Portage la Prairie

Vesturfarar

Portage la Prairie er um 85 km vestur af Winnipeg og er við þjóðveg #1, lengsta þjóðveg heims, sem nær þvert yfir Kanada frá Halifax í Nova Scotia til Vancouver við Kyrrahaf. Ýmsir ættbálkar frumbyggja höfðust þar við öldum saman t.d. Cree og Dakota. Franskir landkönnuðir fóru um þetta svæði Manitoba um miðja 18. öld. Þetta voru þeir Pierre-Esprit Raddisson og Médard des Groseilliers sem báðir áttu ríkan þátt í stofnun verslunarfélagsins volduga Hudson´s Bay Company. Líkur eru á að þeir hafi átt þátt í nafni staðarins sem dregið er af franska orðinu portage sem þýddi að bera smábáta milli vatnasvæða og í þessu tilfelli yfir sléttuna ,,the prairie“, frumbyggjar báru báta sína milli Assiniboine árinnar og Manitobavatns, leiðin var 25 km löng. Skinnaverslun náði vestur á sléttuna um 1740 og skömmu síðar var virki eða öllu heldur verslunarstaður skinnakaupmanna reist norðan við Assiniboine ána. Það var einnig dvalarstaður franskra landkönnuða sem voru leiðandi í landkönnun í vestrinu. Enskir trúboðar komu á svæðið um 1850, land var keypt af frumbyggjum, kirkja reist og skóli. Landnám við ána hófst, frjósemi sléttunnar leiddi landnema á svæðið, um 1860 höfðu 60 landnemar byggt sín hús og í kjölfarið opnuðu verslunarmenn sínar búðir.

Íslendingar og Portage la Prairie

Eftir 1880 lá leið margra Íslendinga um Portage la Prairie, sumir dvöldu í bænum einhvern tíma og héldu svo áfram för sinni á ákvörðunarstaðinn vestar í fylkinu og seinna vestur í Saskatchewan og Alberta. Þegar landnámið á Big Point hófst lá leið flestra frá Winnipeg, vestur til Portage la Prairie, áfram um Westbourne og norður á nesið þar sem Langruth stendur í dag. Fiskveiðar Íslendinga á Manitobavatni voru miklar, sumar, vetur, vor og haust. Á veturna veiddu menn niður um ís, frystu aflann á vatninu og þegar kom að flutningi hans til byggða ferðuðust menn eftir ísilögðu vatninu. Komu þeir að landi norðu af Westbourne, þangað komu kaupmenn og keyptu, fluttu fiskinn til Portage la Prairie og þaðan með lest til Winnipeg.  Vigfús Þorsteinsson og kona hans Guðríður Guðmundsdóttir fluttu vestur með börn sín til Winnipeg í Manitoba árið 1883. Leit þeirra að framtíðarstað var nokkuð táknræn, þau bjuggu í borginni einhvern tíma, settust svo að í Saskatchewan en fóru þaðan árið 1894 til Portage la Prairie. Þaðan lá svo leiðin á Big Point. Sigríður Friðriksdóttir var fædd 23. maí, 1851 í Strandasýslu. Hún fór  vestur um haf til Winnipeg í Manitoba árið 1888 með Marís og Jónínu. Þau fóru fyrst í Þingvallabyggðina í Saskatchewan en fluttu þaðan til Portage la Prairie í Manitoba. Þaðan fluttu þau svo á Big Point árið 1902. Tveimur árum seinna nam Marís land og hóf búskap. Sigríður bjó hjá honum til dauðadags. Portage La Prairie var þannig nokkurs konar áningastaður íslenskra innflytjenda, fáir munu hafa sest þar að en um og eftir aldamótin var nokkuð algengt að menn leituðu þangað þegar heilsan fór að gefa sig. Þar var heilsugæsla meiri og betri en tíðkaðist í dreifbýlinu. Og sumir enduðu æfina þar t.d. Sigríður Björnsdóttir úr Skagafirði sem þar dó hjá dóttur sinni, Dóru Þorbjörgu árið 1948.

Þessi mynd frá 1880 sýnir flutningalest á leið um þorpið, hugsanlega skinnakaupmenn langt að komnir úr vestri á leið til Winnipeg. Mynd Prairie Towns