Nafnið Winnipegosis er orð úr máli Cree frumbyggja og merkir litla leiruga vatn (little muddy water) og er því náskylt Winnipeg, leiruga vatn (muddy water). Þorpið er um 380 km frá Winnipeg og 170 km norðvestur að Reykjavik, sem er nyrsta, íslenska samfélagið við Manitobavatn. Mossey áin rennur úr Dauphin vatni norður í Winnipegosis vatn. Þorpið byggðist vestanmegin árinnar þar sem hún rennur í vatnið. Franskir landkönnuðir skoðuðu svæðin milli stóruvatnanna í Manitoba svo og svæðin vestan við Manitobavatn og var Pierre Gaultier de Varennes þeirra fremstur. Það var sonur hans sem byggði Fort Dauphin árið 1741 nærri þeim stað sem nú er Winnipegosis. Seinna byggði svo Hudson´s Bay Co. fyrirtækið sitt virki og verslunarstað þar nærri. Á fyrri hluta 19. aldar stóð skinnaverslun í miklum blóma og umhverfis virkin námu innflytjendur lönd og lítil samfélög urðu til. Skinnin voru flutt eftir ám og vötnum í Manitobavatn og með gufubátum suður vatnið og loks vögnum sem uxar eða hestar drógu til Winnipeg. Með stórauknum lestarsamgöngum um sunnanvert Manitoba frá 1880 til 1890 stækkuðu landnám á svæðum norður og vestur af Manitobavatni. Þörfin á járnbraut var mikil og um 1890 hefst vinna við járnbraut norður með Manitobavatni til Dauphin og loks þaðan árið 1896 til Winnipegosis. Það ár höfðu tvö hótel og tvö gistihús verið byggð í þorpinu, þrjár verslanir sáu þorpsbúum og íbúum nærliggjandi sveita fyrir nauðsynjum. Slátrari og járnsmiðir unnu sína vinnu í viðeigandi byggingum, þar var risin sögunarmylla og tvö stór útgerðarfyrirtæki höfðu þar bækistöðvar. Atvinna var mikil tengd fiskveiðum og skógarhöggi, það dró að innflytjendur, Íslendingar þeirra á meðal.
Íslendingar í Winnipegosis
Samkvæmt Vesturfaraskrá Júníusar H. Kristinssonar 1. Tafla fluttu um 6000 Íslendingar til Vesturheims á árunum 1886-1894, þorri þeirra til Kanada og vestur á sléttu. Meðal þeirra var Finnbogi Hjálmarsson frá Breiðuvík á Tjörnesi í S. Þingeyjarsýslu. Hann kom til Winnipeg ásamt konu sinni, Ólöfu Ólafsdóttur og einu barni þeirra árið 1887. Þau settust að í N. Dakota þar sem þau voru til ársins 1899. Þá fluttu þau til Winnipegosis þar sem þau bjuggu eftir það. Finnbogi skrifaði Landnámsþætti frá Íslendingum í Winnipegosis sem birtir voru í Almanakinu árið 1930. Grípum niður í innganginn:,, Árið 1897 komst járnbrautarálman út frá C.N.R. félagsins til lítils þorps 20 mílur suður héðan, sem nefnt er Sifton. Nú var eins og klofinn hefði verið þrítugur hamraveggur hvað samgöngur áhrærði. Dyrnar að þessu afar fiskauðuga vatni voru nú sama sem opnar. Þegar hingað er komið frá sögn minni rofnar alt þagnargildi um kosti þessa vatns og fiskisögurnar fara, eins og máltækið segir. Ekki þurftu þær að staulast staflausar lengra en til Winnipeg, því íslenzku ritstjórarnir veittu þeim allan farbeina ókeypis, léðu þeim með ánægku fréttafleytur sínar og stafi til að styðjast við um allar bygðir Íslendinga. Alstaðar var þeim tekið með opnum hlustum hjá landanum, en þó langbezt hjá þeim eldri, sem höfðu fæðst upp við sjávarsíðuna heima á gamla landinu, og þektu þær að fornu fari eins og fingur sína. Á landkosti hér mingust þeir aldrei, sagnir þeirra spunnust allar um vatnið og fiskana. Fyrst Íslendingurinn, sem vildi prófa sannleiksgildi þessara fiskisagna, mun hafa verið Þórður Jónsson frá Fossi í Kjós í Kjósarsýslu. Fyrsta vetrarvertíð hans við fiskveiði hér var vesturinn 1897-8. Frá þessum tíma fer þeim að fjölga, sem fluttust hingað til fiskveiða, svo veturinn 1899 eru Íslendingarnir orðnir 14, sem áttu útgerð sína sjálfir á þessu vatni. Fyrsta veturinn var fiskurinn fluttur til Sifton, því þangað var járnbrautun komin eins og áður er sagt, en næsta sumar 1898 komst hún hingað. Þessir Íslendingar, sem þá voru komnir hingað höfðu heimili sín hér í bæjarþorpinu, sem þá var aðeins að byrja að byggjast.“ Við þetta má bæta að Finnbogi segir í lokin; ,, Þegar þetta er skrifað munu um 300 Íslendingar lifa hér í bænum Winnipegosis og í nágrenninu.“
Félagsskapur: Fyrsta lestrarfélagið stofnuðu landnámsmenn á Red Deer tanganum eftir 1902 og starfaði það meðan flestir voru íbúarnir. Eftir 1907, þegar margir íbúar höfðu flutt burt og sest að í Winnipegosis eða sveitunum umhverfis þorpið leystist félagið hins vegar upp og nýtt var myndað í þorpinu. Árið 1917 var stofnaður þar lúterskur söfnuður, þjóðræknisdeildin Harpa var stofnuð eftir 1920 og þar starfaði kvenfélagið Fjallkonan.