Cypress River

Vesturfarar

Argylebyggðin nær nánast frá Glenboro í norðri og suður fyrir Baldur. Hún teygir sig suðvestur að Belmont og norðaustur að Cypress River. Svonefnd Hólabyggð var svo norðan og norðaustan við Cypress River

Þorp og bæir í Manitoba hafa mörg hver fengið ný nöfn og er Cypress River, sunnarlega í fylkinu, gott dæmi. Sagan segir að tveir bræður, þeir Robert og Nathaniel Little eigi heiðurinn af því að þorpið var myndað 1879 og var kallað Littleton. Þorpið er um 155 km vestur af Winnipeg, 16 km austan við Glenboro. Þótt Cypress River hafi aldrei orðið stór bær þá komu þó nokkrir Íslendingar við sögu hans. Grípum niður í Sögu Íslendinga í Vesturheimi 4. bindi bls. 212:

,, Jónas Anderson, sonur Halldórs Árnasonar (Anderson) frá Sigurðarstöðum á Sléttu, var þar stórkaupmaður um áratugi og fremstur í flokki, sat þar lengi í skóla- og bæjarráði. Helgi Helgason hefur rekið akuryrkjuverkfæraverzlun til margra ára. Samstarfsmaður hans er Brian Arason, sonarsonur Skafta Arasonar. Þeir Sveinbjörn Hjaltason, ættaður frá Stykkiahólmi, og Sigurður Pétursson (bróðir dr. Helga Péturss) unnu þar lengi við verzlunarstörf, sá síðarnefndi býr þar enn. Nefna skal hér þá Íslendinga, sem ég man eftir að hafa búið í þorpinu að nokkru ráði: Ólafur Torfason úr Þingeyjarsýslu, Sigurjón Stefánsson frá Raufarhöfn (hann dó þar 1897 eða 1898), Ingólfur Árnason úr Eyjafirði, Guðlaug Friðriksson úr Skagafirði og sonur hennar Jóhannes og fleira fólk hennar, Snorri og Árni Anderson (bræður Jónasar), Halldóra Kingsley. Björn B. Halldórsson (sonur Björns frá Úlfsstöðum í Loðmundarfirði) hafði gistihöllina (Hotel) þar í nokkur ár, Þorsteinn Indriðason hafði almenna verzlun þar ym skeið fyrir löngu síðan. Björn Helgason er hveitikaupmaður þar.“

Við þetta má bæta að Ingólfur Markússon sem fæddur var á Hömrum í Eyjafirði 1863 kom til Cypress River árið 1921 og varð umsjónarmaður barna- og unglingaskólans í bænum.

Árið 1882 nam Jón Ólafsson, f. í Eyjafjarðarsýslu 3. september, 1829, land í norðaustur hluta Argylebyggðar og nefndi bæ sinn Brú. Þar svo opnað póshús, samkomuhús og fyrir austan Brú var reist kirkja Fríkirkjusafnaðar. Sú kirkja var afhelguð árið 1997 og flutt á annan stað og breytt í veitingahús, Cafe Bru.

Cypress River skömmu eftir aldamót. Mynd Prairie Towns

.