Minneota er bær í Lyon sýslu í Minnesota, nokkurn veginn miðsvæðis í íslensku byggðinni. Staðarvalið tengdist lagningu járnbrautar um vestur Minnesota árið 1876 og mun fyrst hafa fengið nafnið Pumpa vegna þess að þar var vatnsdæla (water pump) járnbrautarfélagsins. Dæla þessi var á einkalóð svo þegar kom að því að byggja brautarstöð, pósthús og önnur þjónustufyrirtæki var staður valinn 2 km austar. Norskir innflytjendur koma mikið við sögu á upphafsárunum og var nýtt nafn, Nordland valið á staðinn og það notað til ársins 1878. Íbúum þótti nafnið óþægilega líkt nafni annars þorps, Norseland og því var ákveðið að kjósa um tvö nöfn, Horten eða Jaegersville. Að kosningu lokinni segir sagan að maður nokkur, ósáttur við bæði nöfnin, hafi stolið kjörkassanum og eyðilagt öll atkvæðin. Mun hann hafa átt þátt í því að nafnið Minneota var sent yfirvöldum í Washington sem samþykktu það áður en kosningin fór fram. Nú hét nýja þorpið Minneota sem tekið er úr máli Dakotas indjánaþjóðarinnar og merkir ,,mikið vatn“. Mun valið skýrast af frásögn af norskum landnema sem með aðstoð frumbyggja leitaði eftir vatni í brunn með góðum árangri því vatn fossaði inn í brunninn. Munu frumbyggjar þá hafa hrópað:,,Minneota“. (MPN) Íslenskir landnámsmenn fluttu vestur í nýja byggð á árunum 1875-1880, sumir frá Wisconsin aðrir beint af Íslandi. Augljóst að bréf Gunnlaugs Péturssonar til ættingja og vina á Austurlandi höfðu áhrif, hann hvetur þá til að koma í byggðina í Minnesota ef þeir á annað borð séu að hugleiða vesturför. Búskapur hentaði ekki öllum vesturförum, margir kusu daglaunastörf, ýmist hjá bændum eða í bæjum og þorpum. Fljótlega leituðu menn til Minneota þar sem nokkur uppbygging átti sér stað. Þar unnu menn verkamannavinnu, voru handverksmenn, aðrir kaupmenn og loks sumir embættismenn.
Verslun og viðskipti: Jóhannes Halldórsson sem tók nafnið Frost vestra flutti vestur árið 1873 og bjó í fimm ár í Milwaukee í Wisconsin. Hann flutti til Minnesota árið 1878 og var fyrsti Íslendingurinn til að setjast að í Minneota. Hann vann við verslun og árið 1883 opnaði hann eigin verslun í félagi við Jónatan Jónatansson. Þeirra verslun hét Frost & Peterson. Árið 1886 stofnuðu Íslendingar hlutafélag sem kallað var Verslunarfélag Íslendinga og var það stofnað til að efla efnahag félagsmanna og bæta verslun þeirra. Hluturinn kostaði 25 dali. Meðal stofnenda félagsins og helstu stjórnendur þess voru Stefán Sigurðsson frá Ljósavatni, Jósef Jósefsson og Björn Gíslason frá Vopnafirði, Einar Jónsson, Sigbjörn Hofteig, Guðmundur Grímsson o.fl. Félagið starfaði með miklum blóma í tíu ár en þá voru eignir þess seldar utan einnar fasteignar í Minneota. Áðurnefndur Guðmundur Grímsson (G. A. Dalmann vestra) settist að í Minneota árið 1879 og opnaði matvöruverslun þar árið 1888. Jón Stefánsson frá Egilsstöðum í Vopnafirði gekk í félag með honum árið 1890 og ráku þeir saman verslunina ,,Dalmann & Stephenson“ til aldamóta. Bjarni Jónsson frá Búastöðum í Vopnafirði hóf kjötverslun ,,B. Jones Meat Market“ árið 1889 og rak í mörg ár. Árið 1898 opuðu bræðurnir Þorvaldur og Árni, synir Björns Gíslasonar verslunina ,,Gislason Bros’‘ Stefán Sigurðsson frá Ljósavatni opnaði járnvöruverslun í félagi við Bandaríkjamann árið 1892, keypti seinna hlut hans og rak einsamall í nokkur ár. Snorri Högnason opnaði álnavöruverslun árið 1892 og vorið 1893 byrjaði Ólafur Guðni Ásgrímsson (O. G. Anderson) frá Búastöðum í Vopnafirði með álnavöruverslun. Sama ár gengu nokkrir landar hans í lið með honum svo úr varð ein öflugasta verslun ,,Big Store’‘ í suðvestur Minnesota.
Blaðaútgáfa og málafærslumenn: Vorið 1895 stofnuðu þeir Stefán Þorsteinn Jónsson (S. Th. Westdal) úr Vopnafirði og Gunnar Björnsson úr Jökuldal prentfélag sem þeir nefndu ,,Westdal & Björnsson“. Þeir keyptu vikublaðið Mascot sem gefið var út í Minneota, önnuðust prentun blaðsins og útgáfu. Stefán keypti hlut Gunnars tveimur árum seinna og hélt áfram prentun og útgáfu. Hann gaf ennfremur út ,,The Minnesota Good Templar“ og var jafnframt einn ritstjóri þess. Þá annaðist hann útgáfu sunnudagaskólablaðs íslenska kirkjufélagsins ,,Kennarinn“ sem séra Björn B Jónsson ritstýrði. Í marsmánuði, 1902 hófst útgáfa ,,Vínlands“, íslensks blaðs í Minneota og var Gunnar Björnsson útgefandinn. Ritstjórar voru Séra Björn B Jónsson og Þórður Þórðarson læknir (Dr.Th. Thordarson) úr Húnavatnssýslu. Árið 1904 verður Þórður einn ritstjóri, Séra Björn framkvæmdastjóri en úrgáfuna annaðist nýtt félag ,,Vínland Publishing Co“. Blaðið varð vinsælt og þótti vel skrifað en Þórður ritstjóri átti mest efni og þóttu margar greinar hans einstaklega fræðandi. Útgáfu var hætt í febrúar, 1907. Guðni Júlíus Oleson skrifaði um blaðið í ,,Saga Íslendinga í Vesturheimi V“ og ræddi stuttlega ritdeilu þess og Lögbergs í Winnipeg. Hann skrifaði:,,Annars má segja, að orðbragðið í báðum blöðunum væri vel í samræmi við það, sem tíðkaðist í ritdeilum Íslendinga hér vestra á fyrri árum. Utan þess, sem nú hefur verið nefnt, var Vínland laust við allar ritdeilur, en lagði sterka áherzlu á að flytja fræðandi ritgerðir. Annars var Vínland eitt bezta blað, sem hér vestra var gefið út á íslenzku. Var sennilega ómögulegt, að blaðið gæti borið sig fjárhagslega. Urðu þeir, sem næstir því stóðu, að vinna að því fyrir lítil laun eða engin og jafnvel fara ofan í eigin vasa til að halda því lifandi. Það var því ekki við því að búast, að það gæti flotið lengur. En það á sinn menningarreit í sögu Vestur-Íslendinga og Minnesota-Íslendinga sérstaklega.“ Björn Björnsson frá Hauksstöðum í Vopnafirði var 5 ára þegar hann fór vestur með föður sínum, Birni Gíslasyni og systkinum árið 1879. Hann menntaðist vel, nam lögfræði og varð málaflutningsmaður í Minneota. Hann var einn helsti hvatamaður að stofnun ,,Globe Land & Loan Company“ en það seldi og keypti lönd og lánaði fé. Kristján Magnússon (C.M.Gislason), sonur Magnúsar Gíslasonar úr Bárðardal fór vestur með foreldrum sínum árið 1873 og bjó fyrst í Wisconsin. Hann stundaði nám við Ríkisháskólann í Minneapolis og gerðist málaflutningsmaður árið 1894.
Læknir 0g kennarar: Þórður Þórðarson (Dr. Th. Thordarson) flutti vestur árið 1887 og nam læknisfræði í ,,College of Physicians & Surgeons“ í Chicago 1893-97. Hann hóf störf í Minneota sama ár og setti mikinn svip á íslenska samfélagið því ekki aðeins stundaði hann lækningar heldur ritstýrði hann Vínlandi alla tíð. Hugur margra ungra Íslendinga í Minnesota hneigðist snemma að menntun og gengu margir menntaveginn. Tækifæri voru mörg og það var einn liður í aðlögun að ungu, bandarísku samfélagi að stunda nám í framhalsskólum. Kennarastörf heilluðu marga t.d. útskrifaðist Sigurður Sigvaldason frá Búastöðum í Vopnafirði frá Ríkisháskólanum í Minneapolis og gerðist kennari. Þá útskrifuðust árið 1895 frá sama skóla tvíburasysturnar Jónína Rósa og Jóhanna Þórunn Jónatansdætur sem báðar kenndu í Minnesota. Munu þær hafa verið fyrstar, íslenskra stúlkna til að ljúka háskólanámi í N. Ameríku.
Prestar: Snemma á frumbýlingsárunum í Minnesota voru myndaðir söfnuðir í íslensku byggðunum og þorpunum, Minneota og Marshall. Prestarnir Séra Páll Þorláksson og séra Jón Bjarnason sinntu köllun frá Nýja Íslandi og gerðust prestar þar. Séra Páll stofnaði reyndar fyrsta íslenska söfnuðinn í Shawano byggðinni í Wisconsin árið 1875 og gerðist prestur Íslendinga og Norðmanna þar. Þótt hann færi norður til Nýja Íslands taldist hann áfram vera prestur safnaðarins í Shawano. Hann fylgdist vel með löndum sínum í Bandaríkjunum og heimsótti ungu byggðina í Minnesota árið 1877. Séra Jón Bjarnason heimsótti byggðina ári síðar og dvaldi þar um hríð. Kom þangað aftur árið 1880 en var þá á heimleið til Íslands. Leiðtogar safnaðanna í Minnesota ræddu ráðningu prests við séra Jón og nefndu við hann að áhugi væri á að fá prest að heiman og voru fjórir nefndir til sögunnar þeir séra Jón Halldórsson, séra Þorvaldur Bjarnason, séra Valdimar Briem og séra Jens Pálsson. Hvort séra Jón samþykkti bón þessa er ekki ljóst en hann benti löndum sínum á séra Halldór Briem í Nýja Íslandi. Hann tók vel í kallið frá Minnesota og kom þangað í apríl, 1881 og þjónaði söfnuðunum í eitt ár en hvarf þá þaðan heim til Íslands. Nokkur ár voru söfnuðirnir prestlausir, það var svo árið 1886 að séra Friðrik J. Bergmann heimsótti nýlenduna á leið sinni til safnaðanna í N. Dakota. Hann var þá nýútskrifaður frá lúterskum prestaskóla í Philadelphia. Séra Friðrik dvaldi í Minnesota einhvern tíma og vann mörg prestverk en hélt svo heimferð sinni áfram til N. Dakota. Níels Steingrímur Þorláksson hafði verið samtíða séra Friðriki í prestaskólanum í Philadelphia en hafði síðan farið til Noregs í frekara nám. Íslendingarnir í Minnesota sendu honum þangað köllun og varð hann við henni. Séra Jón Bjarnason var um þær mundir snúinn aftur til Vesturheims og þáði Níels prestvígslu af honum í Minnesota og hóf þar síðan störf. Hann starfaði í byggðinni til ársins 1894, flutti þá í Parkbyggð í N. Dakota en við stöðu hans í Minnesota tók séra Björn B. Jónsson.