Árið 1907 ferðuðust tveir kunningjar frá Ontario vestur til Manitoba til að kynna sér miklar framkvæmdir um sunnanvert fylkið. Þetta voru þeir Georg W. Langdon og W. Judson Ruth. Þúsundir innflytjenda flykktust vestur á sléttuna þar sem mikið land var í boði, járnbrautakerfi skipulagt og vegir lagðir. Þeir komu til Winnipeg þar sem þeir skoðuðu kort af vestur Manitoba þar sem mikið land vestan við Manitobavatn var til sölu. Þeir fóru vestur til Westbourne og þaðan norður með Manitobavatni þar til þeir komu á mikið nes sem kallast Big Point. Þar tók íslenskur landnemi á móti þeim, sá hét Ólafur Þorleifsson úr Borgarfirði. Hann sýndi þeim íslenska landnámið á nesinu og benti þeim á mikil, ónumin svæði til vesturs og norðurs. Ólafur gat þess að landnemarnir væru búnir að skrifa járnbrautarfyrirtæki og óskað eftir járnbraut frá Westbourne norður á Big Point. Í grein eftir Georg W. Langdon, Sketch of Early Langruth, tekur hann fram að þeir félagar hafi strax hrifist af þeim mikla framfarahug sem þeir fundu hvar sem þeir komu í þessar fyrstu skoðunarferð sinni. Þeim var ljóst að þarna hefðu þeir fundið það sem þeir leituðu að, nefnilega nýtt bæjarstæði í héraði með ótrúlega mikla framtíðarmöguleika. Íslendingarnir þekktu vel allar þarfir bænda á sléttunni, margir höfðu búið á sléttum Kanada eða Bandaríkjanna í einhvern tíma, þar á meðal Ólafur sem vestur flutti árið 1887. Félagarnir luku skoðunarferðinni, hröðuðu sér til baka til Winnipeg og gengu frá landakaupunum. Þeir völdu stað fyrir nýtt þorp og í umsókninni stungu þeir upp á nafni á þorpinu og tiltóku nokkur nöfn, meðal annars Langruth sem yfirvöldum þóknaðist best. Glöggir lesendur sjá strax ef hverju það er dregið.
Langruth
Svæðið sem félagarnir kusu var vel hugsað því það sást á kortum að þar yrðu gatnamót, annars vegar þjóðvegurinn norður og hins vegar nýr þjóðvegur frá Big Point til vesturs. Þá lá fyrir áætlun um járnbraut norður, vestan við vatnið. Þeir Langdon og Ruth réðu vana trésmiði í Ontario til að reisa hús og unnu þeir ötullega að húsbyggingum í þorpinu og íslenska landnáminu á Big Point næsta áratuginn. Halldór Daníelsson, hreppstjóri úr Andakílshreppi flutti vestur árið 1900 og settist að á Big Point. Seinna bjó hann í Langruth og þar skrifaði hann þætti um landnám Íslendinga á Big Point og þorpið Langruth. Grípum niður í Almanakinu 1924, bls. 54:,,Árið 1908 var lögð járnbraut til Langruth. Það mun hafa verið rétt fyrir jólin 1908 að fyrsti fólkflutningsvagn kom til Langruth, og hófust síðan flutningar með braut þessari, sem nefndist Oak Land braut. …Um vorið 1910 bygðu þeir Björn Sigfússon Bjarnason og Soffonías Jósefsson Helgason í samlögum fyrsta verzlunarhúsið í Langruth, og um leið fyrsta húsið sem þar var bygt. Byrjuðu þeir svo jafnhraðan að verzla í húsi þessu. Í þessu húsi rekur nú Björn Sigf. Bjarnason allstóra og umfangsmikla verzlun. Sumarið 1911 bygðu þeir bræður Erlendur og Finnbogi, synir Erlendar G. Erlendssonar bónda hér í bygðinni verzlunarhús í Langruth og byrjuðu að verzla þar. Erlendur faðir þeirra er ættaður frá Melnum við Reykjavík. …Þeir bræður verzluðu þar í félagi fyrst framan af, þar til þeir skiftu með sér; verzlaði Finnbogi þar einn síðan, þar til í sumar sem leið (1923), að hann seldi verzlun þessa enskumælandi manni, sem nú verslar þar. Auk þessara tveggja verzlana, Björns og Finnboga, sem nú hafa verið nefndar, eru þessar verzlanir í Langruth sem stendur: Járnvöru og olíuverzlun Jóns Árnasonar Hannesson; timburverzlun Steina Olson (Þorsteins Björnssonar); kjötverzlun Karls Franklíns Björnssonar Líndal, sem gengur undir nafninu C. F. Lindal. Verkfæraverzlun hefir Guðni Ólafsson Thorleifsson. Fleiri verzla þar með jarðyrkjuverkfæri og fleira þar að lútandi, þar á meðal Jón járnsmiður Þorsteinsson ættaður af Álftanesi. Jón er afbragðs hagur maður, verkmaður mikill, og hefir fullkomin, mörg og margbrotin verkfæri til járnsmíðanna. – Aldin- og sætindaverzlun er þar; hana rekur nú Miss Kristlaug Valdimarsson. Þá verzlun rak áður Sóffonías Jósefsson Helgason. Eftir hann látinn keypti Miss Valdimarsson verzlunina. Þess þarf varla að geta, að síðan verzlun hófst í Langruth, hafa öll viðskifti bygðarmanna dregist þangað.“