Lundar

Vesturfarar

Lundar er bær austan við Manitobavatn, 120 km frá Winnipeg. Nafnið Lundar er þannig tilkomið að Hinrik Jónsson tók að sér póstafgreiðslu í nýrri byggð við austanvert Manitobavatn. Hann kvæntist Oddnýju Ásgeirsdóttur sem ættuð var frá Lundum í Stafholtstungum í Mýrasýslu. Hann sendi umsókn á skrifstofu póstþjónustu í Ottawa og bað um að pósthúsið hans yrði kallað Lundum. Á skrifstofu þessari gáfu menn nýjum pósthúsum nöfn í hinum mörgu byggðum Manitoba og staðsettu þau. Hinrik fékk leyfi fyrir opnum pósthúss og skyldi það heita Lundar. Nafnið hafði misritast.

Íslenskt landnám

Lundar árið 1912. Mynd WtW

Landnám við austanvert Manitobavatn þar sem í dag standa bæirnir Lundar og Eriksdale hófst árið 1887. Jón Sigfússon nam land þar sem þorpið Clarkleigh stendur, hóf búskap og opnaði verslun á heimili sínu. Nokkrum árum seinna seldi hann og keypti land nærri Lundar. Þar reisti hann veglegt íbúðarhús og hóf verslunarrekstur. Seinna flutti hann svo í þorpið, opnaði þar verslun og rak til ársins 1930. Frá Íslandi komu margir umrætt ár, fylgdu ráðum umboðsmanna fylkisstjórnar sem bentu á svæðið milli Lundar og Eriksdale. Á árunum sem fylgdu fluttu fjölmargir í Lundarbyggð, sumir beint frá Íslandi aðrir frá ýmsum stöðum í Manitoba. Umboðsmenn í Winnipeg bentu landnámsmönnum á framtíðaráætlun járnbrautafyrirtækis með lagningu brautar frá Winnipeg norður með austurströnd Manitobavatns alla leið norður í Hudsonflóa. Framkvæmdir hófust frá Winnipeg en þeim var svo frestað árið 1888 og það var ekki fyrr en 1904 að brautin náði til Oak Point. Árið 1910 var járnbrautarstöðin byggð í Lundar og strax hófst mikil uppbygging í þorpinu, sumir fluttu hús sín úr nærliggjandi sveitum á lóð í þorpinu. Á örfáum árum varð Lundar miðstöð verslunar, þjónustu og menntunar.