Saskatoon er stærsta borgin í Saskatchewan og stendur á bökkum South Saskatchewan árinnar, miðsvæðis í fylkinu, um 170 km norðvestur af Vatnabyggð. Flestir segja að nafnið tengist algengri berjategund, Saskatoon eða saskwaton á máli Cree frumbyggja. Til eru tvær kenningar á nafngiftinni; önnur og sú algengasta greinir frá því að landneminn John Neilson Lake sem fór fyrir hópi landnema á svæðið árið 1883 hafi fengið að smakka berin og þótti bragðið gott, hrópaði ,,Dásamleg saskatoon – Drottning Norðursins“. Hin kenningin er sú að Cree frumbyggjar hafi sótt efni í örvar í sérstaka víðistegund sem óx í héraðinu og orðið ,,Sask-kwa-tan“ þá notað þar sem tegundin óx mest og best og þýddi ,,staðurinn þar sem víðirinn er skorinn“ Árið 1882 ferðaðist hópur góðtemplara frá Toronto, þar sem áfengi flæddi úr hófi fram að þeirra mati, vestur á sléttuna eftir að hafa samið við kanadísk yfirvöld um sérsvæði í Norðvesturhéraðinu. Þar ætluðu templarar að mynda ,,þurrt“ samfélag á kanadísku sléttunni. Það var hins vegar áðurnefndur John Neilson Lake sem árið 1883 leiddi fyrstu landnemana á svæðið þar sem borgin stendur nú. Árið 1903 fékk þorpið á vesturbakkanum kaupstaðaréttindi og 1906 varð Saskatoon borg með 4.500 íbúa.
Íslenskir íbúar
Á fyrsta áratug 20. aldar streymdu íslenskir innflytjendur í Bandaríkjunum, Kanada og jafnvel beint frá Íslandi í Vatnabyggð. Landbúnaður og fiskveiðar hentaði þessum best, fáir leituðu framtíðar í þorpum, bæjum eða borgum. Það voru helst afkomendur frumbyggja, önnur kynslóðin var að vaxa úr grasi og átti auðveldara með að aðlagast nýju samfélagi í mótun í Vestur Kanada. Einn þeirra var Júníus Jónsson, sonur Jóns Jónssonar á Skinþúfu í Seyluhreppi í Skagafjarðarsýslu. Feðgarnir fóru vestur til Kanada árið 1900 og fóru til Nýja Íslands. Júníus fékk tækifæri til að starfa með mælingamönnum í fylkinu og rendist farsæll í starfi. 28. apríl, 1921 birti Lögberg grein sem unnin var úr fréttablaði í Saskatoon og fjallar um Júníus. Greinina kallar blaðið ,,Íslenzkur myndarskapur“: ,,Þann 22. þ.m. flytur blaðið The Saskatoon Daily Star eftirfylgjandi grein um landa vorn, Júníus Jónsson; „Bærinn Saskatoon er í þann veginn að tapa einum af sínum allra beztu embættismönnum, Júníus Johnson, aðstoðar mælingamanni sem bæjarstjórnin í Prince Albert hefir ráðið til sín sem aðal umsjónar og yfirmann verklegra framkvæmda bæjarins, og umsjónarmann stofnana hans. – Í einu orði sagt aðal umsjónarmann bæjarmálanna. Bæjarstjórinn í Saskatoon hefir látið hrygð sína í ljósi út af burtför Mr. Johnson og vottað honum opinberlega þakklæti fyrir hið ágæta starf sem hann hefir unnið í þarfir bæjarins. Júníus er fæddur á Íslandi en kom til Canada árið 1900 og hefir séð meira af kjörlandi sínu en flestir aðrir Canadamenn. Fyrst eftir að hann kom til þessa lands settist hann að ásamt fólki sínu í Nýja Íslandi, en gekk í þjónustu mælingamanna Dominion stjárnarinnar eftir eins árs dvöl þar. Með þeim ferðaðist hann sem hér segir: Árið 1902 Norður-Manitoba, 1903 um Saskatoon héraðið og um part af Edmonton héraðinu. 1904 var hann vestur í Klettafjöllum. 1905 um 150-200 mílur í norður frá Prince Albert og suður til The Pas, í Pasguia og Porcupine hæðinni. Árið 1906–7 var hann aftur í Saskatoon héraðinu, en 1908 gekk hann í þjónustu Saskatoon bæjar, útlærður mælingamaður. Um þennan landa vorn farast borgarstjóranum í Saskatoon, Mr. Young svo orð: „Einn sá allra bezti maður sem við höfum nokkurntíma haft í þjónustu okkar.“ Borgar Commissioner Leslie, í Saskatoon segir um hann:“Mr. Johnson er undantekningarlaust einn af þeim ágætustu embættismönnum sem við höfum nokkurntíma haft. Hann hefir verið ósérhlífinn, einlægur og sannur í öllum sínum verkum og deild hans hefir haft umsjón á öllum byggingum vatnsveitum og saurrennum fyrir bæjarins hönd í mörg ár. Vér samverkamenn hans samfögnum honum út af þessari bættu stöðu hans og maklegu viðurkenningu og árnum honum allra heilla í henni. Og Prince Albert búum óskum vér til hamingju út af því að hafa borið gæfu til þess að fá slíkann ágætismann í þjónustu sína.“ Mr. Johnson tekur við embætti sínu í Prince Albert 15. maí næstkomandi“
Á árunum 1910-1914 fjölgaði Íslendingum nokkuð í bænum, frekari upplýsingar um þá síðar.