Pilot Mound

Vesturfarar

Pilot Mound er lítill bær sunnarlega í Manitoba, rúmlega 180 km suðvestur af Winnipeg. Fylkisstjórn í samvinnu við ríkisstjórn Kanada hóf að skipuleggja landnám á kanadísku sléttunni vestur af Manitoba eftir 1870. Innflytjendur streymdu árlega til Kanada frá Evrópu, sigldu til Quebec og þaðan áfram með lest til Toronto í Ontario. Fyrstu Íslendingarnir fóru frá Ontario árið 1875, sigldu eftir vötnunum miklu í Bandaríkjunum vestur til Duluth í Minnesota. Þaðan var farið með lest að Rauðá og niður eftir henni á gufuskipi til Winnipeg. Þeir settust að í Nýja Íslandi. Þegar járnbraut náði frá Toronto til Winnipeg þyngdist straumur innflytjenda vestur á sléttuna. Mikil áhersla var lögð á samgöngur, helst járnbrautir og um Manitoba voru lagðar norðursuður brautir og vesturaustur brautir. Saga Íslendinga í Vestur Kanada síðustu tvo ártugi 19. aldar tengist mjög járnbrautavinnu m. a. í héraðinu umhverfis Pilot Mound.

Íslenskt landnám

Þegar brottflutningar frá Nýja Íslandi náðu hámarki 1880-1881 fluttu margir landnemar á svæði suðvestur af Winnipeg.  Byggðir Íslendinga mynduðust umhverfis þorpið Baldur, allt norður að Glenboro og Cypress River. Ungir menn og einhleypir sóttu í hvers kyns vinnu sem í boði var, margir unnu hjá bændum við hreinsun lands, sáningu og uppskeru. Aðrir sóttu í járnbrautavinnu sem var mikil á svæðinu sem kortið sýnir. Venjulega urðu þorp til þar sem einhver landneminn opnaði pósthús og smáverslun. Járnbrautafélögin unnu með fylkisstjórn að lagningu brauta og oft var landnema gefið leyfi til að opna pósthús vegna legu lands hans. Á árunum 1887-1889 komu fjölmargir Íslendingar vestur til Winnipeg, margir beint að heiman. Byggðir Íslendinga stækkuðu hratt og þéttust víða vestur og suðvestur af borginni. Elinborg Jóhannsdóttir ekkja úr Dalasýslu flutti vestur þangað ásamt sonum sínum, Einari og Árna. Árni fór vestur árið 1887 til Winnipeg og fékk járnbrautavinnu. Móðir hans og bróðir komu ári seinna og settist fjölskyldan að í Pilot Mound. Árið 1894 bættist Kristín Magnúsdóttir úr Hörðudal í Dalasýslu í hópinn og 1896 giftist hún Árna. Elinborg var orðin heilsulítil um þær mundir, fór til Winnipeg til lækninga en lést þar 1899. Árni, Kristín og Einar fluttu þá norður í Álftavatnsbyggð norður af Lundar og bjuggu þar síðan.

Pilot Mound um aldamót Mynd Prairie Towns