Þegar lestarteinar höfðu verið lagðir um Foam Lake árið 1907 kom eðlilega mikill fjörkippur í viðskiptalífið því landið norður af þorpinu og eins sunnan megin þess var numið og þörfin fyrir hvers kyns tæki, áhöld og þjónustu orðin gríðarleg. Jón Níels Jónsson (John Weum) úr N. Múlasýslu nam land árið 1902 einum 13 km. norður af þorpinu. Þar opnaði hann verslun á heimili sínu og rak í nokkur ár. Nærri Jóni nam Ólafur Pétursson land og saman ákváðu þeir að opna byggingavöruverslun í Foam Lake árið 1908. Sama ár flutti Ingvar Ólafsson frá Wadena til Foam Lake og opnaði timburverslun. Synir Sveins Halldórssonar opnuðu áhaldaverslun, Halldorson Brothers 1909 og sama gerði John Breiddal um svipað leyti. Árið 1910 varð til nýtt sveitarfélag, Rural Municipality of Foam Lake og var Guðbrandur Narfason kosinn fyrsti sveitarstjórinn. Hann lést áður en kjörtímabilinu lauk og var þá Jón Thorlacius ráðinn í hans stað árið 1913. Narfi A. Narfason, sonur Guðbrands gengdi embættinu í tvö kjörtímabil en lengst sat Helgi Helgason, sonur Kristjáns Helgasonar í stól sveitarstjóra eða 17 ár.