Eriksdale er lítill bær norður af Lundar og austur af Manitobavatni. Sænskir landnemar munu fyrstir hafa sest þar að árið 1905. Þeir ferðuðust með lest frá Winnipeg til Oak Point og gengu eða notuðu hestvagna til að komast á leiðarenda. Nafnið er kennt við sænskan mann, Jonas Erikson sem fyrstur nam þar land. Land var þar í boði á góðu verði en þeir sem keyptu og hófu landnám komust fljótt að því að landið var grýtt og votlent. Þeir sem þraukuðu komust smám saman að því að landið bauð upp á ýmislegt, þar voru ýmsar, viltar dýrategundir, fiskur nógur í ám og vötnum, ýmsar berjategundir uxu vel, ferskvatn nóg og byggingarefni gott þar sem tré uxu vel. Lega þorpsins sem myndaðist var í alfaraleið, fyrir norðan voru landnemar að setjast að við austanvert Manitobavatn, sunnan við höfðu íslenskir landnemar sest að við Álftavatn og austanvert óx byggðin vestur á bóginn frá Árdals- og Framnesbyggð. Vegir voru lagðir og samgöngur bötnuðu.