, skömmu síðar annað í Framnesi. Framan af voru íslenskir landnámsmenn einir í byggðinni en upp úr 1905 settust að pólskir og úkranískir landnámsmenn og fjölgaði þeim smátt og smátt. Allir voru bændur sem framleiddu á markað. Öllum var ljós nauðsyn þess að efla samgöngur frá byggðinni svo koma mætti afurðum á markað í Winnipeg. Stjórnvöld fylkisins fylgdust eðlilega með vexti byggðarinnar sem sannaði að landnám milli vatnanna stóru í Manitoba. Árið 1906 var járnbraut komin til Gimli, járnbrautafélagið CPR hóf næst undirbúning lagningu brautar frá Winnipeg í Árdalsbyggð. Eins og annars staðar á sléttunni í Vestur Kanada þurfti lestarstöð og var henni valinn staður í þorpinu. Þegar svo lagningu brautarinnar var lokið þá var þorpinu gefið nýtt nafn, Arborg.