Lífsbaráttan var hörð á 19. öld. Fjölmargir glímdu við að hafa í sig og á og þak yfir höfuðið. Allt umfram það var munaður sem fólk leyfði sér aðeins sumardaginn fyrsta og á jólum ef á annað borð einhver efni voru til.
Ótrú eiginkona
Sigríður Jónsdóttir var ein þeirra mæðra sem horfði á börn sín verða þunn á vangann og vesældarleg sökum
matarskorts. Það bætti síst úr skák að eiginmaðurinn var sullaveikur og bjó tíðum við slæman kost eins og aðrir í fjölskyldunni sem heima voru.
Sigríður, fædd í Mývatnssveit árið 1826, átti Svein Þórarinsson amtsskrifara fyrir eiginmann og með honum átta börn. Eitt átti hún áður með öðrum manni, presti, og kom það undir þegar þau Sveinn voru heitbundin hvort öðru en fæddist tveimur mánuðum eftir að þau gengu í hjónaband. Barnið var tekið af Sigríði á fæðingarsæng og er vafasamt að hún hafi nokkru sinni litið það aftur augum. Eftir þetta var lengi stirt með þeim hjónum. Sigríður gerði Sveini þó allt til geðs en hann var kaldur á móti og átti erfitt með að fyrirgefa konu sinni ótrúmennskuna.
Í stórgóðri bók Gunnars F. Guðmundssonar um Nonna er að finna þessa lýsingu af þeim hjónum skrifuð í september 1872. Höfundur er kaþólski presturinn í Landakoti, séra Baudoin, en Gunnar telur líklegt að heimildarmaður hans sé Einar Ásmundsson í Nesi.
„Hún er mjög skapföst kona“, segir presturinn. „Og þar sem mótmælendatrúin hefur engin áhrif á slíkar persónur og megnar ekki á nokkurn hátt að snúa þeim til betri vegar, má segja að hún sé þóttafull, stórlynd og á það til að sýnast hégómleg. Hjónabandið gerði hana ekki hamingjusama,“ fullyrðir Baudoin.
Sveini gefur presturinn þessa einkunn: Hann „var afar menntaður maður af Íslendingi að vera, algerlega sjálfmenntaður … hann var hnyttinn, hugmyndaríkur og vel gefinn, rólyndur og íhugull og mikils metinn af öllum þeim sem kynntust honum.“
Þrátt fyrir óhamingju Sigríðar – og vafalaust Sveins líka – hélt hjónabandið til þess dags að Sveinn kvaddi þennan heim.
Erfið fæðing
Í september og október 1860 dóu þrjú barna þeirra Sigríðar og Sveins með skömmu millibili. Tvö lifðu veikindafaraldurinn af, Björg og Jón sem seinna varð víðfrægur sem rithöfundurinn Nonni. Enn bættust þrjú börn í hópinn, Ármann (Manni) 1861, Friðrik 1864 – hann varð þekktur listmálari í samfélagi Vestur-Íslendinga í Kanada – og Sigríður Guðlaug 1868.
Margt dreif á daga fjölskyldunnar sem bjó við nauman kost, einkum eftir að hún fluttist 1865 alfarin inn á Akureyri frá Möðruvöllum í Hörgárdal. Þar kom að þau hjón sáu sér ekki annað fært en að láta börnin frá sér, eitt eða fleiri. Elsta barninu og því yngsta, Björgu og Friðriki, var komið í fóstur til Ólafs Ólafssonar, frænda Sveins úr Kelduhverfi. Björg þjáðist hins vegar svo af heimþrá að hún fékk að snúa heim aftur en Friðrik litli fluttist með fóstra sínum til Vesturheims þar sem Ólafur varð einn forustumanna Íslendinga.
Nonni fór líka af heimilinu og inn á Espihól þar sem bjuggu góðu búi Eggert Gunnarsson og Elín Sigríður Runólfsdóttir. Rétt rúmum níu mánuðum síðar fæddist Nonna systir. Fæðingin var Sigríði erfið. Sveinn hafði fengið yfirsetukonu til að vaka yfir eiginkonu sinni en barnið lét bíða eftir sér og hún því farin til síns heima aftur þegar Sigríður loks kenndi jóðsóttar. Eftir langt stímabrak gat Sveinn talið nágranna sinn á að fara út eftir að sækja ljósmóðurina öðru sinni en hún bjó í sveitinni, töluvert fyrir utan kaupstaðinn.
Klukkan 8 að kvöldi hins átjánda dags ágústmánaðar 1868 ól Sigríður „efnilegt meybarn“ en þar sem fylgjan vildi ekki losna „fékk eg Pál Magnússon sem hér var staddur til að ríða heim til sín eptir homopatheskum meðölum“, skrifaði Sveinn í dagbók sína. Eftir langvinnar þrautir Sigríðar losnaði fylgjan að sjálfu sér klukkan fjögur um nóttina. Virtist Sveini að kona sín og barn væru frísk eftir vonum og þakkaði hann það meðölunum er Páll kom með.
Tveimur dögum fyrr fagnaði – ef það er þá rétta orðið – hin nýbakaða móðir fertugasta og öðrum afmælisdegi sínum.
Tæpu ári síðar, í júlí 1869, andaðist Sveinn. Sigríður og börn hennar þrjú, Nonni, Manni og Sigríður litla bjuggu veturinn næsta og fram á vor í húsi Páls Magnússonar.
„Dauðans hryllingur“
Í júlí 1870 fékk Nonni boð um að ferðast til Frakklands og uppalast þar í skjóli fransks aðalsmanns. Hann þáði boðið og í ágúst kvaddi hann móður sína og hélt út í heim. Þau sáust ekki aftur í þessu lífi. Næstu sex ár baslaði Sigríður áfram á Akureyri.
Ekki síðar en vorið 1871 varð Sigríður að flytjast úr Nonnahúsi og bjó eftir það á fjórum heimilum í kaupstaðnum. Árið 1873, um sumarið, missti hún frá sér seinasta barnið og eftirlætið sitt þegar Manni fylgdi í fótspor Nonna til Frakklands. Árið 1876 hleypti Sigríður Jónsdóttir heimdraganum og hélt til Kanada þar sem hún andaðist í mars 1910, komin á átttugasta og fjórða aldursár.
Seinna minntist hún þessa tíma í bréfi til Manna, sem þá var í Frakklandi við nám; „þegar eg fer að hugsa um seinustu árin mín á Akureyri, þá kemur í mig einhver dauðans hryllingur. En guði sé lof, það er liðið.“