Calder þorp varð ekki til fyrr en C.N.R. Russell-Canora járnbrautin var lögð um svæðið árið 1909. Innflytjendur af ólíkum uppruna höfðu sest að milli Lögbergsbyggðar og járnbrautarinnar. Jóhannes Einarsson opnaði verslun á heimili sínu nokkru fyrr en hann bjó norðarlega í byggðinni. Þegar ljóst var hvar þorpið skyldi standa byggði Jóhannes verslun og rak hana með sonum sínum, Sigursteini og Jóhannesi. Hann seldi síðan verslunina árið 1941 til að sinna búgarði sínum og einbeita sér að félagsmálum. Árið 1910 var þorpið komið á skrá og sama ár opnuðu bræðurnir Páll og Halldór, synir Gísla Egilssonar og Ragnheiðar konu hans, timbur- og tækjaverslun og hét hún Egilson Bros. Ráku þeir hana til ársins 1936 en það ár andaðist Páll. Jóhannes, sonur Jóhannesar Einarssonar keypti þá tækjaverslunina.