Westbourne

Vesturfarar

pósthús í Westbourne í 1902 Mynd Manitoba Archives

Westbourne er lítið þorp um 120 km vestur af Winnipeg, 35 km frá Portage la Prairie og 34 km sunnan við Langruth. Landnám á svæðinu hófst um 1870 og þar var opnað pósthús árið 1871. Svæðið varð svo sýsla árið 1877, Municipality of Westbourne. Upp úr 1880 settust margir að í sýslunni og byggð þéttist og teygðist hægt í norður á vesturbakka Manitobavatns og náði til Lakeland um 1890. Slóði frá Portage la Prairie lá norður þangað um Westbourne og hann nýttu íslenskir landnemar sér þegar þeir völdu sér land norður við Langruth. Sumir komu frá N. Dakota, aðrir úr ýmsum byggðum í Manitoba og loks beint frá Íslandi. Fáir settust að í Westbourne, menn stöldruðu þar við annað hvort á leiðinni norður til Langruth eða þaðan suður til Portage la Prairie. Westbourne var líka ákvörðunarstaður fiskimanna á Manitobavatni, margir komu að landi syðst á vatninu og fluttu afla sinn til Westbourne og svo þaðan til Winnipeg. Séra Oddur Gíslason sem flutti vestur til Kanada kemur við sögu þorpsins. Hann þjónaði söfnuðum í Nýja Íslandi og Selkirk frá júlí árið 1894 til 1903. Þá sagði hann sig úr kirkjufélagi Íslendinga í Vesturheimi en þjónaði söfnuðum eftir það í Westbourne  og Þingvallabyggð í Saskatchewan.