Tantallon

Vesturfarar

Bræður tveir frá Skotlandi könnuðu svæði suðaustarlega í núverandi Saskatchewan á árunum 1884 -1888 og árið 1887 rákust íslenskir landkönuðir á þá. Annar bróðirinn, Thomas Douglas þekkti fararstjóra Íslendinganna, Frímann B. Andreson en hinn var James Moffat Doulas. Sá sýndi Íslendingunum Qu´Appelle dalinn þar sem þeir mynduðu íslenska byggð og nefndu Hólarbyggð. James Moffat þótti dalinn minna á umhverfi Tantallon kastala í Skotlandi og kaus hann það á lítið þorp sem myndaðist í dalnum og heitir Tantallon. Íslenskir athafnamenn flykktust ekki til þorpsins sennilega vegna þess að straumur manna þar um var lítill. Pósthús var opnað á staðnum 1. ágúst, 1897 og 17. júní, 1904 fékk staðurinn full þorpsréttindi. Hér skulu samt nokkrir nefndir. Fyrstur þangað var Jón Þorsteinnsson sem rak þar hesta- og vagnaleigu á árunum 1905-1909 og  eignaðist Jón Júlíus Jónsson hana árið 1914. Oddur Oddsson opnaði þar hótel og rak fáein ár en seldi svo og flutti til Langruth í Manitoba. Sigurður Jónsson starfaði sem kornkaupmaður fyrir North Star Grain Co. Ltd. um árabil og bjó í þorpinu.

Aðalgatan í Tantallon. Þorpið er í dalsbotninum en á myndinni sést gróður, ræktuð tún og garðar og trjágróður efst. Mynd Prairie Towns.