Af þorpum við járnbrautina sunnan Quill Lakes í Saskatchewan er Elfros svolítið sérstakt vegna þess að það var nánast alíslenskt frá upphafi. Fyrstu fjölskyldurnar settust að þar sem hét Elfros- hérað (Elfros District) árið 1903 og í ársbyrjun, 1906 foru 40 fjölskyldur og einstaklingar sestir að í byggðinni. Þá var ljóst að járnbraut C.P.R. fyrirtækisins færi um byggðina og á einum stað var ákveðið hvar járnbrautarstöðin skyldi standa. Járnbrautin náði til Elfros árið 1908, sama ár opnuðu Ólafur O. Jóhannsson og Jón Hallgrímsson verslun, sem þeir kölluðu Johannson & Company. Jón opnaði og pósthús árið 1909 og rak það til ársins 1916, gekk þá í kanadíska herinn og fór í stríðið í Evrópu. Á meðan hann var þar annaðist Sigþrúður Guðvaldsdóttir, unnusta Jóns, pósthúsið en þau gengu í hjónaband þegar Jón kom aftur vestur. Þórður Eggertsson (Thomas Vatnsdal) sem bjó og starfaði í Wadena opnaði timburverslun í Elfros og réði Höskuld Steinþórsson til að annast rekstur hennar. Íslendingar voru viðriðnir verslun og viðskipti í Elfros áratugum saman og tóku þátt í bæjar- og sveitastjórnarmálum. Þórður Árnason var kosinn fyrsti sýslumaður Elfros sýslu (Municipality) árið 1910 og gengu íslenskir íbúar þorpsins og byggðarinnar embættinu í mörg ár. Íslenskur söfnuður: Með járnbrautinni og opnun járnbrautarstöðvarinnar komu allmargar skoskar fjölskyldur, voru heimilisfeður viðriðnir ýmsa þjónustu járnbrautarfélagsins. Þeir tilheyrðu Skosku Presbytarian kirkjufélagi og stofnuðu strax söfnuð í þorpinu. Um líkt leyti stofnuðu Íslendingar sinn söfnuð en hvorugur söfnuðurinn hafði bolmagn til að reisa kirkju og því varð úr farsælt samstarf. Saman byggðu söfnuðurnir kirkju sem kallaðist The Union Church og gekk samstarfið prýðilega árum saman. Íslendingar í Vesturheimi hlutu að verða fyrir áhrifum nýrra strauma í trúmálum og ekki voru menn sáttir í þessum efnum og spruttu upp miklar deilur. Reynar má segja að deilur um trúmál hafi verið viðloðandi íslenskt samfélag vestra allt frá myndun Nýja Íslands árið 1875 og langt fram eftir 20. öldinni. Í íslensku byggðunum í Saskatchewan skiptust menn í hópa og fór enginn leynt með skoðun sína. Því tilheyrðu söfnuðir ýmist Lúterska kirkjufélaginu eða Unitarian kirkjufélaginu. Þessi staða leiddi til þess að tveir prestar þjónuðu t.a.m. öllum byggðum í Saskatchewan, annar var ,,kirkjufélagsprestur“ en hinn ,nýguðfræðingur“ eins og kallað var. Séra Runólfur Fjelsted, kirkjufélagsprestur bjó í fáein ár í Leslie var fyrsti presturinn búsettur í Saskatchewan. Lengi vel tíðkaðist að íslenskir prestar í Manitoba, N. Dakota eða Minnesota heimsóttu byggðirnar í Saskatchewan á fyrstu árum 20. aldar.
Minnisvarði í Elfros: Í Elfros er merkilegur minnisvarði um íslenskt landnám í Saskatchewan. Listaverkið er táknrænt fyrir kjölfestu íslenskra heimila í byggðunum, samhent hjón sem voru meira en bændur. Vesturfarar fóru ekki með mikið af veraldlegum gæðum með sér, heldur fluttu þau með sér aldagamla siði og menningu frá Íslandi. Sérhver vesturfari hafði einhvern tíma setið og hlýtt á upplestur í gömlu torfbæjunum, heyrt frumflutt ljóð og söng. Heimilin í Vatnabyggð voru líka menningarsetur, þar var ort, sungið og mikið lesið.