Staður vestur af Mozart fyrir járnbrautastöð og þorp var auðveldlega fundinn. Snemma ljóst að með tilkomu járnbraurarinnar sunnan við vötnin stóru og þorps við teinana beint suður af Quill Lake á braut C.N.R félagsins og C.P.R. félagsins væri komin hagstæð tenging milli járnbrautanna tveggja norðan og sunnan vatnanna. Athafnamenn víðs vegar að biðu ekki boðanna og þyrptust til þorpsins, flestir af öðrum uppruna en íslenskum sem leiddi til þess að á svæðinu öllu urðu íslenskir innflytjendur í minnihluta. Áhrifa þeirra gætti þó mjög bæði í sveitunum og þorpinu alla tíð. Vert að geta þess að flestir Íslendingarnir í þorpinu komu frá N. Dakota og því engin furða þótt eitt skólahérað byggðarinnar var nefnt Mountain School District. Það var vestur af Wynyard, stofnað árið 1906. Járnbrautin náði til Wynyard árið 1908.
Verslun og opinber störf: Jón Frímann Jónsson opnaði litla verslun á landi sínu rétt vestur af þorpinu árið 1905. Um leið og þorpið fór að byggjast flutti hann í þorpið og rak þar fataverslun í nokkur ár. Halldór Jónatansson flutti hús sitt af landi sínu í þorpið árið 1908 en hann hafði rekið í því verslun og pósthús frá árinu 1905. Á árunum 1909-1920 voru allmargir íslenskir kaupmenn í Wynyard. Jónas Eyjólfsson opnaði lyfja-verslun árið 1916 og árið 1918 gekk bróðir hans Arne Ágúst í lið með honum. Sveinn Oddsson flutti vestur frá Reykjavík árið 1903. Hann vann í Winnipeg við prentun Lögbergs, seinna hjá Gunnari Björnssyni í Minneapolis við prentun Minnesota Mascot í Minneota til ársins 1909, fór þá aftur til Winnipeg og prentaði Lögberg til ársins 1911. Þá settist hann að í Wynyard og hóf útgáfu blaðsins Wynyard Advance árið 1912. Með honum unnu um hríð bræðurnir Bogi og Páll Bjarnasynir. Sveinn reyndi útgáfu blaðs á íslensku en það gekk ekki, líklega vegna þess að þorri íbúa þorpsins voru af öðru þjóðerni og ýmsir af íslenskum uppruna lögðu lítið kapp á íslenskunotkun. Tveir íslenskir söfnuðir voru myndaðir og tvær kirkjur risu en prestsleysið gerði báðum söfnuðum erfitt fyrir. Menn fylgdu hefðum og stofnuðu lestrarfélög, kvenfélag var myndað og árlegur Íslendingadagur haldinn. Sú hátíð var vinsæl um allt fylkið, fólk sótti hátíðina í Wynyard frá Saskatoon, Yorkton og Churchbridge og auðvitað úr öllum sveitum Vatnabyggðar. Í Wynyard var héraðsdómstóll og aðsetur lögreglu. Egill Laxdal var eini Íslendingurinn kjörinn sýslumaður Big Quill sýslu sem varð til árið 1909.
Merkur húsflutningur: