Lundar er bær austan við Manitobavatn, 120 km frá Winnipeg. Nafnið Lundar er þannig tilkomið að Hinrik Jónsson tók að sér póstafgreiðslu í nýrri byggð við austanvert Manitobavatn. Hann kvæntist Oddnýju Ásgeirsdóttur sem ættuð var frá Lundum í Stafholtstungum í Mýrasýslu. Hann sendi umsókn á skrifstofu póstþjónustu í Ottawa og bað um að pósthúsið hans yrði kallað Lundum. Á skrifstofu þessari gáfu menn nýjum pósthúsum nöfn í hinum mörgu byggðum Manitoba og staðsettu þau. Hinrik fékk leyfi fyrir opnum pósthúss og skyldi það heita Lundar. Nafnið hafði misritast.
Íslenskt landnám
Landnám við austanvert Manitobavatn þar sem í dag standa bæirnir Lundar og Eriksdale hófst árið 1887. Jón Sigfússon nam land þar sem þorpið Clarkleigh stendur, hóf búskap og opnaði verslun á heimili sínu. Nokkrum árum seinna seldi hann og keypti land nærri Lundar. Þar reisti hann veglegt íbúðarhús og hóf verslunarrekstur. Seinna flutti hann svo í þorpið, opnaði þar verslun og rak til ársins 1930. Frá Íslandi komu margir umrætt ár, fylgdu ráðum umboðsmanna fylkisstjórnar sem bentu á svæðið milli Lundar og Eriksdale. Á árunum sem fylgdu fluttu fjölmargir í Lundarbyggð, sumir beint frá Íslandi aðrir frá ýmsum stöðum í Manitoba. Umboðsmenn í Winnipeg bentu landnámsmönnum á framtíðaráætlun járnbrautafyrirtækis með lagningu brautar frá Winnipeg norður með austurströnd Manitobavatns alla leið norður í Hudsonflóa. Framkvæmdir hófust frá Winnipeg en þeim var svo frestað árið 1888 og það var ekki fyrr en 1904 að brautin náði til Oak Point. Árið 1910 var járnbrautarstöðin byggð í Lundar og strax hófst mikil uppbygging í þorpinu, sumir fluttu hús sín úr nærliggjandi sveitum á lóð í þorpinu. Á örfáum árum varð Lundar miðstöð verslunar, þjónustu og menntunar.