Árið 1887 myndaðist lítið samfélag þar sem bærinn Saltcoats er í dag. Þá var ljóst að járnbraut yrði lögð þar um og árið 1888 var opnað pósthús. Samfélagið var hið fyrsta í Norðvesturhéruðunum til að uppfylla öll skilyrði til þorpsmyndunar og hlaut fyrst nafnið Sterling. Seinna var því breytt í Saltcoats eftir fæðingabæ eins stærsta hluthafa járnbrautafélagsins Saltcoats í Skotlandi. Rétt að geta þess að í Saltcoats í Skotlandi voru höfuðstöðvar Allen skipafélagsins sem var eitt afkastamesta fólksflutninga félagið í Evrópu og fjöldi Íslendinga fór með vestur um haf.
Íslenkir athafnamenn: Böðvar Ólafsson var fyrstur Íslendinga til að setjast að í þorpinu og opnaði verslun með aktygi árið 1896 en hann hafði unnið hjá The Great West Saddlery Co. í Winnipeg stuttu eftir komuna vestur árið 1888. Hann settist upphaflega að í Lögbergsbyggð með konu sinni, Ragnhildi Þóroddsdóttur en líkt og margir landar hans á þessum slóðum yfirgaf hann jörð sína á þurrkaárunum á sléttunum á árunum 1893-1895. Halldór Eyjólfsson og kona hans, Sigríður Þorkelsdóttir fluttu í Þingvallabyggð skömmu eftir komuna vestur árið 1887. Þau seldu land sitt, settust að í Saltcoats árið 1897 þar sem þau opnuðu byggingavöruverslun. Íslenskir bændur fluttu fyrst mjólkurafurðir sínar í mjólkurbúið í Saltcoats en eftir að eitt slíkt opnaði í Churchbridge fóru þeir þangað. Bændafélag var myndað í Saltcoats og líkt og í Churchbridge kom Jóhannes Einarsson að því og sat í stjórn þess um árabil. Árið 1912 varð Saltcoats hluti af samnefndu sveitarfélagi og var Ásmundur Sveinbjörnsson (Mundi Loptson) einn af fyrstu sveitarstjórum.