Prince Albert er í dag þriðja stærsta borg í Saskatchewan, á eftir Regina og Saskatoon. Borgin er í miðju fylkinu á bökkum North Saskatchewan árinnar. Hún er stundum köluð ,,Hlið Norðursins“ (Gateway to the North) vegna þess að um hana liggur helsti þjóðvegurinn til norðurhluta fylkisins. Cree frumbyggjar kölluðu staðinn „kistahpinanihk“ sem merkir ,,góður fundarstaður“ eða bara, ,,fundarstaður“. Henry nokkur Kelsey fór um héraðið árið 1692 þegar hann reyndi árangurslaust að fá frumbyggja þar til liðs við skinnakaupmenn. Það var svo ekki fyrr en 1776 að þar reis skinnaverslunarstaður. James Isbister, kynblendingur og starfsmaður Hudson´s Bay félagsins nam fyrstur land þar sem borgin stendur nú árið 1862 og vann landið til ársins 1866 en þá komu frændur hans og settust þar að. Var litla samfélagið þar kallað Isbister landnámið eftir það. Það var svo séra James Nisbet sem kom þar og opnaði trúboðstöð fyrir Cree frumbyggja. Nefndi hann hana eftir Alberti prins, eiginmanni Viktoríu drottningar en hann lést árið 1861. Þaðan er nafn borgarinnar komið. Íbúar þorpsins og héraðsins umhverfis voru flestir kynblendingar sem gengu í lið með uppreisnarmanninum og kynblendningum Louis Riel og börðust við hlið hans í uppreisninni 1885 gegn her Kanadamanna. Og þar komu Íslendingar við sögu.
Íslendingar í Prince Albert
Árið 1869-70 gerðu kynblendingar uppreisn í Manitoba sem nefnd var Red River Rebellion. Fyrir þeim fór Louis Riel sem hrökklaðist í útlegð til Bandaríkjanna þegar ljóst var að uppreisnin yrði brotin á bak aftur. Bersýnilega var hann hvergi hættur því hann var í stöðugu sambandi við kynbræður sína á sléttunni í Kanada og var einn þeirra James Isbister í Prince Albert. Árið 1884 tók James þátt í endurkomu Louis Riel til Kanada sem ávarpaði sitt fólk í Norðvesturhéraðinu (þetta var nafn svæðisins vestan við Manitoba til ársins 1905) og segir sagan að liðlega 500 hafi hlýtt á ræðu hans. Þegar ríkisstjórn Kanada varð ljóst að til ófriðar stefndi var ákveðið að senda her gegn liði Louis Riel og var óskað eftir sjálfboðaliðum. Fáeinir ungir Íslendingar skráðu sig í herinn, einn þeirra var Jakob Sigurðsson úr Barðastrandarsýslu. Hann fór vestur til Winnipeg í Manitoba árið 1876 og vann ýmsa vinnu næstu árin. Hann fór vestur í óbyggðir til Prince Albert og dvaldi þar til ársins 1885. Gerðist þá sjálfboðaliði í herflokk í Prince Albert sem tók þátt í að bæla niður uppreisn kynblendinga. Landnám í í Þingvalla- og Lögbergsbyggðum og seinna í Vatnabyggð laðaði flesta Íslendinga inn á Norðvesturhéraðið fram yfir aldamót. En til voru þeir sem leituðu vestar út á sléttuna. Einn þeirra var Vigfús Sveinsson Deildal úr Skagafirði sem vestur fór til Manitoba árið 1887 og bjó fyrst í Glenboro. Var eitthvað í Portage la Prairie en 1905 fór hann vestur til Prince Albert. Hann hafði unnið járnbrautarvinnu í Manitoba og var ráðinn verkstjóri vinnuhóps. Hann hélt því starfi um árabil uns hann hætti vinnu og flutti til Winnipeg. Hallgrímur Sigurðsson og kona hans, Sveinbjörg Pétursdóttir settust að með börn sín í Prince Albert árið 1912. Grimur Eyford, eins og hann var venjulega kallaður vestra, var ráðinn gatnagerðarstjóri borgarinnar og vann við það þar til honum bauðst svipað starf í Winnipeg árið 1928. Frekari upptalning á íslenskum íbúum í Prince Albert væntanleg.